Samfélagsmiðlastjarnan og metsölubókahöfundurinn Sólrún Diego hefur verið ráðin til starfa innan markaðsteymis Kringlunnar.
Sólrún greindi frá því á samfélagsmiðlum sínum í gær að hún hefði hafið störf á nýjum vinnustað og lýsti yfir mikilli tilhlökkun fyrir komandi tímum.
„Ég er sem sagt orðin hluti af markaðsteymi Kringlunnar og mun sjá um alls konar markaðsmál, samfélagsmiðla, viðburði, og það er bara svo ótrúlega margt skemmtilegt og spennandi fram undan,“ sagði Sólrún á Instagram-reikningi sínum.
Sólrún er einn vinsælasti áhrifavaldur landsins með yfir 45 þúsund fylgjendur á Instagram. Hún hefur unnið að ýmsum verkefnum í gegnum árin og hefur meðal annars gefið út tvær bækur og heldur úti hlaðvarpsþáttunum Spjallið með Línu Birgittu Sigurðardóttur og Guðríði Jónsdóttur.
Í september 2022 var Sólrún ráðin markaðsstjóri barnavöruverslananna Vonar verslunar og Bíum Bíum, en hún útskrifaðist í febrúar síðastliðnum sem viðskiptafræðingur með áherslu á markaðssamskipti og samfélagsmiðla frá Háskólanum á Bifröst.