Sigga Ózk vill setjast í forsetastólinn

Söngkonan Sigga Ózk veit hvað hún vill.
Söngkonan Sigga Ózk veit hvað hún vill. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

„Það eru alltaf fleiri stelpur að fá tækifæri til að stíga inn í sviðsljósið og það finnst mér að sjálfsögðu meiri háttar,“ segir Sigríður Ósk Hrafnkelsdóttir, betur þekkt undir listamannsnafninu Sigga Ózk. Hún gaf út tónlistarmyndband við lagið SJÁÐU MIG á dögunum og baðar sig í frægðarsólinni í bland við íslensku sumarsólina sem er loksins farin að láta sjá sig. 

Sigga Ózk heillaði landsmenn fyrr á árinu með þátttöku sinni í Söngvakeppni sjónvarpsins, en hún söng sig inn í hjörtu áhorfenda með laginu Gleyma þér og dansa. Þessi unga, líflega, og metnaðarfulla kona á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í tónlist enda með stór framtíðarplön, en hún vonast til að ná á svipaðar slóðir og söngdívurnar Beyoncé og Ariana Grande.

Áhuginn kviknaði á leikskólaárunum

„Ég hef elskað tónlist frá því að ég var barn. Allir í fjölskyldunni eru mjög tónlistarglaðir og það er mikið um tónlist og söng í matarboðum og fjölskylduhittingum.“ segir Sigga Ózk. Unga söngkonan er dóttir gítarleikarans Hrafnkels „Kela“ Pálmarssonar, sem margir þekkja úr hinni vinsælu hljómsveit Í svörtum fötum og Elínar Maríu Björnsdóttur sem stjórnaði Brúðkaupsþættinum Já, sem sýndur var á Skjá Einum við miklar vinsældir.

Sigga Ózk hefur dansað og sungið ásamt föður sínum, Hrafnkeli …
Sigga Ózk hefur dansað og sungið ásamt föður sínum, Hrafnkeli „Kela“ Pálmarssyni frá unga aldri. Ljósmynd/Sigga Ózk

Sigga Ózk varð hugfangin af söngleikjum og það strax á leikskólaaldri. Hún horfði á allar klassísku bandarísku söngleikjamyndirnar og söng með af mikilli innlifun fyrir framan sjónvarpsskjáinn og því ljóst í hvað stefndi. 

„Ég byrjaði að horfa á söngleikjamyndir þegar ég var mjög ung, en amma mín og afi kynntu mig fyrir þessum dásamlega heimi. Ég heillaðist frá fyrstu stundu og man eftir mér kannski fjögurra eða fimm ára gamalli að syngja lagið Tomorrow úr söngleiknum Annie,“ segir Sigga Ózk um fyrstu kynni sín af tónlist. 

Áhuginn og ástríðan leiddu hana í söngleikjanám í Söngskóla Sigurðar Demetz, en þar hefur hún stundað nám undir handleiðslu framúrskarandi kennara síðastliðin tvö ár og stefnir á frekara nám erlendis. 

„Ég var að klára miðprófið hjá Sigurði Demetz og ætla mér að sækja um nám í bæði tónlistar– og lagasmíðum og við söngleikjadeild. Mig dreymir um að komast inn í skóla í Lundúnum eða í Svíþjóð, en ég bjó þar þegar ég var yngri og hef alltaf saknað landsins,“ segir söngkonan. 

Söngkonan er alltaf í góðu skapi.
Söngkonan er alltaf í góðu skapi. Ljósmynd/Sigga Ózk

Óvænt samstarf með Æði–bita

Sigga Ózk gaf út lagið SJÁÐU MIG á síðasta ári og var það sannkallaður sumarsmellur, en söngkonan hlaut lof gagnrýnenda og náði án efa mörgum á dansgólfið með þessum suðræna smelli. 

Á dögunum endurútgaf hún lagið og er það nú dúett með Æði–bitanum Bassa Maraj. Dúó–ið sendi einnig frá sér stórskemmtilegt tónlistarmynd hinn 23. júní síðastliðinn. „Það var bara geggjað að taka upp tónlistarmyndband og ég fékk að gera það með æðislegu og hæfileikaríku fólki,“ segir Sigga Ózk. 

Söngkonan býr ásamt kærasta sínum, Sigfúsi Jóhanni Árnasyni, kvikmyndagerðamanni, en parið vann að gerð tónlistarmyndbandsins í sameiningu. „Ég var búin að sofa á þessari hugmynd í þónokkurn tíma en átti svo samtal við Sigfús og þá ákváðum við láta hugmyndina verða að veruleika.“

Sigga Ózk var mjög spennt fyrir samstarfinu með Bassa Maraj, en hann hefur verið að gera það gott í íslenska tónlistarbransanum síðastliðin ár og gefið út fjölda grípandi electro–popplaga. „Bassi Maraj kom inn í hljóðverið og henti þessari snilld inn í lagið. Mig minnir að þetta hafi tekið tæplega eina klukkustund og hann gerði þetta bara fullkomlega. Bassi kom, sá og sigraði,“ segir Sigga Ózk um Æði–bitann, en tónlistarmyndband dúós–ins hefur hlotið yfir 4.000 áhorf á Youtube. 

