Sagði upp góðu starfi og gerðist markþjálfi

María Stefánsdóttir ákvað að fylgja hjartanu og breyta um starfsvettvang.
María Stefánsdóttir ákvað að fylgja hjartanu og breyta um starfsvettvang. mbl.is/Kristinn Magnússon

María Stefánsdóttir var forstöðumaður hjá Icelandair þegar hún ákvað að fylgja hjartanu og skipta um starfsvettvang. Í dag rekur hún fyrirtækið Fortunata og er vinsæll markþjálfi og stjórnendaþjálfari. Það tók hana langan tíma að þora að taka stökkið því afkomukvíði þvældist fyrir. Í dag sér hún ekki eftir neinu og finnst að fólk eigi að hlakka jafnmikið til mánudaga og föstudaga. 

María er stjórnmálafræðingur með meistaragráðu í alþjóðastjórnmálum frá Kaupmannahafnarháskóla. Hún stefndi á að vinna í stjórnsýslunni að loknu námi og því lá beint við að fara í atvinnuviðtal vegna starfs á Alþingi þegar hún var nýkomin heim úr námi.

„Ég komst mjög langt í því umsóknarferli. Ég átti að vera að skrifa ræður fyrir þingmenn og við vorum tvö eða þrjú eftir í úrtakinu þegar ég fékk þessa spurningu: „Getur þú sætt þig við að aðrir fái heiðurinn af þinni vinnu.“ Ég hugsaði málið og svarið var nei. Þá fann ég að það var ekki það sem ég vildi. Í kjölfarið fór ég að vinna hjá Símanum og var fljótlega komin í stjórnendastöðu þar. Ég starfaði lengst af þar, með sjö ára hléi þar sem ég var í fjármálageiranum. Ég fór svo til Icelandair 2018,“ segir María. Eftir þriggja ára starf þar sagði hún starfi sínu lausu til að fara út í óvissuna með það í farteskinu að starfa við það sem hún hefði meiri ástríðu fyrir.

Vildi sjá starfsfólkið vaxa

María segir að hún hafi alls ekki vaknað einn morguninn og vitað nákvæmlega hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór. Þessi U-beygja átti töluverðan aðdraganda. 2017 byrjaði hún sjálf í markþjálfun hjá Eddu Jónsdóttur leiðtogamarkþjálfa. Tímarnir hjá Eddu ýttu við henni og fengu hana til að skoða það hvað drifi hana áfram.

„Edda leiddi mig í gegnum alls konar æfingar til að kanna hvað það var sem virkilega nærði mig í vinnunni. Ég fór yfir vinnudaginn minn og kortlagði hvað mér þótti skemmtilegast að gera. Það fékk mig til þess að horfa til baka á fyrri störf. Þegar ég leit á söguna mína sá ég að mér fannst alltaf langskemmtilegast og fékk mesta kikkið út úr því þegar fólkið í teyminu mínu náði að vaxa og náði markmiðum sínum. Það voru þessi persónulegu samtöl sem ég átti við mitt teymi og samstarfsfélaga sem gáfu mér mesta ánægju.“

Er það algengt að stjórnendur vilji láta starfsfólkið sitt vaxa? Vilja þeir ekki frekar reyna að halda í þá sem eru góðir svo þeir fari ekki að vinna annars staðar? Eða er það bara úreltur þankagangur?

„Það fer eftir hvernig þú ert. Ég hef verið í stjórnunarstöðum á stórum vinnustöðum og ég sem stjórnandi stóð fyrir því að hver og einn fengi athygli, stuðning, frelsi og sinn tíma og næði til að gera það sem viðkomandi vildi ná fram.“

Vannstu langan vinnudag þegar þú varst í stjórnunarstöðum?

„Já, stundum, en ég reyndi að stýra álaginu. Ég er með hrúgu af áhugamálum og vildi hafa tíma fyrir fjölskylduna.“

María segir að fólk þurfi að hlakka jafnmikið til að …
María segir að fólk þurfi að hlakka jafnmikið til að mæta í vinnu á mánudögum og föstudögum. Eftir langan feril sem stjórnandi í stórum fyrirtækjum elti hún drauminn sinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afkomukvíðinn gerði vart við sig

María segist hafa verið tvístígandi um hvort hún ætti að þora að segja upp góðu starfi og fara á vit ævintýranna og stofna sjálf fyrirtæki. Hún segir að mesti óttinn hafi snúist um það hvort endar myndu ná saman eða ekki.

„Ég upplifði ótta og afkomukvíða. Ég hugsaði ekki mikið út í það sem er stærsta breytingin en það er að vinna ein, kannski sem betur fer því ég er mikil félagsvera og vön að vinna með fullt af skemmtilegu fólki,“ segir hún og bætir við:

„Það tók mig langan tíma að taka þessa ákvörðun og ég þurfti mikla markþjálfun sjálf til þess að þora að taka stökkið og komast yfir óttann. Ég er lánsöm að þekkja mjög marga og er með gott tengslanet. Það hefur hjálpað mér og það er nóg að gera hjá mér. Ég er ennþá að vaxa.“

Gat lært allan sólarhringinn

María segir að skólinn ICA, International Coach Academy, hafi orðið fyrir valinu af ýmsum ástæðum.

„Minn markþjálfi lærði þar, auk þess sem sveigjanleikinn er mikill, þú stýrir því hvenær þú mætir. ICA er með nemendur um allan heim og því eru tímar í boði allan sólarhringinn. Ef þú varst andvaka gastu farið í tíma,“ segir hún og hlær.

Gerðist það oft, að þú værir andvaka og opnaðir tölvuna og færir að læra?

„Nei aldrei, ég hugsaði að þetta byði upp á möguleika sem ég síðan nýtti mér ekki. Ég reiknaði ekki með að ég myndi kynnast fólki í þessu námi en það var nú ekki þannig. Ég eignaðist fullt af vinum út um allan heim sem ég er í sambandi við í dag og hef fengið viðskiptavini í gegnum. Það var margt sem mér fannst krefjandi í náminu og í raun var það miklu meira krefjandi en ég gerði mér grein fyrir þegar ég fór af stað. Þú markþjálfar til dæmis ókunnugan einstakling á Zoom fyrir framan aðra nemendur og kennara sem gefa þér endurgjöf, jákvæða og neikvæða, það var ekki verið að sýna mikla mildi. Ég var svo stressuð í fyrsta sinn sem ég gerði þetta að ég man varla eftir því,“ segir María.

Hún segir að markþjálfi megi ekki segja fólki hvað það á að gera heldur verður markþeginn að finna út úr því sjálfur.

„Þú mátt ekki leiða markþegann áfram og þarft því að gæta þess að spyrja ekki leiðandi spurninga. Það er gildra sem auðvelt er að falla í. Þú mátt heldur ekki tala ofan í þann sem þú ert að markþjálfa eða gefa merki með svipbrigðum, líkamstjáningu og svo margt annað,“ segir hún.

María segist hafa upplifað töluverðan afkomukvíða áður en hún þorði …
María segist hafa upplifað töluverðan afkomukvíða áður en hún þorði að taka stökkið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óvæntur kraftur

Þegar María er spurð hvað einkenni góða markþjálfa segir hún að markþjálfun sé magnað fyrirbæri sem geti leyst úr læðingi hugrekki og kraft sem fólk veit kannski ekki að það býr yfir.

„Oft mætir fólk í markþjálfun og veit ekki hvað það ætlar að tala um eða er með óljóst vandamál. Þá þarf að byrja á því að ná utan um það. Hvað vill viðkomandi leysa? Svo ferðu út í það að láta markþegann finna út úr því hver lausnin er. Þótt markþjálfinn telji að lausnin blasi við þá er það ekki hans að leysa, það getur stundum verið krefjandi,“ segir hún og brosir.

Eru mánudagar og föstudagar eins?

Varstu með skýra sýn þegar þú byrjaðir í markþjálfun á sínum tíma? Vissirðu að þú yrðir að skipta um starfsvettvang?

„Nei ég vissi það ekki á þeim tíma en ég vissi að ég vildi vera í starfi þar sem ég hlakkaði jafnmikið til mánudaga og föstudaga. Ég vildi vera í starfi þar sem ég gæti stutt fólk í að ná sínum markmiðum og vildi hjálpa því að vaxa og blómstra. Ég elska allt þetta mannlega í fólki. Ég er líka með stjórnendaþjálfun og oft blandast þetta tvennt saman. Þegar ég fer sjálf í markþjálfun finnst mér gott að fá stuðning og það sé hlustað á mig og finna að það er manneskja þarna sem er í mínu liði og fagnar sigrunum með mér en ögrar mér líka. Að ég geti verið þessi manneskja fyrir aðra finnst mér frábært. Ég hlakka jafnmikið til mánudaga og föstudaga í dag. Mér finnst ég sjaldnast vera að vinna.“

Er óalgengt að fólk hlakki jafnmikið til mánudaga og föstudaga?

„Góð spurning og nú þarf hver að svara fyrir sig. Sumir eru bara að bíða eftir helginni og svo er helgin kannski ekki tilhlökkun því þú þarft að vinna,“ segir hún og brosir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál