Ítalski innannhússhönnuðurinn Tobia Zambotti er búsettur á Íslandi ásamt kærustu sinni og syni þeirra, en hann elti drauminn um sjálfbærari og fjölskylduvænni lífsstíl til Íslands eftir að hafa verið í búsettur í Kína um nokkurra ára skeið.
Tobia er með BA-gráðu í arkitektúr frá IUAV háskólanum í Feneyjum og meistaragráðu í innanhússhönnun frá Politecnico di Milano í Mílanó. „Eftir námið flutti ég til Sjanghæ í Kína þar sem ég starfaði undir handleiðslu Alberto Caiola sem er margverðlaunaður innanhússhönnuður,“ segir Tobia.
Í ársbyrjun 2019 ákvað Tobia að yfirgefa kaótíkina í Kína fyrir sjálfbærari lífsstíl á Íslandi. „Kærastan mín, Benedetta, bjó á Íslandi og sannfærði mig að flytja til Íslands fyrir fullt og allt,“ segir Tobia, en það var jafnvægið milli vinnu og einkalífs sem heillaði hann mest við landið og auðvitað íslenska náttúran.
„Á fyrstu mánuðum mínum í Reykjavík skynjaði ég að fólk í listræna geiranum væri mjög opið fyrir skapandi hugmyndum og móttækilegt fyrir því að gera tilraunir með hönnun. Ég sá líka að það var rými fyrir samkeppni,“ útskýrir Tobia.
Tobia hóf íslenska hönnunarævintýrið sitt á því að hanna nokkrar íbúðir, en hann segir hönnun á ísbúðinni í Perlunni þó vera sitt fyrsta verkefni hér á landi. „Innblásin af jöklum dregur hljóðeinangrandi froða úr hávaða frá ísskápum og ísvélum. Endurtekið mynstur af froðunni, sem hefur verið mótuð í form sem minnir helst á grýlukerti, býr til sjónblekkingu sem dregur viðskiptavini nær miðpunkti búðarinnar – ísnum,“ segir Tobia.
Nýlega fékk Tobia það verkefni að hanna nýtt verslunarrými fyrir húsgagna- og hönnunarverslunina Casa Botique sem staðsett er á Hafnartorgi Gallerí. „Til að samlagast hinu glæsilega en óformlega andrúmslofti í Hafnartorgi gaf ég Casa Botique nýtt og staðbundið auðkenni sem aðgreinir hana frá öðrum Casa verslunum,“ segir Tobia.
Í hönnuninni notaði Tobia efnivið og lýsingu svo vöruúrval verslunarinnar fengi að njóta sín til fulls. Hann segir hönnunina þó ekki einungis vera bakgrunn, en hlutverk hönnunarinnar sé ekki að sýna sig heldur draga fram karakter í vöruúrvali.
Það að ganga inn í verslunina á að vera upplifun í sjálfu sér sem Tobia segir vera stýrt af lýsingu í loftinu sem fangar ákveðið flæði og býður því inn í rýmið.
Aðspurður lýsir Tobia hönnun sinni óhefðbundinni, djarfri og framsýnni. „Hönnunin mín endurspeglar klárlega persónuleika minn, en ekki „stílinn“ minn einfaldlega vegna þess að ég er ekki með neinn slíkan. Að vera innanhússhönnuður fyrir mér þýðir að hanna sérsniðin rými fyrir mismunandi fólk með mismunandi þarfir og smekk. Ég hef vissulega mína fagurfræðilegu sýn, en ég „copy-paste-a“ hana ekki inn í rými annarra,“ útskýrir Tobia.
„Ég vil frekar vera þekktur fyrir sameiginlega línu sem verkin mín hafa, jafnvel þótt þau líti öll mismunandi út,“ bætir hann við.
Þegar kemur að fatastíl segist Tobia leggja áherslu á gæði fram yfir magn. „Fatastíll minn er meira huglægur en sjónrænn. Ég vil frekar kaupa minna af fötum frá tískumerkjum sem skapa heilbrigt umhverfi fyrir hönnuði sína og fólkið sem framleiðir þau,“ segir hann.
„Þegar kemur svo að heimili mínu þá myndi ég elska að það væri hönnunarleikvöllurinn minn, en í augnablikinu er það bara sóðalegur leikvöllur sonar míns. Ég hef játað mig sigraðan,“ segir Tobia og hlær.
Tobia sækir hönnunarinnblástur í umhverfið og fólkið í kringum hann. „Hönnun er fyrir fólkið: „Það mikilvægasta í rými eru ekki húsgögnin heldur fólkið.“ Hugsunarferli mitt er sífellt að þróast þökk sé nútímalegum og alþjóðlegum hönnunartímaritum og ákveðnum samfélagsmiðlum þar sem nokkrir lykilaðilar eins og Harry Nuriev gefa gagnlegar upplýsingar um hvernig miðla eigi hönnunarverkefnum og skapa „hæp“ í kringum þau,“ útskýrir Tobia.
Aðspurður segist Tobia kunna afar vel við sig á Íslandi, en eftir að hafa verið búsettur í Kína og á Ítalíu segir hann hvert land hafa sína kosti og galla. „Lífsstíllinn er mjög ólíkur í þessum þremur löndum. Kína er hinn fullkomni staður til að öðlast reynslu og komast hratt áfram á ferlinum,“ segir Tobia.
„Sjanghæ er líklega ein besta borg í heimi til að gera tilraunir í sem innanhússhönnuðir vegna þess að þar eru ungir og metnaðarfullir frumkvöðlar með nýja sýn sem þurfa sífellt að koma viðskiptavinum sínum á óvart til að komast áfram í hafsjó af metnaðarfullum keppinautum. Þar að auki breytast tískustraumar mjög hratt sem skapar áhugaverð tækifæri og áskoranir fyrir hönnuði. Hins vegar er hræðilegt jafnvægi milli vinnu og einkalífs í Kína sem leiðir aðflutta vanalega til mikillar þreytu innan nokkurra ára,“ bætir hann við.
„Ítalía er land þar sem hönnuðir um fertugt eru taldir ungir og „ekki tilbúnir“ til að taka ábyrgð. Hins vegar er Ítalía hinn fullkomni staður fyrir ferðalanga,“ segir Tobia.
„Svo er það Ísland, sem er ungt land með mjög fáar menningarlegar takmarkanir. Það er opið fyrir nýjum hugmyndum sem gefur ungum hönnuðum sem eru tilbúnir að vinna af festur og ástríðu mikilvæga ábyrgð. Ísland er hinn fullkomni staður fyrir þá sem vilja ekki þurfa að velja á milli fjölskyldu og starfsframa,“ útskýrir hann.
Tobia er með mörg spennandi verkefni á prjónunum, meðal annars svokallaðan „No Spoil“ bás fyrir Hörpu, Perluna og Þjóðminjasafn Íslands. „Ég er líka sérstaklega spenntur fyrir tveimur innanhússhönnunarverkefnum. Annars vegar er það hönnun nýrrar sýningar í samvinnu við Gangorin og hins vegar hönnun á nýjum sýningarsal í Skeifunni sem ég get ekki gefið nánari upplýsingar um að svo stöddu,“ segir Tobia.