„Prjónið bjargaði geðheilsu minni í veikindunum“

Guðrún Ólöf Gunnarsdóttir kennir fólki réttu handtökin í prjónaskap.
Guðrún Ólöf Gunnarsdóttir kennir fólki réttu handtökin í prjónaskap.

Prjónaskapur hefur fylgt þjóðinni síðan land byggðist en það eru þó ekki allir sem prjóna jafnsmart flíkur og Guðrún Ólöf Gunnarsdóttir. Eftir að hafa misst annan fótinn í fyrra vegna krabbameins fann hún hvað prjónaskapurinn hjálpaði henni mikið að komast í gegnum veikindin. Í stað þess að vera ein heima að prjóna fór hún að kenna öðrum listina með góðum árangri. 

Guðrún Ólöf byrjaði að prjóna þegar hún var 12 ára gömul en nokkrum árum áður hafði hún lært undirstöðu í handavinnu en fann fyrir litlum áhuga.

„Amma mín var mikil prjónakona og hjálpaði mér að byrja á minni fyrstu peysu. Einnig hafði ég frábæran kennara í næsta húsi sem heitir Guðrún Hrönn Hilmarsdóttir, matreiðslukennari í Melaskóla. Auk þess er hún móðir bestu vinkonu minnar. Hún kenndi mér öll trixin í prjóni og líka alla þolinmæðina sem fylgir prjónaskapnum. Við vinkonurnar prjónuðum okkar fyrstu peysu með misgóðum árangri sem gerði mig afar stolta af sjálfri mér. Ég tók mér gott hlé í nokkur ár og byrjaði aftur á fullu þegar ég var ófrísk að mínu fyrsta barni 1993 og hef prjónað síðan með hléum,“ segir hún.

Ég hef heyrt að prjónaskapur geti komið fólki í gegnum ótrúlegustu áföll sem geta bankað upp á í lífinu. Var það þannig í þínu tilfelli? Fórstu að prjóna meira eftir að þú misstir annan fótinn?

„Ég fullyrði að prjónið bjargaði geðheilsu minni í veikindunum. Það að prjóna er hugleiðsla, samspil hugar og handar. Þú ferð að anda rólegar og slakar á. Það reynist okkur erfitt ef hugurinn er órólegur, tilfinningarnar út um allt eða líkaminn verkjaður. Að prjóna gerir það að verkum að andardrátturinn breytist ósjálfrátt, sem hefur róandi áhrif á hug og líkama. Prjónið þjálfar einnig sköpunarkraftinn og ímyndunaraflið og styrkir einbeitingu, sem hefur hjálpað mér ótrúlega. Ég hef aldrei prjónað eins mikið og nú og því ákvað ég að gera eitthvað meira í því en að sitja bara heima ein og prjóna og vildi opna á þann möguleika að aðrir fengju að njóta og upplifa með mér í einstaklega notalegu og afslappandi umhverfi á mínu heimili.“

Guðrún Ólöf missti annan fótinn í fyrra.
Guðrún Ólöf missti annan fótinn í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dag kennir Guðrún Ólöf fólki grunninn í prjónaskap á byrjendanámskeiði þar sem farið er vel yfir það sem þarf að kunna til að geta prjónað flík.

„Þegar því námskeiði er lokið mæli ég með að taka peysuprjónanámskeiðið strax á eftir til að læra að prjóna flík frá byrjun til enda. Peysuprjónanámskeiðið hentar öllum þeim sem kunna aðeins grunninn, að prjóna slétt og brugðið og fitja upp. Ég kenni öll helstu trixin og að lesa uppskrift og hvað þarf að varast þegar maður byrjar að prjóna flík,“ segir hún.

Hún lætur nemendur prjóna peysu frá grunni og er það hluti af heimavinnu.

„Svo verð ég með framhaldsnámskeið fyrir lengra komna og þá förum við í að prjóna flík sem krefst aðeins meiri einbeitingar og flóknari aðferða. Þessi námskeið hafa verið ótrúlega vinsæl hjá mér og vil ég því halda áfram með þau. Að halda námskeiðin gefur mér svo ótrúlega mikið og sérstaklega að upplifa hvað nemendur mínir eru ánægðir.“

Hvað er fólk að prjóna á námskeiðunum?

„Á grunnnámskeiðinu erum við aðeins að prjóna prufur og læra það það helsta í prjóni. Ákveðna undirstöðu til að geta prjónað flík. Nemendur þurfa ekki að hafa neinn grunn til að koma á grunnnámskeiðið.

Á peysuprjónanámskeiðinu er prjónuð peysa frá grunni til enda og lært allt sem til þarf til að geta prjónað flík. Einnig kenni ég að lesa uppskrift því oft er það svo að fólk einfaldlega kann ekki að lesa uppskriftir því þar er notast við ákveðið prjóna-„lingó“ sem ég fer vel yfir. Undirstaða fyrir það námskeið er að kunna aðeins að prjóna slétt og brugðið og kunna að fitja upp á lykkjur. Í október verð ég með framhaldsnámskeið, mun kenna flóknari prjón og aðferðir. Það námskeið hentar þeim sem kunna að prjóna einfaldar flíkur og vilja auka við sig þekkingu.“

Guðrún Ólöf hefur fengið fólk til sín á námskeið sem hefur ekki kunnað að halda á prjónum en hefur lært að prjóna peysu.

„Margir halda að þeir hafi þetta ekki í sér eða þeir eru örvhentir en það er ekkert vandamál. Það geta allir lært að prjóna. Yngsti nemandinn minn var 16 ára og sá elsti 84 ára. Ég legg allan minn metnað í að enginn fari frá mér nema hann sé búinn að læra öll þau handtök sem til þarf.“

Til þess að afurðirnar verði sem fallegastar er Guðrún Ólöf farin að flytja inn garn frá Noregi sem heitir HipKnit.

„Ég kynntist þessu garni fyrir nokkrum árum og heillaðist svo af litunum sem voru í boði. Svo fór ég að kaupa það á netinu og byrjaði að prófa garnið og algjörlega elskaði það. Wool-garnið er hrein og mjúk ull frá Perú sem notuð er í grófari peysur eins og í lopapeysur og fleira því hún stingur ekki.

Pop merino-garnið hefur verið tekið í fínni peysur. Það er einstaklega mjúk ull sem hentar í hvað sem er og er frábær í barnaflíkur og teppi. Svo er ég með æðislegt mohair-garn sem er það allra vinsælasta hjá mér. Það sem er mest heillandi við mohair-garnið frá HipKnit er að flíkin heldur sér svo vel, jafnvel eftir áralanga notkun.“

Hvað er svona mest í tísku í prjónaheiminum akkúrat núna?

„Peysur með mikilli yfirvídd eru vinsælar og opnar peysur eru að koma sterkar inn. Það má segja að það sé ótrúlega vinsælt að vera í heimaprjónuðu í dag. Jarðlitirnir eru alltaf vinsælastir í prjóni en litríkir tónar munu einkenna veturinn í ár. Sterkir litir eins og gult, blátt, appelsínugult, grænt og bleikt eru vinsælir litatónar í bland við þá dökku. Það sem er hámóðins núna eru mohair-peysurnar. Þær vekja einnig mestu athyglina.“

Nánari upplýsingar gudrunolof.com

Hér má sjá vetrartísku Chanel í ár. Þar eru prjónaflíkur …
Hér má sjá vetrartísku Chanel í ár. Þar eru prjónaflíkur áberandi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda