Hafdís Björg Kristjánsdóttir og Kristján Einar Sigurbjörnsson, eða Hafdís og Kleini eins og þau eru kölluð, segja frá því í viðtali við Fókus hvers vegna þau hættu á samfélagsmiðlum og segjast vera með stór plön en vilja þó ekki gefa upp hver þau eru.
Hafdís og Kleini byrjuðu saman fyrir tæpu ári síðan og voru mjög virk á samfélagsmiðlum áður en hann gaf það út að hann væri hættur á miðlunum til þess að einbeita sér að eigin draumum. Nú, sjö mánuðum síðar, segjast þau hafa komið ýmsu verk sem þau hefðu annars ekki náð. Eins og til dæmis að leggja drög að nýju fyrirtæki sem mun koma með eitthvað nýtt og spennandi á íslenskan markað eins og þau orða það.
„Ég ætlaði að byrja eftir fjóra daga,“ segir Kleini.
„Þetta var eins og afeitrun,“ segir Hafdís.
Þau segja að fyrsti mánuðurinn hafi verið erfiðastur.
„Það voru alveg svita- og kvíðaköst fyrsta mánuðinn. Maður var að kúpla sig út úr raunveruleikanum sem maður var búinn að búa til. Það var allt öðruvísi. Maður vissi ekki neitt. Ég vissi ekkert hvað væri í gangi úti í heiminum, ég var ekki að lesa fréttamiðla eða neitt svoleiðis, ég var svo í mínum eigin heimi,“ segir Kleini.
„Það var bara ekkert fyndið og gaman fyrsta mánuðinn.“
Hafdís segir að hún hafi ekki trúað því að Kleini gæti hætt á samfélagsmiðlum.
„Þetta var ógeðslega skrýtið og ég hafði enga trú á þessu. Ég hélt þetta yrðu tveir til þrír dagar eða eitthvað. En svo var þetta ótrúlega þægilegt. Það var meiri ró, meiri hugaró, við komum meira í verk. Þetta fór að vera ótrúlega þægilegt en var sjúklega erfitt í byrjun. Hann var nánast farinn í spjallgrúppuna hjá mér og vinkonum mínum og spyrja hvað væri að frétta,“ segir hún.
Fyrir pásuna var Kleini vinsæll á samfélagsmiðlum og í samstörfum með fyrirtækjum. Umræðan berst að því hvort það hafi verið erfitt að loka á þessa tekjulind um óákveðinn tíma til að sinna öðru.
„Ég var alveg með plan út frá þessu. Þetta var ekki alveg þannig að ég köttaði á þetta og fór að lifa á einhverjum dósamat. Ég var að byggja grunn að öðru svo ég þyrfti ekki að vera í þessum samstörfum. Jújú, alltaf gaman að hafa [samstörfin], auka tekjulind. En svo líka eins og ég segi, maður hefur farið í burtu en einhvern veginn nær maður alltaf að hoppa í þetta aftur.“
Hafdís segir að þau séu búin að gera ýmsa samninga en vill ekki gefa upp hvað þau ætli nákvæmlega að fara að gera.
„Við erum að gera samninga um alls konar. Við erum að fara að opna fyrirtæki,“ segir Hafdís.
„Við ætlum að opna nokkur ný batterí á Íslandi, við getum orðað það þannig,“ segir Kleini. „Aðeins að bjóða upp á meira á þessum litla klaka okkar.“
„Við erum ekki bara með eitthvað eitt, við erum ekki að setja öll eplin okkar í eina körfu. Þetta eru hvað, sex, sjö, átta körfur?“ spyr Kleini en Hafdís er ekki viss.
„Þetta er mikið já, en ógeðslega gaman. Þetta er engin kvöð. Þetta er eitthvað sem við höfum ótrúlega mikinn áhuga á.“