Íslendingar elska Rice Krispies-kökur og það var einmitt þess vegna sem Þóra Soffía Gylfadóttir grafískur hönnuður ákvað að prófa að gera páskaegg með svipaðri uppskrift. Það heppnaðist það vel að nú er það orðinn árlegur viðburður að föndra slík egg.
„Þetta byrjaði sem uppskrift að afmælisköku fyrir mörgum árum þar sem ég mótaði tölustafi afmælisbarnsins. Það hef ég gert á hverju ári fyrir börnin mín og nú hafa barnabörnin bæst við,“ segir Þóra Soffía sem er móðir fjögurra barna og fjögurra barnabarna.
„Ég keypti plasteggjamót í Hagkaup fyrir nokkrum árum og prófaði að nota Rice Krispies-uppskriftina og það varð ekki aftur snúið. Ég var aðeins búin að fikra mig áfram með að bræða súkkulaði og pensla inn í mótið en mér fannst það allt of mikið maus,“ segir hún og setur málshátt og gotterí inn í hvert egg fyrir sig.
Hver er galdurinn á bak við eggin?
„Það er í rauninni að passa upp á að hlutföllin séu rétt því sírópið er límið í þessu öllu saman og er því auðvelt að móta áður en það harðnar.“
Hvernig verða páskarnir í ár?
„Við fjölskyldan erum miklir flakkarar. Við eigum hús á Raufarhöfn sem er nú ekki alveg í nágrenninu en planið er að dvelja þar um páskana.“
Hvað gerir þú til þess að njóta páskanna sem best?
„Á páskadag er farið í páskaeggja-ratleik með nokkrum vísbendingum. Það tekur mislangan tíma að leysa þrautirnar og oft kærkomið að gæða sér á eggjunum. Það er aldrei þannig að þetta sé einhver keppni heldur snýst þetta um skemmtun. Að sjálfsögðu skreyti ég aðeins heimilið og það er mikið lagt upp úr að elda góðan mat. Lambasteik verður fyrir valinu en tímarnir breytast hratt og páskahefðirnar líka. Það verður því miður eitthvað lítið um kirkjuheimsóknir þessa páskana.“
Rice Krispies-páskaegg
150 g súkkulaði
4 msk. síróp
75 g smjör
150 g Rice Krispies
Bræðið saman súkkulaði, smjör og síróp í potti við vægan hita. Þegar allt er bráðið saman er Rice Krispies sett saman við. Þegar búið er að hræra allt saman er blöndunni þrýst vel í mótið. Best er að hafa þykktina um hálfan sentímetra. Þetta er sett í frysti og geymt þar í 15 mínútur og síðan eru báðir helmingar festir saman með bræddu súkkulaði.