Ólst upp á golfvellinum

Golfvöllurinn er annað heimili Bjarna Þórs Hannessonar.
Golfvöllurinn er annað heimili Bjarna Þórs Hannessonar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Þór Hannesson, yfirvallarstjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar, segir ekkert annað hafa komið til greina en að starfa á golfvelli enda nánast fæddur og uppalinn á golfvellinum á Akranesi. Hann menntaði sig í Skotlandi og Englandi og segir mikil vísindi fólgin í því að byggja og viðhalda góðum golfvelli. 

Pabbi minn var golfvallahönnuður og ýtti undir meiri fagmennsku í viðhaldi á völlunum. Ég ólst upp við grasatilraunir í garðinum heima. Þá var verið að prófa mismunandi grastegundir. Afi minn var einn af þeim sem stofnuðu golfklúbbinn á Akranesi og var lengst formaður þar. Ég er alinn upp úti á golfvelli. Mér þótti leiðinlegt að horfa upp á það að golfvellirnir okkar voru ekki jafngóðir og þeir sem maður sá í sjónvarpi. Þegar ég fór að vinna á golfvellinum uppi á Skaga í sumarvinnu eftir áttunda bekk ákvað ég að þetta væri það sem ég vildi gera.“

Naut lífsins í Skotlandi

Bjarni gerði allt til að undirbúa sig vel fyrir nám í umsjón með golfvöllum og fór því á náttúrufræðibraut í framhaldsskóla. Strax eftir útskrift fór hann í þriggja ára nám í skólanum Elmwood Collage í Skotlandi þar sem hann segir segir flesta Íslendinga hafa lært golfvallafræðin. Þegar hann var í skólanum fékk hann tækifæri til að vinna á flottum golfvöllum og undirbúa vellina fyrir atvinnumannamót. Hann vann meðal annars á einum þekktasta golfvelli heims, St. Andrews, en skólinn er í næsta nágrenni.

„Við bjuggum í St. Andrews en við vorum tíu Íslendingar í bænum þegar ég var úti. Þetta var á sama tíma og Vilhjálmur prins og Katrín voru í námi þarna, hann var að vísu í háskólanum sem er í St. Andrews. Ég hitti hann einu sinni á barnum, hann var í góðum gír. Ég talaði ekki við hann en félagi minn ræddi aðeins við hann og kynnti sig. Hann sagði þessa fleygu setningu: „Hey Mr. William I just want to shake your hand.“ Þetta er langt síðan, það voru engir símar og það var samþykkt af samfélaginu að láta þau í friði. Það voru eiginlega allir krakkar sem tengdust einhverjum aðli sendir þangað,“ segir Bjarni sem nýtti sér það óspart að spila ódýrt á golfvöllunum í kring þegar hann bjó í St. Andrews.

Vilhjálmur prins og Katrín prinsessa voru við nám í St. …
Vilhjálmur prins og Katrín prinsessa voru við nám í St. Andrews á sama tíma og Bjarni. AFP/ Peter Byrne

Flókin fræði undir yfirborðinu

„Ég var svo ákveðinn að gera þetta að mér fannst þetta ekkert tiltökumál. Ég miklaði þetta aldrei fyrir mér og ég hafði komið þarna út áður. En það hafa ekki margir haldið svona mikið áfram,“ segir Bjarni en hann bætti við sig meistaranámi í grasavallatæknifræði í Cranfield-háskólanum á Englandi. Háskólinn er sérhæfður og býður aðeins upp á meistaranám og doktorsnám. Í skólanum er meðal annars kennd flugvallahönnun og er flugvöllur í skólanum.

„Þar lærði ég allt um íþróttayfirborð sem er spilað á grasi. Það er krikket, tennis og við fengum meðal annars ítarlega fyrirlestra um allt sem var í gangi á Wimbledon. En þetta eru líka fótboltavellir, golfvellir og veðhlaupavellir. Þetta er ekki golfvallahönnun. Golfvallahönnuðir ákveða hvernig holan á að líta út en ég kann að byggja hana og viðhalda henni frá a-ö. Svo eru það fótboltavellirnir, hvernig þeir eru uppbyggðir með alls konar ryksugukerfum, það þarf að sjúga vatn í gegnum þá, dæla lofti inn í þá og eins jarðvegsskiptingar. Við sátum í tímum með meistaranemum sem voru að læra að byggja stíflumannvirki og það var líka mikil jarðvegseðlisfræði. Þú þarft að vita hvernig þú getur dregið vatnið upp á móti þyngdarafli.“

Bjarni stendur í framkvæmdum á golfvellinum Bakkakoti í Mosfellsdal.
Bjarni stendur í framkvæmdum á golfvellinum Bakkakoti í Mosfellsdal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland varð fyrir valinu

Bjarni setti ekki endilega stefnuna á að koma aftur heim en hann varð ástfanginn og þá varð ekki aftur snúið. Hann segist auk þess vera að standa við þau markmið sem hann setti sér á unglingsárunum. „Grunnhugmyndin mín þegar ég var 14 ára var að gera golfvellina heima alveg jafngóða og úti. Sá draumur hefur alveg lifað, ég held áfram að hækka standardinn. Þetta hefur auðvitað breyst gríðarlega frá því ég var 14 ára gutti. Leikfimikennarinn minn sá um völlinn á sumrin, frábær gaur, en hann vissi auðvitað ekkert hvað hann var að gera. Þá var verið að opna golfvelli um miðjan maí og loka í september en nú eru vellir opnir í sex og upp í jafnvel átta mánuði á ári og golf orðin önnur stærsta íþróttin á landinu,“ segir Bjarni.

Sem yfirvallarstjóri hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar sér Bjarni um tvo golfvelli og hefst vinnudagurinn á meðan flestir eru enn í fastasvefni. „Það eru ákveðin verkefni sem þarf alltaf að vinna eins og að fylgjast með vaxtarhraða grassins,“ segir Bjarni sem þarf alltaf að vera tilbúinn að stökkva út á völl og eru verkefnin sum tæknilegri en önnur. Þegar tími gefst til reynir hann að spila golf sjálfur. „Stundum tekst það og stundum ekki. Núna er ég í miðjum framkvæmdum og þá er maður að vinna 12 tíma á dag. Ef þú hins vegar byrjar klukkan sex ertu búinn klukkan tvö og þá áttu nóg eftir af deginum, en þetta starf er klárlega fyrir a-týpur, þetta er ekki b-týpu-dæmi,“ segir Bjarni að lokum sem stillir vekjaraklukkuna klukkan 4.45.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda