Þórdís Helgadóttir rithöfundur hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir bækur sínar. Hún segist hafa náð markmiðum sínum með seiglu og þrjósku en hefur stundum átt það til að ofkeyra sig enda þurfa rithöfundar oft að vera í launaðri vinnu meðfram ritstörfum auk þess að reka heimili og ala upp börn.
Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?
„Með því að taka alltaf næsta litla skref. Mætti kalla það seiglu eða þrjósku eða þráhyggju. Það er eiginlega enginn skýr aðskilnaður á milli þess að lifa og skapa fyrir mig. Ég nota skrifin til að prósessera upplifanir, tilfinningar og hugmyndir og svo held ég að það sé bara innbyggt í mannfólk að njóta þess að búa hluti til,“ segir Þórdís.
Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?
„Já, ég hef oftast verið í launavinnu meðfram skrifunum, plús að reka heimili og ala upp börn. Ofan á það er ég með sjúklega hrátt og opið utanáliggjandi taugakerfi. Ég þurfti ítrekað á hlaupa á vegg áður en mér lærðist að fylgjast nákvæmlega með mínum innri gosóróa. Í dag kann ég að grípa í taumana og er orðin grimm í að segja nei, aflýsa plönum og fara að sofa.“
Hvernig skipuleggur þú daginn?
„Það veltur allt á því hvort ég þarf að mæta í vinnu, sækja í skóla, koma börnum á æfingar, undirbúa kennslu eða sinna bókmenntatengdu stússi. Venjulega reyni ég að stinga eitthvað af frá öllum skyldum og skrifa dálítið svo ég verði ekki þunglynd og óþolandi. Gjarnan fer ég eitthvert í burtu í lengri eða skemmri tíma.“
„Þegar kemur að skrifunum er ég hvatvís og óöguð, sífellt að fá hugmyndir, byrja á einhverju nýju og skrifa út í bláinn. Svo til að plata sjálfa mig til að klára hlutina lofa ég upp í ermina á mér og kem mér í þá aðstöðu að einhver er að bíða á hinum endanum eftir handriti eða sögu á tilteknum skilafresti. Þetta er auðvitað pínlegt að viðurkenna en ég lít á það sem „lifehack“ og neita að biðjast afsökunar!“
Hvernig er morgunrútínan þín?
„Kaffi og að leita að hreinum sokkum á mig og börnin. Um helgar: Kaffi og löng samtöl við manninn minn um allt og ekkert. Kannski nýbakað croissant. Malandi köttur og hlýtt teppi. Jú og ég nota sólarvörn og eitthvað svona rakagefandi gums á húðina.“
Vinnur þú stundum fram á kvöld?
„Já, það er alltaf eitthvað. Endalaus verkefni sem þarf að klára og hugmyndir á færibandi. Mig vantar sárlega betra jafnvægi í lífið og þrái hægfara og kyrrláta tilveru. Ef einhver lumar á töfralausn þá má viðkomandi gjarnan hafa samband. Á hinn bóginn fæ ég líka mikið út úr B-týpu lífsstílnum og elska að eiga pródúktíf, skemmtileg og skapandi kvöld hvort sem er ein eða með öðrum.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki að störfum?
„Það er engin skýr aðgreining fyrir mig. Að skrifa er bæði vinna, áhugamál og þerapía. Annars er ég talsvert í tímabundnum dellum, oftast fyrir einhverju sem ég bý til í höndunum. Ég hef til dæmis tekið góðar rispur í leir, stop-motion myndum, klippimyndagerð, tuskudýrahekli og nú síðast að prjóna, en bara peysur og bara úr mohair og silki. Annars nýt ég þess að lesa og dagdreyma og hanga á kaffihúsum, borða núggat og skoða alla fyndnustu kettina sem internetið hefur upp á að bjóða með börnunum mínum.“
Hvað er á döfinni?
„Næsta bók. Ný della. Ferðalög. Tungumálanám. Fleiri mohair-peysur. Og svo er ég staðráðin í að koma mér aftur í hlaupaform, hef einu sinni farið hálfmaraþon og dreymir um að taka annað, enda fékk ég svo mikið hrós. Set það hérna út í kosmósið eins og óklárað handrit.“
5 hlutir sem þú hefðir viljað vita um tvítugt?