„Konur eiga ekki að þurfa að afsaka sig fyrir forvitnum Jónum og Gunnum"

Sísí Ingólfsdóttir opnaði á dögunum listasýningu sem tekst á við …
Sísí Ingólfsdóttir opnaði á dögunum listasýningu sem tekst á við viðkvæm málefni. Ljósmynd/Sunna Ben

Sísí Ingólfsdóttir er listakona og margra barna móðir sem er óhrædd við að takast á við viðkvæm málefni í listsköpun sinni. Sýnir hún ýmis verk á sýningu sinni Hvað ef…? sem var opnuð fimmtudaginn 15. júní síðastliðinn í SÍM salnum í miðborg Reykjavíkur, nánar tiltekið í Hafnarstræti 16. Verkin eru innblásin af upplifun kvenna þegar kemur að fósturmissi og þungunarrofi og vill Sísí opna umræðuna varðandi þessi viðfangsefni.

Titill sýningarinnar vísar í nær endalausar hugmyndir fólks um hvað hefði gerst ef eitthvað hefði farið á annan veg. „Þetta „hvað ef“ er nefnilega svo mikil endavitleysa og hringsnýst um sjálft sig. Þú getur aldrei endað með hreint svar þar sem möguleikarnir eru nær óteljandi,“ segir Sísí.

Sísí vinnur mikið með teikningu og texta.
Sísí vinnur mikið með teikningu og texta. Ljósmynd/Sunna Ben

Staða konunnar í samfélaginu innblástur

Sísí segist vera gjörn á að fjalla um móðurhlutverkið og stöðu konunnar í verkum sínum og hefur hana lengi langað að fjalla um fósturmissi sem hún þekkir af eigin reynslu. Segir hún að afturför varðandi breytta löggjöf um þungunarrof víða um heim hafi verið kveikjan að því að hefja samtal um þungunarrof.

Mér fannst ég ekki geta talað um það þar sem ég hef ekki sjálf reynsluna og fór því að tvinna þetta saman, án þess þó að reyna halda því fram að þetta séu eins dæmi, auðvitað ekki, og auðvitað heldur ekki eins frá konu til konu. Fólk upplifir hluti á mismunandi hátt, rétt eins og fólk tekst á við tilfinningar mismunandi og tekur ákvarðanir út frá ólíkum forsendum,“ segir Sísí.

Sum verkin eru hnitmiðaðri en önnur.
Sum verkin eru hnitmiðaðri en önnur. Ljósmynd/Sunna Ben

Viðfangsefnin viðkvæm en hluti af samfélaginu

Sísí segist gera sér grein fyrir því að ekki sé sjálfsagt að tvinna saman þungunarrof og fósturmissi en að það megi þó finna viss sameiginleg mengi. Sé það von hennar að hún særi engan með pælingum sínum og segist hún reyna að nálgast þessi viðkvæmu málefni af eins mikilli auðmýkt og henni sé mögulegt.

Sísí segir að hægt væri að gera langan lista um ólíkindi þessara tveggja atvika í lífi fólks, enda að mörgu leyti andstæðir pólar. Sísí bendir þó á að líkindin séu einnig til staðar, sérstaklega hvað varðar sterkar tilfinningar þeirra sem upplifa þessi erfiðu atvik.

„Eitt sem lítið er talað um, sem og reyndar flest sem við kemur þessum málefnum, er hversu líkamlega þetta reynir á konuna, hvort sem um er að ræða fósturmissi eða þungunarrof. Ég hef vissulega ekki upplifað þungunarrof sjálf en ég hef misst fóstur. Fyrir utan tilfinningalegu hliðina þá var þetta heldur ekkert of skemmtilegt líkamlega. Þá skiptir það í raun ekki öllu máli, hvort sem um er að ræða inngrip eða ef fósturlátið gerist af sjálfu sér. Þetta er líkamlega erfitt ferli hvort sem valið var þitt eða ekki,“ segir Sísí.

Vegna bæði líkamlegra og tilfinningalegra átaka sem þessum atvikum fylgja, segir Sísí að henni finnist það fáránleg hugmynd að halda að konur fari ítrekað eða að gamni sínu í þungunarrof. „Fyrir utan að þetta er ólíklega léttvæg ákvörðun og hver svo sem ástæðan er þá kemur okkur hinum hún hreinlega ekki við, enda ekki staða konunnar að þurfa að afsaka sig eða útskýra fyrir forvitnum Jónum og Gunnum,“ bætir Sísí við.

Í sumum verkanna nýtir Sísí sér ekkert annað en hið …
Í sumum verkanna nýtir Sísí sér ekkert annað en hið ritaða orð. Ljósmynd/Sunna Ben

Opnari umræða leiðir af sér meðvitaðri umræðu

Sísí segist ekki vera vilja setja sig á einhvern stall og segja hvað sé rétt og hvað sé rangt. Hún vill hins vegar bjóða upp á nokkra punkta svo hægt sé að hefja einhvers konar samræður um þessi málefni. Að hennar mati eiga þau ekki að vera eitthvað tabú þótt þau séu viðkvæm. Sísí segir að það eigi alltaf að mega ræða hlutina því fordómar kvikni iðulega sökum vanþekkingar. Því sé mikilvægt að hafa umræðuna opna, svo fólk verði meðvitaðra um málefnin og geti þá í það minnsta lært að sýna aðgát.

„Þegar ég missti átti ég þegar tvö börn, eina stjúpdóttur og krónprinsinn, og fékk reglulega að heyra að ég ætti nú þegar börn og þyrfti ekkert að vera að þessu væli. Ég mæli með að fólk reyni sem minnst að slengja álíka vandræðalegum setningum fram. Ég veit svo sem ekki sjálf hvað best væri að segja, kannski bara rétta fram faðminn og tjá það að þér þyki þetta miður, að þetta hafi farið á þennan veg? Í það minnsta ekki segja: Þú ert svo sterk, þú jafnar þig nú,“ segir Sísí.

Notast við mismunandi miðla í listsköpun sinni

Verkin á sýningunni samanstanda af skúlptúrum, vatnslitamyndum og textaverkum. Textaverkin eru margs konar og flest frekar margræð með vísun í hinar ýmsu tilfinningar. Nefnir Sísí sérstaklega eitt verk þar sem hún notast við franska setningu sem hún heyrði fyrir löngu í allt öðru samhengi. „Mér fannst hún í raun geta haft merkingu fyrir hvort tveggja. „Tu me manques“ er eitthvað sem frönskumælandi segja stundum í því samhengi að sakna einhvers. Bein þýðing væri hins vegar nær því að segja „þig vantar frá mér“.

„Önnur verk eru hnitmiðaðri. Sem dæmi má taka „Auðvitað vissir þú það ekki, hún er eðlileg manneskja ekki djöfull“, sem tengist þungunarrofi og „Ég þekkti þig kannski ekki en ég hugsa svo oft til þín“, sem tengist fósturmissi,“ úskýrir Sísí.

Sísí leikur sér með orð, hvort sem þau eru á …
Sísí leikur sér með orð, hvort sem þau eru á íslensku eða öðrum tungumálum. Ljósmynd/Sunna Ben

Hægt er að skoða verk Sísíar alla daga vikunnar á milli klukkan 13:00 og 16:00 í SÍM salnum í Hafnarstræti 16. Sýningin er opin til og með 1. júlí næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál