Simran Kaur hefur notið mikils fjárhagslegs velgengis í lífinu. Hún er aðeins 25 ára en er milljónamæringur og heldur úti vinsælu hlaðvarpi Girls That Invest en þar fjallar hún um peningamál. Í viðtali við The Daily Mail fer hún yfir öll þau helstu mistök sem hún hefur gert í fjármálum.
„Oftar en ekki heyrum við aðeins um það sem heppnast vel í fjármálum fólks, hvað það gerði til þess að verða ríkt og svo framvegis. En ég held að það sé jafnmikilvægt að deila því sem misheppnaðist,“ segir Kaur.
Í stað þess bara að eyða ekki um efni fram þá undirstrikar Kaur mikilvægi þess að fjárfesta og að forðast óþarfa eyðslu.
Þá bendir hún á að hún hafði alltaf gert ráð fyrir að best væri að borga niður námslán eins hratt og mögulegt væri. „Ég lærði í Nýja Sjálandi og þar eru lánin vaxtalaus. Það þýðir að þau eru hagstæðari til langs tíma og betra að borga þau hægt niður.
Kaur segist alltaf sjá eftir að eyða peningum í dýra hluti. „Ég lít oft til baka og mér hryllir við peningunum sem ég eyddi í til dæmis rándýra veitingastaði og ég var ekki einu sinni södd eftir máltíðina. Þetta er bara ekki þess virði.“
Það er mikil óvissa í efnahagslífinu núna og hlutabréf hafa tekið dýfu og margir selja í örvæntingu sinni. Langtíma fjárfestar vita hins vegar að það er betra að gefa þessu tíma og vonast til þess að koma út í plús á endanum.
Kaur segist hafa gert þau mistök fyrst þegar hún fór að fjárfesta í hlutabréfum. „Amazon hlutabréfin mín lækkuðu um 3 dollara og ég panikaði þannig að ég seldi allt. Ég hefði hins vegar átt að halda þetta út. Ég endaði á að kaupa aftur bréfin. Það er sorglegt því það er tekið ríflegt gjald af manni þegar maður kaupir og selur. Þannig að ég tapaði enn meiri peningum. Nú veit ég betur en maður verður að byrja einhvers staðar og læra af reynslunni,“ segir Kaur sem einnig mælir ekki með því að fólk sé að skoða gengi bréfanna í safni sínu á hverjum degi. „Það getur verið of stressandi og leitt til þess að maður gerir mistök. Rannsóknir sýna að því sjaldnar sem maður kíkir á safnið, því betra.“
Kaur segir að stærstu mistökin sé að hafa ekki trú á sér og halda að það að fjárfesta sé of flókið fyrir mann.
Þegar hún var yngri þá hélt hún að það að fjárfesta væri bara fyrir talnaglögga karlmenn í jakkafötum. „Ég hélt að bara ríkt fólk gæti fjárfest en svo er hins vegar ekki. Það að fjárfesta er hins vegar tæki til þess að hjálpa manni að efnast.“