Ertu að vinna að plötu? 

„Ég er að vinna að hugmynd, hún kemur í ljós!“

Það er margt spennandi framundan hjá ungu söngkonunni.
Það er margt spennandi framundan hjá ungu söngkonunni. Ljósmynd/Sigga Ózk

Klara Elías hringdi!

Hinn 4. mars síðastliðinn fylgdust spenntir aðdáendur Söngvakeppni sjónvarpsins með þeim fimm atriðum sem áttu möguleika á því að koma fram fyrir Íslands hönd á stóra sviðinu í Liverpool. Sigga Ózk var ein þeirra sem náðu í úrslitaþáttinn og flutti þar enska útgáfu lagsins Gleyma þér og dansa, Dancing Lonely og heillaði unga sem aldna með glaðlegri og fallegri framkomu sinni. 

Eins og landsmenn vita flestir þá stóð Diljá Pétursdóttir uppi sem sigurvegari með laginu Power, en Sigga Ózk er óendanlega þakklát fyrir tækifærið og sér þetta sem stökkpall út í hinn stóra heim. 

View this post on Instagram

A post shared by SIGGA ÓZK (@siggaozk)

„Klara Elías, sem margir muna eftir úr íslensku stúlknasveitinni Nylon, heyrði í mér og spurði hvort ég hefði áhuga á því að flytja lagið hennar. Ég átti ekki eitt einasta orð, var bara með stjörnur í augunum, spennt og yfirfull af þakklæti enda alltaf langað til þess að taka þátt. Ég er mikill Eurovision–aðdáandi,“ segir Sigga Ózk. 

„Þetta var draumur og ég bara náði að njóta hverrar sekúndu af þessu ævintýri og það þökk sé Klöru. Ég hefði persónulega ekki viljað gera þetta með neinum öðrum, hún hjálpaði mér að undirbúa þetta og gaf mér svo mikið,“ segir söngkonan um samstarfið við Klöru Elías. 

„Eins og ég sagði hefur þetta verið draumur frá því að ég var lítil stúlka og það gleður mig svo mikið að heyra hvað ungir krakkar eru að elska lagið. Á hverjum degi heyri ég eitthvað fallegt um flutninginn, lagið eða mig og það eru svo margir krakkar sem vilja fá mynd, áritun, spjalla eða spyrja um eitthvað. Ég dýrka þennan litla aðdáendahóp – mig vantar bara nafn á hópinn,“ segir Sigga Ózk og hlær. 

Kennslustofan, stóra sviðið og Bessastaðir

Þó ung sé að árum er hin 24 ára gamla söngkona með stóra drauma, þó misstóra og misháleita, en hún veit svo sannarlega hvað hún ætlar sér að gera og það nær frá A–Ö. 

„Ég á mér draum. Nei, ég á mér drauma,“ segir söngkonan. „Stóri draumurinn er auðvitað að ná á þann stað sem Ariana Grande og Beyoncé eru á. Ég vil ferðast um heiminn og syngja fyrir alla. 

Ég vil leika í Hollywood–kvikmyndum, þáttum og söngleikjamyndum, það væri auðvitað gaman að upplifa það að leikja í söngleikjamynd enda byrjaði ástríðan við það að horfa á söngleikjamyndir,“ útskýrir Sigga Ózk. 

Sigga Ózk elskar að koma fram á tónleikum.
Sigga Ózk elskar að koma fram á tónleikum. Ljósmynd/Sigga Ózk

„Ég elska allt, allt sem snýr að hinum svokallaða skemmtanaiðnaði (e. show business). Ég veit að ég á heima í þessum iðnaði, ég elska ekki bara að syngja, ég elska alla vinnuna og vil vera með puttana í einu og öllu,“ segir söngkonan. Hún var aðeins 14 ára gömul þegar hún setti á svið fyrstu tónlistaratriðin sín og sá sjálf um að allt gengi áfallalaust fyrir sig sem það að sjálfsögðu gerði. 

Ásamt því að sinna tónlistinni af mikilli ástríðu er Sigga Ózk í háskólanámi, en hún mun útskrifast með B.ed–gráðu í kennslufræðum næsta vor. Söngkonan brennur fyrir menntamálum og dreymir um að sinna því samhliða tónlistinni. 

„Mig langar að betrumbæta menntakerfið á Íslandi, stofna skóla eða prógramm sem verður hægt að innleiða í skóla og mögulega tengja listina inn í það. Ég er sömuleiðis opin fyrir því að opna munaðarleysingjahæli erlendis,“ útskýrir Sigga Ózk. 

Söngkonan sér sig einnig setjast í forsetastólinn og megum við því eiga von á að sjá og heyra: Sigga Ózk til forseta 2050. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál