Ekki hægt að eyða öllu í eitthvað skemmtilegt

Kristín Hildur Ragnarsdóttir segir mikilvægt að leggja fyrir í séreign.
Kristín Hildur Ragnarsdóttir segir mikilvægt að leggja fyrir í séreign. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín Hildur Ragnarsdóttir fjármálahagfræðingur segir að því miður hafi alltaf verið erfitt að kaupa fasteign í fyrsta skipti. Að hennar mati er það hluti af því að fullorðnast að átta sig á því að það sé ekki hægt að eyða öllum peningunum í eitthvað skemmtilegt. Sjálf hefur hún verið sniðug að búa til aukatekjur til að eiga fyrir utanlandsferð.

Kristín Hildur segir í fyrsta lagi mikilvægt að forgangsraða þegar huga á að fasteignakaupum. „Ef einstaklingur er að safna fyrir íbúð en er samt að eyða mestu af peningunum í að fara út með vinum sínum þá er það að skemmta sér mögulega ofar á lista en að safna fyrir íbúð á þeim tíma – en það er líka í góðu lagi. Það er nauðsynlegt að verðmeta það að kaupa sér íbúð meira en annað. Auka 10.000 kr. á mánuði í sparnað hljómar ekki mikið en það eru samt auka 120.000 kr. á ári. Það þýðir líka að þetta eru 120.000 kr. sem þú þarft að láta af einhverju öðru,“ segir Kristín Hildur sem leiðir vöruþróun fyrir ungt fólk og fjárfestingar hjá Íslandsbanka og er ein af meðlimum fræðsluvettvangsins Fortuna Invest.

„Í öðru lagi er það umtalaði séreignarsparnaðurinn. Allir sem eru í fullri vinnu eða í hlutastarfi ættu að sækja um séreignarsparnað, sem þýðir að þú leggur til 2 eða 4% af launum og launagreiðandinn greiðir 2% á móti. Ef þú notar ekki séreignina fyrr en þú ferð á eftirlaun þá þarftu að borga skatt af séreigninni en með því að leggja hana til við íbúðarkaup eða nota inn á lánið þá sleppurðu við skattinn – og hver er ekki til í það. Ég man hvað mér brá þegar séreignin fór í fyrsta skipti inn á lánið, það fyrsta sem ég hugsaði var að það hefði einhver óvart lagt inn á lánið mitt en nei þetta var bara séreignin sem ég hafði safnað. Það er hægt að nýta þetta í 10 ár samfellt. Þegar ég og kærasti minn keyptum okkar fyrstu eign þá nýtti ég séreignarsparnað sem ég hafði safnað síðustu fjögur ár á undan og þar með get ég nýtt séreignarsparnaðinn næstu sex árin til að setja beint inn á lánið.“

Lætur sem peningarnir séu ekki til

Hver er besta leiðin til að spara?

„Þó það hljómi eins og klisja þá skiptir mjög miklu máli að skipuleggja sparnaðinn og gera hann að venju. Mér finnst best að leggja fyrir um leið og ég fæ útborgað, þá er þetta eins og peningur sem ég á ekki. Ég legg bæði fyrir inn á sparnaðarreikning og í mánaðarlega áskrift í sjóði. Ég heyrði einu sinni að þau sem hefðu ávaxtað peninginn mest væru þau sem hefðu gleymt að þau ættu peninginn eða þau sem voru látin; frekar sorgleg en áhugaverð staðreynd.“

Fórst þú sniðuga leið til að safna fyrir íbúð?

„Það sniðugasta sem ég gerði þegar ég var að safna fyrir íbúð var að byrja strax að spara og leggja fyrir í séreign þegar ég byrjaði að vinna, ég hefði þó viljað að ég hefði lagt meira til hliðar á þeim tíma og eytt minna í eitthvað sem hefur ekkert notagildi í dag – en það þýðir víst lítið að pæla í því.

Það var mömmu að þakka að ég og kærasti minn keyptum á hárréttum tíma ef svo má segja. Við vorum ekki einu sinni að íhuga að flytja inn saman á þeim tíma en ég var svona aðeins búin að vera skoða íbúðir. Mamma pikkaði í mig og sagði að hún og pabbi hefðu fundið eina sem væri fullkomin. Ég var ekki alveg tilbúin fjárhagslega séð í að kaupa eigin íbúð á þeim tíma en kærasti minn var til í að koma á móti mér og við fengum smá aðstoð til að komast inn á markaðinn – þannig ég er engin undantekning, ég er ein af þeim sem komst inn á markaðinn með smá aðstoð.“

Kristín Hildur Ragnarsdóttir.
Kristín Hildur Ragnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er hægt að gera allt; fara til útlanda, kaupa fína hluti og safna?

„Það er algjört „fullorðinsmóment“ þegar maður áttar sig á að maður getur ekki eytt mánaðarlaununum eingöngu í eitthvað skemmtilegt. Ef maður ætlar að gera allt í einu þá verður maður líka á einhvern hátt að auka tekjurnar. Ég og kærasti minn búum við þann lúxus að geta leigt íbúðina okkar á Airbnb af og til sem gerði það að verkum að síðasta haust fórum við til útlanda og gátum haldið áfram að greiða aukalega inn á lánið okkar. Ég held að ungt fólk pæli mikið í því í dag hvernig það getur aukið tekjurnar sínar enda margt sem hringrásar- og deilihagkerfið hafa upp á að bjóða.“

Sérstaklega erfitt að kaupa núna

Stundum er talað um að það sé erfitt fyrir ungt fólk að kaupa fasteign núna, en hefur það ekki alltaf verið erfitt?

„Ég held því miður að það hafi og muni alltaf vera erfitt að safna sér fyrir útborgun. Í dag er þetta samt sennilega orðið extra erfitt fyrir fyrstu kaupendur og aðra sem vilja stækka við sig þar sem Seðlabankinn er búinn að herða ýmis lántökuskilyrði undanfarið, svo sem með þrengri greiðslumatsviðmiðum og lægra veðsetningarhlutfalli. Undanfarin sex til sjö ár hefur fasteignaverð mælst hærra í hlutfalli við laun landsmanna þannig að það að ætla leggja út 15-20% af útborgun í íbúð tekur tíma. Þannig að það reynir á þolinmæði og þrautseigju fólks. Í fyrra voru opin hús yfirfull og íbúðir yfirboðnar. Nú er þetta mögulega aðeins að lagast og seðlabankastjóri fagnar því væntanlega að aðgerðir Seðlabankans séu farnar að bíta og markaðurinn aðeins að róast.“

Oft er talað um að það sé mikilvægt að komast inn á fasteignamarkaðinn sem fyrst, er alltaf hagstæðast að drífa sig?

„Já, ég myndi segja að það skipti máli að komast inn á fasteignamarkaðinn sem fyrst ef maður ætlar inn á hann yfirhöfuð en sögulega séð hafa fasteignakaup á Íslandi verið góð fjárfesting. Það skiptir samt máli að spyrja sig hvort maður geti greitt af láninu ef vextir breytast og hvort maður geti staðið í kostnaði við viðhald og annað óvænt. Því miður erum við mannfólkið þó frekar skammsýn og erum yfirleitt ekki að pæla í hlutum sem gætu mögulega gerst en þess vegna er líka mikilvægt að vera með varasjóð ef eitthvað kemur upp á, en oftast er miðað við að gott sé að hafa u.þ.b. þreföld mánaðarlaun til vara.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda