Maríanna Pálsdóttir, snyrtifræðingur og eigandi Snyrtistofu Reykjavíkur, skrifar um ljósið og myrkrið í nýjum pistli. Hvernig lífið getur farið með fólk á dimma staði og hvernig hægt er að brjótast út úr aðstæðum.
Ert þú búin að týna styrknum og viljanum sem þú hafðir til að takast á við lífið og vera áhugaverðasta útgáfan af þér? Klæðir þú þig í svört föt til að hverfa í fjöldann og finnst þér jafnvel eins og þú sért ekki þess virði að sjást því sjálfstraustið er hrunið? Er barkakýlið stíflað og þorir þú ekki að tala upphátt og segja hvað þú vilt fá út úr þessu lífi, eða veistu það kannski ekki?
Það er svo margt sem gæti hafa gerst sem olli því að við erum ófær um að skoða okkar eigin sjálfsmynd en það þarf sannarlegt hugrekki til að skoða fortíðina. Skoða hvað mótar mann og líka tl að skilja hver maður er og hvaðan maður kemur. Að skilja hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru. DNA-keðjan okkar er þyrnum stráð og það getur verið mjög óþægilegt og jafnvel óhugsandi að kroppa í það sem er vel falið undir yfirborðinu, jafnvel kynslóðum saman.
Ég hef upplifað það af eigin raun að missa kjarkinn og hugrekkið í lífinu. Ég spurði mig margoft hvað hefði eiginlega gerst? Ég skildi ekki hvað minnkaði ljósið sem skein svo skært innra með með mér þegar ég var barn. Þegar ég var lítil var ég út um allt, ófeimin, hraust og frjáls. Ég vildi finna þessa litlu mig aftur.
Hver er ástæðan fyrir þessu í mínu lífi?
Jú, ég lenti í áföllum sem drógu sjálfstraustið niður. Ljósið innra með mér dvínaði stöðugt og ég hvarf inn í hugarheima myrkursins. Á þeim stað gerast skuggalegir hlutir. Baktal, lygar, ómerkilegheit og afbrýðisemi gerðu vart við sig. Á slíkum stað vill enginn vera til lengdar nema þeir sem nærast á því að drekka úr bolla Satans. Ég hef nú kvatt þann part af lífi mínu sem var samt svo mikilvægur að ganga í gegnum. Þar lærði ég að meta ljósið, finna það aftur og kveikja á því. Ég hef síðan valið að vera þeim megin við línuna þegar ég lifi lífi mínu, frekar en að festast í niðamyrkri sjálfshaturs og niðurrifs. Ef lífið væri málverk þá myndi ég vilja sitja ofan á því og baða mig í sólinni en ekki liggja á botninum í mýrinni þar sem myrkrið og skíturinn er. Við hljótum öll að geta sammælst um að það er ekki góður staður að vera á!
Í leitinni að ljósinu náði ég loksins að opna fyrir röddina að stynja upp úr mér hvað ég þráði og vildi. Ég fann loksins röddina aftur og gat byrjað að tala beint frá hjarta mínu, í æðruleysi og frelsi. Með mikilli sjálfsvinnu náði ég að skilja hvað gerðist þegar ég villtist af leið sem barn. Ég þræddi mig í gegnum líf mitt frá árinu sem ég fæddist þar til nú eins og það væri slönguspil. Margoft hrundi ég niður stigann í leiknum og þá var ekkert annað í stöðunni en að halda áfram að þræða sig í gegnum leikinn að nýju. Það skiptir miklu að gefast ekki upp og halda áfram annars ertu úr leik. Þegar ég held að ég sé að nálgast eitthvað lokamarkmið þá renn ég stundum niður stigann og í mig er kastað fleiri verkefnum sem ég þarf að leysa úr.
Það er í raun ekkert loka- neitt í lífinu, bara lærdómur. Þetta er allt partur af því að lifa og vera mannvera í stöðugri þróun. Við þurfum stöðugt að vera á tánum, setja okkur önnur og stærri markmið þegar einu marki er náð og bæta draumum í körfuna okkar. Lífið er til þess að lifa því, ekki satt?
Ég er lítil stelpa að tala um sannleikann minn en á sama tíma er ég orðin hugrökk kona að skrifa það niður og leyfa öllum sem vilja lesa það. Draumurinn minn er nefnilega sá að allir geti lifað sínu besta lífi og að óskir hvers og eins rætist - en þú þarft að þora að láta þig dreyma, óska þér og þora að leggja af stað í ferðalagið sem liggur þangað! Það kostar stundum mikla vinnu og þú mátt aldrei gefast upp. Þú getur hvílst á leiðinni en þú skalt ekki hætta að vinna vinnuna. Að taka ábyrgð á sér er það sama og að öðlast frelsi. Það er því eins gott að hefjast handa sem allra fyrst og finna það sem þú brennur fyrir, lifa drauminn sem þig dreymir og lifa fyrir ástríðuna sem býr í hjartanu þínu.
Kveðja frá konunni sem þorir að bera höfuðið hátt og hvetur þig til að gera það sama.