Tilkynnt var um sigurvegara í handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir nú rétt í þessu. Kári S. Kárason hlaut titilinn í ár fyrir handrit sitt, Hinum megin við spegilinn. Er þetta í sjötta sinn sem keppnin er haldin og hlýtur Kári samning við útgáfufélagið, fyrirframgreiðslu upp á 100.000 kr. ásamt ritstjórn og kynningu fyrir bókina.
Alls bárust 16 handrit í keppnina og valdi dómnefndin sem er skipuð Silju Aðalsteinsdóttur, rithöfundi og ritstjóra, Atla Bollasyni bókmenntafræðingi og Sigríði Rögnvaldsdóttur, ritstjóra hjá Forlaginu, handrit Kára úr innsendum handritum.
Kári er lærður tölvunarfræðingur og starfar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Dohop. Hinum megin við spegilinn er safn 17 smásagna og örsagna. Í fyrra hreppti Heiða Vigdís Sigfúsdóttir titilinn fyrir skáldsöguna Getnað.