Seldi fjölskyldufyrirtækið eftir 40 ára feril og settist á skólabekk sjötugur

Þormar Ingimarsson seldi fyrirtæki sitt og lærði að vera leiðsögumaður.
Þormar Ingimarsson seldi fyrirtæki sitt og lærði að vera leiðsögumaður. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Óhætt er að segja að Þormar Ingimarsson sé með fjölhæfari og lífsglaðari mönnum en hann rak og starfaði við úraheildsöluna Ingimar H. Guðmundsson ehf. í nokkra áratugi. Auk þess vann hann við skipulagningu og leiðsögn í hestaferðum á hálendinu um árabil ásamt því að gefa út þrjá geisladiska en eitt þekktasta lagið hans er „Í Vesturbænum“ sem Pálmi Gunnarsson söng og sló í gegn á 9. áratugnum. Þormar stundaði hestamennsku af eldmóði og iðkar sund nokkrum sinnum í viku. Hann ferðast mikið og hefur einstakt dálæti á myndlist ásamt fleiri áhugamálum.

Úraheildsalan sem Þormar vann hjá um árabil var fjölskyldufyrirtæki sem faðir hans stofnaði en í hverju fólst starfið?

„Ég vann í rúma fjóra áratugi við að þjónusta úrsmiði og gullsmiði og sá um dreifingu á úrum og klukkum og öllu því tengdu. Faðir minn stofnaði fyrirtækið 1972 og ég hóf störf þar árið 1980 og vann við hlið hans og fjölskyldu okkar til fjölda ára. Síðan tók ég alfarið við rekstrinum árið 2009 en þá hét fyrirtækið Mari Time ehf. Ég rak þetta fyrirtæki til ársins 2021 en þá seldi ég það til þriggja systkina og maka þeirra en þau reka fyrirtækið Klukkuna í Kópavogi við góðan orðstír. Þarna ræður ungt og kraftmikið fólk ríkjum. Þau eru með góða heimasíðu og sinna þessu vel.“

Þormar segir ástæðurnar fyrir sölunni vera nokkrar, meðal annars að margt hafi breyst með tilkomu nýrrar tækni svo sem snjallúra.

mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Las sinn tíma

„Heildsala með úr hefur mikið til lagst af í dag og margar verslanir flytja bara úrin inn sjálfar. Ég las minn tíma, ef ég hefði ætlað að halda fyrirtækinu gangandi hefði ég þurft að ráðast í miklar breytingar og nútímavæða reksturinn. Ég hefði þurft að setja upp heimasíðu og stofna verslanir og jafnvel fara í samkeppni við mína kúnna, það var eitthvað sem mér hugnaðist ekki. Ég er hæstánægður með nýju rekstraraðilana og feginn að sjá að fjölskyldufyrirtækið er komið í góðar hendur.“

Alltaf ákveðinn í að finna sér eitthvað annað að gera

Þormar segist hafa viljað losa sig út úr fyrirtækinu á meðan hann hefði enn styrk og orku til að gera eitthvað annað og finna nýjan starfsvettvang. „Ég vildi ekki bara daga uppi í fyrirtækinu eins og einhver gamlingi enda hafði ég engan ungan úr fjölskyldunni með mér til að fara í breytingar og fríska upp á fyrirtækið. Ég var alltaf ákveðinn í því að finna mér eitthvað að gera þegar ég væri búinn að selja. Ég hef alltaf haft ánægju af því að vinna og þekki ekkert annað en að vinna langan vinnudag.“

mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Leiðsögumannaáhuginn kviknaði í hestaferðum

En hvers vegna lá leiðin í leiðsögumanninn?

„Ég hef haldið hesta í Reykjavík í um það bil 55 ár og hestaferðalög hafa verið mér hugleikin um langa hríð, sérstaklega hestaferðir á hálendinu. Í gegnum tíðina hef ég starfað í ferðanefnd Fáks og komið að skipulagi á hestaferðum félagsins þar sem voru kannski 30 þátttakendur og hestaflotinn um 180 hross. Þessar ferðir gengu mjög vel og við ferðuðumst víða um hálendið og nutum leiðsagnar heimamanna í hverju héraði þar sem við fórum um. Við riðum margar þekktar slóðir og í ferðunum var passað upp á að ganga vel um náttúru Íslands, við pössuðum til dæmis að hafa alltaf stoppin á grónum grundum og melum. Það var í þessum ferðum sem leiðsögumaðurinn í mér fæddist, mér fannst gaman að skipuleggja, vinna með kort, útbúa söngbækur, spila á gítar og sjá um samsöng.“

mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Settist á skólabekk í tvöfalt nám sjötugur að aldri

Hann segir hlutina síðan hafa æxlast þannig að vinir hans, hjónin Gísli og Ásta Begga frá Skagafirði, hafi sagt við Einar Bollason eiganda Íshesta að þau vildu fá að velja sér leiðsögumann í sínar hestaferðir og völdu Þormar. Upp frá því vann Þormar í um 15 ár nokkrar vikur á sumrin hjá Íshestum og síðan Íslandshestum við hestaferðir á hálendinu.

„Ég var því búinn að starfa við leiðsögn með erlendum gestum til langs tíma áður en ég tók þá ákvörðun að fara að læra þetta hjá Endurmenntun HÍ fyrir rúmu ári. Námið tók einn vetur og var virkilega fræðandi en samhliða þessu tók ég rútupróf sem hefur nýst mér líka. Það var vissulega nokkuð krefjandi en var skemmtilegt.“

Erfitt en áhugavert

Þormar segir það hafa tekið aðeins á að setjast á skólabekk á þessum aldri en hann var 70 ára þegar hann fór í námið. Hann hafi því þurft að kveikja svolítið á sér, eins og hann orðar það. „En þetta var svo áhugavert efni og mér hugleikið, eins og náttúran, sagan, jarðfræðin, veðurfræðin og norðurljósin. Ég var í raun bara að bæta við mína þekkingu og er reyndar enn alltaf að bæta við mig þótt formlegt nám mitt sé búið, það fylgir bara þessu starfi. Ég naut námsins og gekk mjög vel. Það var líka gaman að kynnast fólkinu sem var með mér í náminu en það var á öllum aldri. Í raun var þetta mikil lyftistöng fyrir hugann.“

Þakklátur fyrir að axla ábyrgð sem fylgir því að vera í vinnu

Frá því að Þormar kláraði námið hefur hann haft mikið að gera og verið eftirsóttur en hann vinnur sem verktaki fyrir fleiri en eitt fyrirtæki allt árið um kring.

„Ég var svo heppinn að verða þess aðnjótandi að komast strax í vinnu. Ég er bæði svokallaður sitjandi leiðsögumaður og einnig keyri ég og kjafta eins og það er kallað,“ bætir hann við glettinn.

„Sitjandi leiðsögumaður keyrir ekki heldur einbeitir sér að leiðsögn og þá er bílstjóri sem sér um aksturinn en þetta að keyra og kjafta, þá sér sami aðili um hvort tveggja. Ég hef verið með hópa allt frá tveimur og upp í 40 manns og vinn mest fyrir GJ-ferðir, eða Guðmund Jónasson, en líka fyrir fleiri fyrirtæki. Leiðsögustarfið gefur mér mjög mikið, að hafa eitthvað fyrir stafni og axla ábyrgð sem fylgir vinnu er mikilvægt fyrir mína líkamlegu og andlegu heilsu. Þegar ég er ekki að leiðsegja er ég að undirbúa næstu ferðir og lesa mér til um eitthvert sérstakt efni. Núna er ég til dæmis á námskeiði um Sturlunga og einnig er ég að stúdera Njáls sögu og norðurljósin.“

Gefandi starf þar sem eitthvað nýtt ber við á hverjum degi

Þormar segir mikla fjölbreytni vera fólgna í leiðsögumannastarfinu og að það sé sérlega skemmtilegt og henti honum.

„Það er svo gaman að fá að fara í þessi ferðalög með fjölbreyttum hópum og upplifa náttúru Íslands. Mér finnst ég alltaf vera að sjá eitthvað nýtt í hverri ferð þótt ég hafi jafnvel farið sömu leið margsinnis eins og Suðurströndina og Gullna hringinn. Hugurinn þekkir ferðina og veit hvað er að sjá en fer óhjákvæmilega að leita að einhverju nýju. Þannig að engin ferð er eins. Auk þess er svo ánægjulegt að fá að upplifa landið sitt í gegnum ferðamennina og taka þátt í gleði þeirra, fá að vera hluti af þeirra sumarleyfi, mér finnst það gefandi. En það þarf jafnframt að passa að keyra sig ekki út í þessu starfi því maður þarf að hafa mikla gefandi orku og vera lifandi. Taka þátt í gleðinni, vera hæfilega afslappaður og alls ekki vera mónótónískur. Starfið snýst líka um gott skipulag, að halda tímaáætlunum og að allir endi daginn kátir og heilir.“

Áhugamálin mörg og mikilvæg

Eitt af því sem Þormar leggur mikla áherslu á er að vera virkur en hann ferðast, spilar golf og fer í golfferðir. Hann er auk þess í þremur skemmtilegum sundhópum tengdum Laugardalslauginni. Einn hópurinn hittist í kaffi á mánudögum og föstudögum og annar hópurinn hittist alltaf í hádegismat á fimmtudögum. Þriðji hópurinn hittist hvern morgun í anddyri Laugardalslaugarinnar og þar verður stundum nokkur hávaði, segir Þormar sposkur á svip.

„Um jólin hittumst við líka og borðum saman með konunum. Nú og svo er ég virkur afi og reyni að taka þátt í uppeldi barnabarna minna og koma að einhverju gagni þar, ég hef alltaf verið mikill barnakarl. Ég dútla líka eitthvað í tónlistinni og svo ferðast ég töluvert um heiminn með kærustu minni Ágústu,“ segir Þormar glaðlega og augljóst að hann hefur mikið fyrir stafni.

Gott að eldast og er enn að þroskast

Hann er ekki lengi að svara þegar kemur að því að gefa fólki sem er að sigla inn í seinni helminginn af ævinni ráð.

„Ég myndi benda fólki á að skoða hvar hæfileikar þess liggja, og rækta það og reyna að gera það annaðhvort að einhvers konar nýju starfi eða áhugamáli. Einnig er mikilvægt að rækta sjálfan sig.“

Þegar samtal okkar berst að því hvort Þormari finnist gott að eldast kemur blik í augun á honum og fáir myndu trúa því að hann sé löngu kominn á eftirlaun.

„Já, það er að mörgu leyti gott og jákvætt að eldast, það koma ný hlutverk með hækkandi aldri eins og barnabörn. Þau, ásamt börnum, vekja mikla gleði hjá mér, mér finnst gott að vera afi, og vera elskaður sem afi, það er alveg yndislegt. Mér finnst ég líka hafa þroskast mikið með aldrinum og tel mig reyndar enn vera í þroskaferli. Það er komin meiri ró í kringum mig og ég er þolinmóðari. Lífið kemur mér svolítið öðruvísi fyrir sjónir verandi á þeim stað sem ég er á í dag. Stefnan hjá mér er að vinna til svona 75 ára aldurs ef heilsan leyfir og allt gengur vel. Þá tek ég stöðuna bara aftur og sé hvert örlögin leiða mig. Það eru forréttindi að hafa það að starfi að kynnast og læra inn á landið sitt, Ísland.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda