Mikilvægt að afla sér þekkingar alla ævi

Birna Sigurjónsdóttir nýtur þess að læra.
Birna Sigurjónsdóttir nýtur þess að læra. mbl.is/Árni Sæberg

Birna Sigurjónsdóttir, formaður U3A Reykjavíkur, segir áhugamál skipta miklu máli á efri árum þegar aukinn tími er til að sinna þeim. Hún segir ekki síður mikilvægt að efla andann og þekkinguna en að hreyfa sig.

„Einn stærsti kosturinn við að hætta í föstu starfi er að ráða tíma sínum sjálfur og ákveða í hvaða spennandi viðfangsefni þú vilt verja tímanum. Ég hef alltaf verið virk í félagsstörfum, ég var virk í Kvennalistanum á sínum tíma og sat um árabil í stjórn Kennarasambandsins. Nokkru áður en kom að starfslokum gekk ég til liðs við U3A - háskóla þriðja æviskeiðsins – og fór að sækja fyrirlestra þar. Nokkrum árum síðar var ég komin í stjórn og hef nú verið formaður félagsins í tæp fjögur ár,“ segir Birna, aðspurð um hvernig það var fyrir hana að hætta að vinna.

„Innan U3A er rekið verkefnið Vöruhús tækifæranna. Þar er að finna upplýsingar og tillögur að tækifærum til að móta þróttmikið þriðja æviskeið og tækifæri til að gefa lífinu lit. Það er upplagt fyrir þá sem undirbúa starfslok að leita fyrir sér á heimasíðu verkefnisins og velja þar spennandi verkefni.“ segir Birna.

Nauðsynlegt að afla sér þekkingar

Af hverju er mikilvægt að halda áfram að afla sér þekkingar á þriðja æviskeiðinu?

„Á þriðja æviskeiðinu er mikilvægt og sjálfsagt að halda öllu áfram sem stuðlar að lífsgæðum okkar sem einstaklinga. Öllum finnst sjálfsagt að við þurfum að halda áfram að hreyfa okkur til að glata ekki krafti og hreyfigetu. Alveg á sama hátt þurfum við að viðhalda færninni til að afla okkur þekkingar og halda því áfram alla ævi. Fyrir mér tengist það að fræðast og bæta við mig nýrri þekkingu því að vera virk og taka þátt í samfélaginu. Við vorum nýlega með málþing í tilefni af tíu ára afmæli U3A Reykjavíkur með yfirskriftinni: Seinni hálfleikur, fræðsla og virkni alla ævi, sem fjallaði einmitt um mikilvægi þess að hætta ekki að fræðast og halda áfram að miðla af reynslu og þekkingu sem við höfum byggt upp á langri ævi.“

Er einhver einn málaflokkur sem er þér meira hugleikinn en aðrir?

„Umhverfis- og loftslagsmálin eru mér hugleikin einmitt nú, mér finnst mikilvægt að við verðum öll meðvituð um þær breytingar sem nú eiga sér stað af manna völdum. Nýlega var stofnaður umhverfishópur U3A Reykjavíkur með það að markmiði að fræða og upplýsa um það sem ógnar náttúru Íslands, bæði lífríki lands, ferskvatns og sjávar og jarðminjum, að vekja athygli á leiðum til umhverfis- og náttúruverndar og efna til aðgerða sem bæta umhverfi og vinna gegn loftslagsvá.“

Birna segir að stjórn U3A Reykjavíkur bjóði upp á fjölbreytta fyrirlestra til að mæta ólíkum áhugamálum félaganna sem eru nær 1.100. Einnig er hópastarf, menningarhópur og bókmenntahópur svo eitthvað sé nefnt. Félagsgjaldið er lágt, enda öll vinna unnin í sjálfboðavinnu.

Er á leiðinni til Tyrklands

Það er ekki bara fræðslan sem heillar heldur líka félagsskapurinn við annað fólk. „Ég hef kynnst mörgu nýju fólki í félagsstarfinu og líka endurnýjað kynni við fyrri starfsfélaga og skólafélaga sem hefur verið mjög ánægjulegt. Sterkustu tengslin myndast þegar fólk ferðast saman eða vinnur saman að verkefnum innanlands og utan. Félagsfólk hefur tekið þátt í þremur Evrópusamstarfsverkefnum og þar hafa myndast sterk tengsl, sérstaklega við forsvarskonur UPUA í Alicante. Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir, sem stofnaði U3A Reykjavík, hefur sagt söguna af því þegar tvö ár voru liðin frá stofnun samtakanna og hún hafði ekki enn þá lært að búa til heimasíðu fyrir félagið. Þá hafi Tom Holloway, sem studdi hana við að koma félaginu á fót hér heima, sett henni stólinn fyrir dyrnar og sagðist koma til landsins til þess að kenna henni. Endaði þetta með eins konar æfingabúðum þar sem hann bjó heima hjá henni í viku og lauk með því að hún tók við heimasíðunni.“

Hvað ætlar þú að gera spennandi með U3A á árinu?

„Ég hlakka til viðburðanna, heimsókna með menningarhópnum og til þess að fá spennandi fyrirlestra en vona einnig að við getum efnt til fræðsluferðar í kjölfar námskeiðs, líkt og þegar hópur heimsótti Indland eftir námskeið um Mógúlana. Fyrir mig persónulega er tilhlökkunarefni að taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu AIUTA sem haldin verður í Tyrklandi í maí en AIUTA eru samtök U3A-félaga um allan heim,“ segir Birna að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda