Sessa tapaði einbýlishúsum í spilakössum

Seselia Guðrún Sigurðardóttir er gestur í hlaðvarpinu Spilavandi.
Seselia Guðrún Sigurðardóttir er gestur í hlaðvarpinu Spilavandi. Ljósmynd/Samsett

„Þunglyndi, uppgjöf, bæling, ofboðsleg þreyta. Þetta eru verstu ár sem ég hef lifað. Að vilja segja satt en geta það ekki, þora því ekki. Þessi sjúkdómur er krónískur. Þetta er ekkert djók,“ segir Seselia Guðrún Sigurðardóttir, betur þekkt sem Sessa í Götun og skart, í viðtali í hlaðvarpinu Spilavandi. Í hlaðvarpinu ræðir hún opinskátt um reynslu sína af spilakössum og spilafíkn, áhrifum hennar og afleiðingum. 

Sessa hefur glímt við spilafíkn í þrjátíu ár, allt frá því hún var átján ára. Þetta byrjaði á sakleysislegan hátt. Sessa eignaðist sitt fyrsta barn, dóttur, sautján ára og setti stundum fimm hundruð krónur í spilakassa þegar hún átti leið hjá sjoppu. Fljótlega ágerðist vandinn og fíknin í spilakassa kviknaði.

„Ég man þegar ég var nítján ára að þá tapaði ég öllum mánaðarlaununum mínum. Ég fékk áfall. Ég var með lítið barn og ég átti ekki krónu,“ segir Sessa. „Ég er með athyglisbrest en spilakassinn náði minni fullri athygli. Þeir sem eru spilafíklar þekkja þetta. Ég náði að halda einbeitingu. Lífið varð aðeins bjartara í korter. Um leið og ég var búin að setja 100 kall í kassann þá langaði mig ekki neins staðar annars staðar að vera.“

Þetta hafði mikil áhrif á samband hennar við dóttur sína.

„Ég var á staðnum en samt ekki á staðnum því ég var með hugann við spilakassann, við tapið. Ef ég átti pening þá var hún fyrir mér og ég var að spá hvernig ég kæmi henni í pössun. Mamma hverfur,“ segir Sessa.

„Þegar hún varð eldri fékk ég lán hjá henni. Hún tók lán í banka fyrir mig. Sem betur fer var ég með góðar tekjur og gat endurgreitt henni og staðið í skilum. Þegar ég horfi til baka þá er þetta mjög vont. Það er rosa vont að ljúga að barninu sínu að ég væri að fara að nota þennan pening í eitthvað annað en spilakassa.“

Hún segir frá því að hún eigi ekkert og sé í endurhæfingu. 

„Ég átti fyrirtæki, hús og bíl. Í dag á ég ekkert. Í dag þarf ég að púsla lífi mínu saman aftur út frá þeim forsendum að ég er fimmtug og á ekkert. Það er mikilvægt að sleppa fortíðinni. Ég á engin leyndarmál. Ég er ennþá að vinna í að fyrirgefa sjálfri mér, sættast við sjálfa mig. Stærsti pakkinn er að vinna úr skömminni,“ segir Sessa.

Sessa hefur verið laus við spilakassana í tvö ár næstkomandi júní. Aðspurð hvað hún hafi spilað fyrir mikinn pening á þessum tíma sem spannar þrjátíu ár er svarið einfalt: 

„No comment. Það voru nokkur einbýlishús.“

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan: 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda