Hver tæknibyltingin rekur aðra á 21. öldinni og aldrei hefur verið auðveldara að eyða peningum. Maður þarf bara að hafa með sér tækið sem maður lætur hvort sem er aldrei frá sér. Ef þú ert búinn að setja þér markmið um að spara fyrir einhverju ákveðnu, eins og húsnæði, útlandaferð eða rafhjóli ættir þú að velta fyrir þér kostum þess að ganga um með reiðufé.
Flest sem vinna heiðarlega vinnu fá laun sín greidd inn á bankareikning og velta lítið fyrir sér fjárhagnum fyrr en í upphafi mánaðar þegar þau þurfa að greiða reikninga. Fæst sjáum við launin okkar í áþreifanlegum peningaseðlum.
Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að fólk á erfiðara með að borga fyrir hluti með reiðufé.
Það er sniðugt að vera búin(n) að skipuleggja útgjöld mánaðarins áður en laun eru borguð út. Ef þú ert einn af þeim sem á erfitt með að spara og átt það til að eyða meiru en þú ætlar þér, þá gæti þetta ráð hjálpað þér.
Þegar þú hefur fengið útborgað og greitt reikninga í heimabankanum, þá stendur út af ákveðin upphæð til ráðstöfunar út mánuðinn sem fer í neyslu og sparnað.
Tökum sem dæmi að þú hafir ákveðið að ákveða að ráðstafa 150.000 krónum til neyslu. Taktu þessa upphæð út úr bankanum í reiðufé, skiptu peningnum niður á þá flokka sem þú ætlar að hafa. Flokkarnir sem þú þarft að nota eru hér að neðan og upphæð hvers flokks fer í sér umslag. Sú fjárhæð er það sem þú hefur til ráðstöfunar í viðkomandi útgjaldalið þennan mánuðinn.
Í hvert skipti sem þú ferð að versla, þá tekur þú af þeirri fjárhæð sem er í viðeigandi umslagi. Til dæmis mætti hugsa sér þessa skiptingu:
Matur: 80.000 krónur
Eldsneyti: 20.000 krónur
Út að borða/skyndibiti: 20.000 krónur
Skemmtun: 15.000 krónur
Annað: 15.000 krónur
Þetta er mjög einföld uppsetning og tölurnar bara dæmi, ekki regla. Það er mismunandi hvað flokkar og upphæðir henta hverjum og einum og það finnur þú út sjálf(ur) með tímanum. Þetta er góð leið til að takmarka eyðslu og maður hugsar sig vonandi tvisvar um áður en maður eyðir í óþarfa.
Þetta er mjög góð leið til að hvíla kreditkortin og eyða bara því sem þú átt. Það er líka sniðugt að taka út reiðufé ef þú ert að spara fyrir einhverju ákveðnu og safna því saman í söfnunarumslag.