„Ég ætlaði mér aldrei að vera húðflúrari að ævistarfi“

Hafþór hefur starfað sem húðflúrari í tíu ár.
Hafþór hefur starfað sem húðflúrari í tíu ár. Samsett mynd

Hafþór Eggertsson hefur frá unga aldri haft áhuga á að teikna. Þegar hann var enn að ákveða hvað hann ætti að gera í lífinu datt það óvænt upp í hendurnar á honum þegar teikningarnar hans fóru að vekja athygli. Í dag er þessi 29 ára gamli listamaður einn af færustu og eftirsóttustu húðflúrurum landsins og hefur hann flúrað yfir þúsund húðflúr á ferli sínum.

„Ég hef verið að teikna frá því ég man eftir mér en var meira bara að dútla sem barn. Nítján ára gamall flyt ég til Ólafsfjarðar ásamt móður minni og byrja í námi við Menntaskólann á Tröllaskaga. Það var þar sem ég byrjaði af fullri alvöru að teikna og það leið ekki á löngu þar til samnemendur mínir og aðrir fóru að forvitnast um hvort og þá hvenær ég ætlaði að byrja að flúra og varð þetta kveikjan að framtíðarstarfinu,“ útskýrir hann.

„Ekki auðvelt að sannfæra mömmu“

Hafþór birti nokkrar teikningar eftir sig á veraldarvefnum þegar hann var námsmaður fyrir norðan og stuttu síðar fékk hann óvænt símtal frá eiganda Bleksmiðjunnar í Reykjavík sem bauð honum að koma í starfsnám.

Hafþór eyddi miklum tíma í að teikna þegar hann var …
Hafþór eyddi miklum tíma í að teikna þegar hann var yngri. Ljósmynd/Hafþór Eggertsson

„Þau hjá Bleksmiðjunni buðu mér að koma í starfsnám og læra iðnina, en eins og þú getur án efa ímyndað þér þá var ekki auðvelt að sannfæra mömmu um að hætta í menntaskóla, flytja suður og byrja að flúra,“ segir Hafþór og hlær. „Mér tókst það á endanum, ég fékk leyfi frá mömmu, flutti suður og lærði listina sem er að flúra,“ útskýrir Hafþór, en hann lauk stúdentsprófinu einhverjum árum síðar í fjarnámi samhliða starfi sínu sem húðflúrari.

„Þessi vinna er heilmikill skóli en það er ekkert formlegt nám. Sem nýgræðingur kemur þú inn á stofu og lærir af þeim reyndu. Maður fær að æfa sig á gervihúð og appelsínum, sem hljómar án efa skringilega, en þetta snýst allt um að æfa sig og „mastera“ tæknina. Þegar þú ert tilbúinn þá byrjarðu, þetta er bara svona „learn by doing“ vinna,“ segir hann.

Þegar Hafþór var yngri var hann alltaf að grúska í allskyns hlutum, en hann var mikill músíkant áður en hann tók upp blað og blýant og byrjaði að teikna. „Þegar ég var tíu ára gamall fór ég á listnámskeið fyrir krakka. Ég fann mig ekki í listinni þá eða þarna til að byrja með. Það var bara þegar ég flutti norður með mömmu að ég fór að eyða átta til tíu klukkustundum á dag í að teikna og maður verður mjög fær í einhverju sem maður eyðir slíkum tíma í,“ segir Hafþór, en sá tími gerði hann að þeim færa listamanni sem hann er í dag.

Húðflúr eftir Hafþór.
Húðflúr eftir Hafþór. Ljósmynd/Hafþór Eggertsson

„Ljótasta húðflúrið er rósin“

Hafþór sérhæfir sig í svarthvítum og svokölluðum „realism“ húðflúrum, sem eru ljósmyndaportrett og eða sögulegar ljósmyndir sem hafa ef til vill mikla þýðingu fyrir kúnnann.

„Uppáhalds flúrið er alltaf bara flúrið sem ég vann síðast. Ég hef gert nokkur flúr á konuna mína og eru þau öll í miklu uppáhaldi, en það er mikið af eftirminnilegum verkum eftir öll þessi ár,“ segir hann.

„Ég vann einu sinni í ermi með seinni heimsstyrjaldarþema og fékk þá að flúra „V-J Day kiss“, segir Hafþór, en það er þekkt augnablik sem ljósmyndarinn Alfred Eisenstaedt fangaði á Times Square af sjóliða að kyssa ókunnuga konu þegar tilkynnt var um uppgjöf Japana og lok stríðsins. „Ég var mjög hrifinn af þeirri mynd, en svo er þetta svo mikið magn af flúrum. Á hverjum degi skilar maður af sér stóru flúri, þau eru öll uppáhalds,“ útskýrir hann.

Hafþór viðurkennir að ljótustu húðflúrin sem hann hefur gert á ferlinum eru þau sem hann flúraði á sjálfan sig. „Ég er með tvö húðflúr sem ég gerði á sjálfan mig og þau eru bæði hræðileg. Að flúra sjálfan sig er mun verra en að fá á sig húðflúr. Þetta er svolítið eins og að óvart brenna sig á heitri pönnu vs. að setja höndina á heita pönnu, miklu verra! Það er mjög auðvelt að vera góður við sig og þessi húðflúr líta hræðilega út í dag,“ segir Hafþór og hlær.

Hvað flúraðirðu á þig?

„Ég gerði útlínur af einni rós á lærið á mér og svo veit ég ekki alveg hvað hitt er, ég held að þetta sé hauskúpa, en það er frekar óljóst.

Rósin er töluvert stærri og það var minna hægt að klúðra henni, en mér tókst samt á einhvern hátt að klúðra henni,“ segir Hafþór og hlær. „Rósin er samt aðeins skárri og kom á undan, en ég mun á einhverjum tímapunkti flúra yfir þau. Ég má samt eiginlega ekki flúra yfir þau, þetta eru minningar, en jú, maður verður,“ segir hann. „Ljótasta húðflúrið er rósin.“

„Fjölskyldan kvartar meira“

Hafþór er í sambúð með Helenu Ósk Óskarsdóttur og er parið búsett í Hafnarfirði ásamt tveggja ára gamalli dóttur þeirra, Úlfhildi.

Hafþór hefur flúrað nánast alla fjölskyldumeðlimi sína, þar á meðal sambýliskonu sína, en dóttir parins þarf að bíða í þónokkur ár eftir fyrsta húðflúrinu, það er ef hún kýs að feta í fótspor fjölskyldumeðlima.

Hafþór ásamt sambýliskonu sinni, Helenu Ósk.
Hafþór ásamt sambýliskonu sinni, Helenu Ósk. Ljósmynd/Hafþór Eggertsson

„Já, ég hef flúrað þá alla,“ segir Hafþór og hlær.

Pabbi er mikill veiðimaður og stjórnaði veiðiþáttunum Sporðaköst hér um árið,“ segir Hafþór, en faðir Hafþórs er fjölmiðlamaðurinn Eggert Skúlason. „Ég gerði á hann einhvers konar veiðimannamerki og svo þegar pabbi ákvað að gera nýja þáttaröð af Sporðaköstum eftir margra ára hlé þá vildi hann fá lógó-ið sett á sig og hlaut ég heiðurinn.“

„Mamma er með blóm og fljúgandi fugla, en þetta er ekki mikið stærri fjölskylda, þannig að ég er tæknilega búin að flúra þá flesta,“ segir hann.

Hvernig er að fá fjölskyldumeðlim í stólinn?

„Það er fínt. Þau kvarta meira, fjölskyldan kvartar meira. En það er alltaf stuð,“ útskýrir Hafþór.

Sex mánaða biðlisti

Aðspurður segir Hafþór vinsældir húðflúra fara sífellt vaxandi. „Ég flúra alla virka daga, en „standard“ dagur er sex klukkutímar. Það er sex mánaða biðlisti hjá okkur á Bleksmiðjunni eins og staðan er í dag, það er vitlaust að gera,“ útskýrir hann.

Hafþór er mjög harður á því að einstaklingar þurfi að vera búnir að ná 18 ára aldri, en hann segir meðaldur fólks í flúri á stofunni vera á fertugs- og fimmtugsaldri. „Ég hef flúrað allan aldur og þónokkra á sjötugs- og áttræðisaldri. Þetta er mjög skemmtileg og ólík blanda af fólki sem við höfum séð í gegnum árin,“ segir Hafþór, en hann hefur flúrað vel yfir þúsund húðflúr. „Ég er ekki með tölu á því hvað ég hef gert mörg húðflúr, en eins og ég segi þá er þetta fimm daga vikunnar, allt árið og núna í tíu ár. Þau eru komin í þúsund og eitthvað.“

Húðflúr eftir Hafþór.
Húðflúr eftir Hafþór. Ljósmynd/Hafþór Eggertsson

Hafþór er ófeiminn við að neita beiðnum kúnna en reynir ávallt að leiðbeina þeim í rétta átt þar sem hann vill alltaf sjá hlutina ganga upp. Hafþór harðneitar þó að framkvæma eina beiðni og það er þegar kúnni vill fá húðflúr í andlitið. „Ég vil ekki ekki flúra andlit. Mér þykir þau alveg flott, en sjálfur myndi ég ekki flúra andlit,“ útskýrir hann.

„Það er mikilvægt að „factor-a“ heildarpakkann þegar kemur að öllum húðflúrum, en ef að einstaklingi langar að fá sér húðflúr í andlitið þá að sjálfsögðu fær viðkomandi sér húðflúr í andlitið. Það leiðinlega er að sá getur átt von á því að vinnuveitendur eigi eftir að hafa skoðun á því, hvort sem það á rétt á sér eða ekki,“ segir Hafþór.

Bestu og verstu svæðin

Aðspurður segir Hafþór ytri-framhandlegginn mjög þægilegan stað fyrir fyrsta húðflúr. „Það er svona skásti staðurinn á líkamanum, sársaukalega séð, og þú getur fylgst með öllu ferlinu.“

Þegar kemur að verstu stöðum á líkamanum þá segir hann það vera svæðin þar sem þú sérð ekki hvað er í gangi eins og á aftanverðum lærum og baki.

Það er sex mánaða biðlisti til að komast í stólinn …
Það er sex mánaða biðlisti til að komast í stólinn hjá Hafþóri. Ljósmynd/Hafþór Eggertsson

„Að mínu mati er sársaukafyllsta svæðið til að láta flúra, bakið. En bringan og maginn eru líka mjög sársaukafull. Sjálfur er ég ekki með húðflúr á maganum en þeir sem ég þekki sem eru með flúr á þessum svæðum segja magann langverstan enda viðkvæmt svæði,“ útskýrir hann.

Hafþór er einn af 90 listamönnum sem verður á Iceland Tattoo Expo í byrjun nóvember. Er þetta í áttunda sinn sem hátíðin er haldin og fer hún fram í Laugardalshöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda