Úr fjármálaheiminum í kvikmyndagerð

Snævar við tökur á stuttmyndinni Lightcatcher sem kom út árið …
Snævar við tökur á stuttmyndinni Lightcatcher sem kom út árið 2017. Hann sér ekki eftir að hafa lagt fyrir sig kvikmyndagerð.

Þegar hann þurfti að velja sér nám fannst Snævari Sölva Sölvasyni fullkomlega óraunhæft að læra kvikmyndagerð. Hann valdi því í staðinn fjármálaverkfræði en elti svo drauminn eftir útskrift.

Það er ekki alltaf auðvelt að finna réttu leiðina í lífinu og ættu margir lesendur að kannast við hversu snúið það var að velja braut í framhaldsskóla eða gera upp við sig hvaða háskólanám væri best að stunda.

Snævar vissi sjálfur ekki alveg í hvorn fótinn hann átti að stíga eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði. „Í menntaskóla hafði ég hlítt þeim ráðum að velja raungreinabraut til að halda sem flestum dyrum opnum, og þegar kom í háskóla varð því úr að byrja í efnaverkfræði við HÍ,“ segir Snævar og kveðst hafa verið ósköp týndur ungur maður. „Á þessum aldri er maður varla byrjaður að þekkja sjálfan sig, en ég vissi þó að ég væri mjög forvitinn um orkuskipti og langaði að taka með einhverjum hætti þátt í rafmagns- og vetnisbyltingunni. Síðan kom í ljós að mér dauðleiddist að verja deginum inni á rannsóknarstofu í hvítum sloppi að blanda saman efnalausnum.“

Á tökustað er Snævar (f.m.) í essinu sínu. Hann var …
Á tökustað er Snævar (f.m.) í essinu sínu. Hann var í námi í fjármálaverkfræði þegar hann tók að sér gerð myndbands fyrir árshátíð og uppgötvaði hve vel það lá fyrir honum að framleiða leikið efni.

Blessunarlega var ekki erfitt fyrir Snævar að skipta um nám enda rétt nýbyrjaður í efnaverkfræðinni, og færði hann sig yfir í fjármálaverkfræði. „Þetta var um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar og það fór ekki fram hjá neinum að helstu hetjur samtímans voru á kafi í fjármálageiranum. Mér fannst fjármálaheimurinn forvitnilegur og hafði byrjað að móta með mér ákveðnar heimspekilegar hugmyndir um peninga,“ segir Snævar. „Í náminu fékk ég líka að kynnast annars konar manngerðum en ég hafði alist upp með í Bolungarvík – snjöllum strákum úr Verslunarskólanum og MR með brennandi áhuga á viðskiptum.“

En svo kom hrunið, og segir Snævar það hafa verið undarlegt að fylgjast með atburðarásinni úr skólastofunni. „Þarna vorum við að reikna út og verðleggja flóknar fjármálaafurðir eins og skuldabréfavafninga, og svo kemur bara í ljós að þessar afurðir höfðu myndað svartholið sem allur heimurinn féll á endanum ofan í.“

Áttaði sig á hæfileikanum

Bankahrunið varð alls ekki til þess að gera Snævar fráhverfan fjármálaverkfræði, en hann var ekki alveg búinn að finna sína hillu í lífinu. Eitthvað annað togaði í hann. „Ég starfaði aðeins í fjármálaheiminum; var þjónustufulltrúi og lánafulltrúi hjá sparisjóði meðfram námi og aftur eftir nám, og vann í hálft ár hjá Seðlabankanum strax eftir útskrift en ákvað að framlengja ekki samninginn þar.“

Það sem togaði var kvikmyndagerð, og hafði Snævar gengið með drauminn í maganum í langan tíma en einhvern veginn ákveðið að það væri óraunhæft að reyna fyrir sér á því sviði. „Frá því ég var krakki langaði mig að gera kvikmyndir en á þessum tíma virtist það algjörlega utan seilingar og það var engin fyrirmynd eins og Baltasar Kormákur sem hafði náð að komast rækilega á kortið í hinum alþjóðlega kvikmyndaheimi og gat lifað á starfinu. Kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi var heldur ekki kominn á þann stað sem hann er í dag,“ útskýrir Snævar.

Það kviknaði á perunni þegar auglýst var eftir sjálfboðaliðum til að útbúa myndbandsannál fyrir árshátíð verkfræðideildarinnar. Snævar stökk á tækifærið. „Ég man hvað ég átti auðvelt með að reyta af mér sketsa og samtöl, og gat séð fyrir mér hvernig best væri að setja efnið fram sjónrænt, án þess að þurfa að hugsa um það. Þetta var ekki eins og að baksa við að reikna út stórar diffurformúlur í verkfræðinni, heldur var upplifunin eins og ég væri að spila á hljóðfæri sem ég hafði kunnað á allt mitt líf.“

Snævar á setti Albatross.
Snævar á setti Albatross.

Fylltist innblæstri í fiskvinnslu

Var köllunin svo sterk að samhliða störfunum hjá Seðlabankanum byrjaði Snævar að skrifa niður hugmyndir að sögum og semja handritsdrög, auk þess sem hann tók að sanka að sér kvikmyndatökubúnaði. „Þegar þessu tímabundna starfi mínu hjá Seðlabankanum lauk hélt ég áfram að skrifa, án þess að hafa einhverja áætlun um framhaldið. Þannig liðu nokkrir mánuðir og fljótlega var ég kominn í peningavandræði, með jólin á næsta leiti. Ég fór þvi aftur heim til Bolungarvíkur og fékk vinnu í fiskvinnslunni eins og maður gat alltaf gert ef mann vantaði pening með hraði. Þar fæ ég svona rosalega mikinn innblástur og ég sá hvernig staðurinn var tilvalið sögusvið fyrir litla kvikmynd.“

Úr varð að Snævar gerði sína fyrstu kvikmynd; Slægingameistarana, um dag í lífi ungra manna sem vinna við að slægja fisk og ætla á ball um kvöldið. Snævar segir myndina innblásna af indí-myndinni frægu Clerks eftir Kevin Smith. „Verkið frumsýndi ég í félagsheimilinu og þegar ég heyrði bæjarbúa hlæja og skemmta sér þá varð ekki aftur snúið, og ég fór að skoða hvaða kvikmyndanám gæti verið í boði.“

Í tökum á Eden.
Í tökum á Eden.

Snævar sá að kvikmyndanám í Kaliforníu yrði sennilega of dýrt og sótti hann því í staðinn um vist hjá Kvikmyndaskóla Íslands. Til að gera langa sögu stutta blómstraði Snævar í náminu, og eftir aðeins eitt ár á skólabekk hóf hann tökur á kvikmyndinni Albatross sem hann gerði með aðstoð samnemenda sinna. Segir hann það hafa verið nokkuð djaft að ráðast í svona stórt verkefni, og eftir tökur sumarsins hafi allur veturinn farið í að klippa myndina til. „En Sena keypti dreifingarréttinn, og myndin sló í gegn á RÚV.“

Allt annað starfsumhverfi

Albatross kom út árið 2015, og árið 2019 sendi Snævar frá sér myndina Eden, en hann á heiðurinn af bæði handriti og leikstjórn myndanna tveggja. Hann er með nokkur verkefni í pípunum og vonar að mesta harkið sé að baki. „Þeir sem eru nýtúskrifaðir úr Kvikmyndaskólanum geta fundið sér lífsviðurværi í faginu en þurfa þá að vera tilbúnir að stökkva í alls konar hlutverk – sem getur verið mjög lærdósmríkt. Núna er tekið að rofa aðeins til hjá mér sjálfum, styrkur úr Kvikmyndasjóði í höfn, og ég get farið að lifa meira á því sem ég bý til sjálfur frekar en að vinna fyrir aðra.“

Á setti á Slay Master.
Á setti á Slay Master.

Segir hann allt annað starfsumhverfi í greininni í dag en fyrir 10 eða 15 árum enda mikill uppgangur í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð á Íslandi: stór erlend verkefni eru reglulega á dagskrá og íslensku sjónvarpsstöðvarnar aldrei verið duglegri við að framleiða eigið efni. „Fólk er ekki lengur háð náð og miskunn Kvikmyndasjóðs og getur verið brjálað að gera svo að innlendu og erlendu verkefnin soga til sín alla þá sem kunna eitthvað fyrir sér í kvikmyndaiðn. Sá sem kann á upptökuvél eða ljós getur haft meira en nóg að gera árið um kring.“

Snævar sér ekki eftir neinu og er afskaplega lukkulegur með sitt hlutskipti í lífinu. Hann sér ekki einu sinni eftir því að það skyldi taka hann nokkur ár að átta sig á hvað hann vildi í raun gera, og hefur fjármálaverkfræðinámið reynst honum ágætis veganesti: „Allt sem maður lærir verður manni að gagni með einhverjum hætti, t.d. kenndi verkfræðinámið mér öguð vinnubrögð og hjálpaði mér að fást við vandamálin með rökfestu frekar en láta leiðast af tilfinningunum eins og stundum vill gerast í listrænu fögunum.“ 

Hann bendir líka á að peningamálin séu veigamikill hluti af kvikmyndagerð og með gráðu í fjármálaverkfræði eigi hann ekki í nokkrum vanda með að gera ítarlegar fjárhags- og framkvæmdaáætlanir í töflureikni. „Svo er það mjög gagnlegt í einkalífinu að vera læs á fjármál t.d. þegar kemur að stórum fjárhagslegum ákvörðunum heimilisins. Þökk sé verkfræðináminu gat ég t.d. giskað nokkuð rétt á hvers væri að vænta í efnahagslífinu og að verðbólga myndi æða yfir landið löngu áður en það varð að miklu umtalsefni í fréttum. Ég stökk því til og festi vextina á á húsnæðislánum fjölskyldunnar til fimm ára sem þýðir að eins og stendur get ég verið ósköp rólegur hvað fjárhagsmálin snertir.

Áhugi, hæfni og eftirspurn

Fyrir þá sem eru leitandi í námi og starfi segir Snævar að það sé aldrei of seint að breyta til, og að yfirleitt reiði fólki best af ef það leyfir sér að hlusta á hjartað. Þeir sem hafi jafnvel enga hugmynd um hvað þeir vilja ættu að skoða hvað þeim er alla jafna efst í huga, s.s. hvað þeir eru forvitniastir um á netinu, sama hversu langsótt það virðist að gera áhugamálið að starfi. „Það getur verið hið skemmtilegasta ferðalag að komast að því hvað það er sem býr innra með manni, þreifa sig áfram og kynnast sjálfum sér æ betur.“

Áhyggjur af tekjumöguleikum ættu ekki að stoppa fólk. „Það er hægt að fara þá leið að ganga í störf þar sem eftirspurnin er mikil, eins og t.d. verkfræði, eða fara hina leiðina sem kallar á að búa eftirspurnina til. Er gott að hafa það hugfast að fólk er duglegt að stunda það sem það hefur gaman af, og þannig eykst hjá því færnin. Og þegar færnin er orðin býsna mikil þá fer að verða eftirspurn eftir því sem fólk gerir,“ segir hann. „Svo er allt í lagi að mistakast, og einn af kostum þess að búa á Íslandi er að hér getur fólk beygt af leið og reiknað með að verða gripið í fallinu ef það misstígur sig. Við getum fengið fleiri en eitt tækifæri og þurfum ekki að hitta í mark í fyrstu tilraun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda