„Þetta gerist svolítið ómeðvitað hjá mér“

Arna Björk Þórsdóttir er höfundur dansins í auglýsingu Vinnueftirlitsins.
Arna Björk Þórsdóttir er höfundur dansins í auglýsingu Vinnueftirlitsins. Ljósmynd/sjanaphotography/Kristjana Björg Þórarinsdóttir

„Ég er bókstaflega alltaf með dansspor og kóreógrafíu í höfðinu og er lang mest skapandi þegar ég er að keyra eða rétt fyrir svefninn. Dansarnir, verkin eða hvað það er sem ég er að semja hverju sinni eru oftar en ekki tilbúin eftir einn bíltúr eða þegar ég vakna á morgnana,“ segir hin 22 ára gamla Arna Björk Þórsdóttir sem er danshöfundurinn á bak við dansinn í nýrri auglýsingu Vinnueftirlitsins. 

Arna er sjálfstætt starfandi danshöfundur, kennir í World Class og er stuðningsfulltrúi í Grunnskóla Seltjarnarness. 

„Þetta gerist svolítið ómeðvitað hjá mér. Fyrir þessa auglýsingu var fókusinn aðallega á að semja handahreyfingar fyrir stóran hóp af fólki, búa til flottar hreyfingar og flæði sem og að tímasetja allt þannig að það virkaði sem heild. Mér finnst almennt auðveldast að semja sjálf sporin en það getur verið krefjandi að skipuleggja mynstur, skiptingar og tímasetningar, sérstaklega þegar um er að ræða stór verk eða fjölmennan hóp af dönsurum eins og í þessu tilviki. Það gekk hins vegar mjög vel og útkoman var góð,“ segir Arna.

Ákvað strax að slá til

Tilgangur auglýsingarinnar er að vekja athygli á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum og telur Arna það vera mjög mikilvægt, enda hluti af ástæðu þess að hún ákvað að taka verkefnið að sér. 

„Ég fundaði með teyminu og ákvað strax að slá til enda frábær hugmynd og málefnið mjög mikilvægt. Ég er mjög sköpunarglöð og elska að taka að mér skemmtileg verkefni þar sem ég get búið til eitthvað nýtt og flott með góðu fólki, ekki síst ef það felur í sér smá áskorun. Teymið í kringum þetta verkefni var frábært og allt mjög faglegt. Greinilega búið að hugsa herferðina vel til enda og allir tilbúnir að hjálpast að og aðstoða,“ segir Arna. 

Arna segir það hafa verið skemmtilega áskorun að semja dansinn …
Arna segir það hafa verið skemmtilega áskorun að semja dansinn fyrir auglýsinguna.

Hún segir ótrúlega gaman að vinna með svona fjölbreyttum hópi af fólki á öllum aldri. „Þau stóðu sig öll svo frábærlega, voru fljót að læra hreyfingarnar, tóku leiðbeiningum vel, voru sveigjanleg og viðbúin öllu óvæntu. Ég elska að vinna með svoleiðis fólki,“ segir Arna. 

Arna segir tilfinninguna að sjá dansverkið sitt úti um allt í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum mjög góða og er hún mjög stolt af því. 

„Ég er líka búin að fá mjög jákvæð viðbrögð úr öllum áttum sem er meiriháttar. Það er auðvitað bara æðislegt að sjá verkin sín á samfélagsmiðlum, sjónvarpi og víðar. Það veitir mér fyrst og fremst mikinn innblástur til að halda áfram að vinna af krafti, bæta mig og gera enn betur,“ segir Arna.

Snýr aftur til Verzló

Auglýsing Vinnueftirlitsins er ekki það eina sem Arna hefur verið að fást við þessa dagana. Hún er danshöfundur í Nemó-söngleiknum í Verzló, sem er frumsaminn söngleikur sem ber heitið Hvar er draumurinn og byggist á tónlist Sálarinnar hans Jóns míns. Arna segir forréttindi að fá að vera hluti af fjörinu aftur þótt fjögur ár séu liðin frá útskrift. 

„Mig hafði lengi dreymt um að fá að kóreógrafa Nemó-söngleikinn og loksins kom tækifærið til mín. Þótt ótrúlegt megi virðast þá var ég aldrei sjálf í Nemó-sýningunni þegar ég var í Verzló þótt ég hefði viljað það. Hún skaraðist hins vegar alltaf á við dansinn þannig að ég er sjúklega ánægð að fá loksins að strika þann draum út af listanum,“ segir Arna. 

Höskuldur Þór Jónsson er leikstjóri, Snorri Beck er tónlistarstjóri og Helga Margrét Marzellíusardóttir söngstjóri. 

„Það er alltaf mikill metnaður við nemendamótið í Verzló og það er sko engin undantekning núna. Allir á bak við tjöldin standa sig eins og hetjur og vinna hörðum höndum að því að gera sýninguna eins glæsilega og mögulegt er.

Við erum á fullu að æfa og þetta verður meiriháttar enda er leikhópurinn stútfullur af hæfileikabúntum, hvort sem það eru leikarar, söngvarar eða dansarar. Bara algjör draumur að vinna með þeim. Sýningin sjálf inniheldur öll bestu 90's-lög Sálarinnar og mikið lagt upp úr stórum dansatriðum. Við frumsýnum 23. febrúar næstkomandi og ég lofa stórkostlegri skemmtun fyrir alla, hvort sem þeir eru Sálar-aðdáendur eða ekki,“ segir Arna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda