Eyðir ekki tíma í að efast um sig

Hildigunnur Birgisdóttir á vinnustofu sinni.
Hildigunnur Birgisdóttir á vinnustofu sinni. Eggert Jóhannesson

Hildigunnur Birgisdóttir fer fyrir hönd Íslands á Feneyjartvíæringinn í vor. Hún er nú á fullu að undirbúa sýninguna sem opnar í apríl. Hildigunnur segir að það hafi hjálpað sér að draga aldrei í efa hvort hún eigi erindi sem listamaður, sköpunin sé henni eðlislæg. 

Hildigunnur útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og hefur því verið starfandi listamaður í rúma tvo áratugi. Það er mikill heiður fyrir listamenn að sýna á Feneyjartvíæringnum og aðspurð um hvað fleytti henni þangað segist hún vera almennt ekki markmiðsdrifin. 

Tekur einn dag í einu

„Ég tek lífinu eins og það birtist mér, einn dag í einu. Í því eru margar slæmar ákvarðanir en einnig margar góðar. Það sem hefur skolað mér hingað er fullt af góðu fólki, smá heppni og smá óheppni. Ég er svo lánsöm að ég hef ekki verið að eyða tíma í að efast um að ég hafi eitthvað að segja. Ég er bara drifin áfram af öðrum hvötum. Ég veit ekkert afhverju það er. Þetta snýst ekki einu sinni um að hafa trú á sér. Mér finnst bara sjálfsagt að ég vakni og byrji að vinna að listinni rétt eins og hver annar,“ segir Hildigunnur.

Alltaf unnið mikið með listinni

„Ég hef alltaf unnið mikið með myndlistinni, ég hef kennt, skúrað og unnið á leikskólum. Þrátt fyrir það hefur mér alltaf þótt það sjálfsagt að ég haldi svo áfram í listinni. Það fylgja þessu samt áskoranir. Lífið og listin er svo samtvinnuð og ég er ekki góð að gera marga hluti í einu.  Það hefur til dæmis verið krefjandi að samþætta fjölskyldulífið við myndlistina og átta sig á því að það þarf ekki endilega að skilja þetta að. Það tók mig smá tíma að anda inn í það.“

Hildigunnur segir að lífið hafi oft haft bein áhrif á listina hennar.

„Þegar barnsfaðir minn flutti til Hollands, þá var ég mikið ein með dóttur okkar. Þá bráðnaði saman lífið og listin. Ég gat til dæmis ekki verið mikið á vinnustofunni og fór að gera t.d. verk sem hægt væri að brjóta saman. Lífið mitt, það að ég var tímabundið einstæð móðir, hafði sjáanleg áhrif á það hvernig listin mín leit út. Mér fannst listin mín koma betur út og ég ákvað að fagna þessu. Ég er í þessu brasi, ég á þessa fjölskyldu. Með brasinu kemur gjöf. Ég reyni að sigta út hvað er spennandi, hvað gefur mér eitthvað og hvað ég get sýnt öðrum. Ég er alltaf í vinnunni eins og ég er alltaf í lífinu.“

Mikil hugsun liggur að baki verka Hildigunnar og á vinnustofunni …
Mikil hugsun liggur að baki verka Hildigunnar og á vinnustofunni má sjá fjölmargar skissur og teikningar upp um alla veggi. Eggert Jóhannesson

Málningin flagnar af kapítalismanum

Hildigunnur segir að það vera mjög lærdómsríkt að undirbúa sig fyrir Feneyjartvíæringinn.

„Ég er með mjög gott teymi með mér. Ég hef aldrei unnið með svona stóru teymi en það er í mörg horn að líta. Það þarf að funda með almannatengslastofum, galleríinu mínu og huga að framleiðslu verkanna og senda þau áleiðis,“ segir Hildigunnur en sýningarstjóri er Dan Byers.

„Hann er félagi minn í vangaveltum og ég get alltaf leitað til hans til þess að eiga þetta hugmyndafræðilega spjall.“

„Þrátt fyrir að vera með sýningarstjóra þá vissi ég þó strax að ég þyrfti líka einhvern sem hefði yfirsýn yfir framleiðslu verkanna þar sem verkin eru framleidd víða um heim. Ég fékk þess vegna Ásgerði Birnu Björnsdóttur með mér í lið. Hún er frábær listamaður og fékk hvatningarverðlaun íslensku myndlistarverðlaunanna í fyrra. Hún er búin að vera líflínan mín í þessu verkefni,“ segir Hildigunnur.

„Ég elska stórar samsýningar eins og tvíæringinn, þær eru svo mikil upplyfting andans svona maraþon fegurðar, eins er svo gaman að sjá allar þjóðarskálana í sínu fínasta pússi. Ég er að sama skapi alltaf þakklát þegar ég sé inni á milli þjóðarskála sem eru ekki með bensínið í botni. Leyfa fólki að staldra við, anda inn og út og fá smá hvíld frá áreitinu. Ég vona að sýning mín verði þannig upplifun fyrir gesti tvíæringsins.“

„Þá hef ég velt því fyrir mér hvernig íslenski skálinn geti nýtt rödd sína til að sýna samstöðu með Palestínu. Í október þótti mér það fásinna að þetta yrði enn raunveruleiki okkar í apríl, en þetta er staða mála í dag.“

Málefni Palestínu eru Hildigunni mjög hugleikin og hún veltir því …
Málefni Palestínu eru Hildigunni mjög hugleikin og hún veltir því fyrir sér hvernig íslenski skálinn geti sýnt samstöðu. Eggert Jóhannesson

Leitar að sannleik í brotnu kerfi

Með verkum sínum er Hildigunnur að rannsaka hugmyndir okkar um hið manngerða og samhengi hlutanna. Oft eru þar í aðalhlutverki litlir nytjahlutir sem við oftar en ekki gefum lítinn gaum í hinu daglega lífi.

„Ég vinn mikið með mannlegt kerfi, manngerða hluti sem eru þegar til í heiminum. Ég er sjaldan sú sem teiknar fyrstu línuna og ég er yfirleitt að bregðast við hugmyndum okkar, þetta  getur verið svo margt t.d. hraðbanki, heimasíða eða heilt hugmyndakerfi.“

„Það sem drífur mig áfram er að ég sé sannleik eða fegurð í okkar brotna kerfi. Málningin er að flagna af þessum kapítalisma sem við búum til og mér finnst mér gaman að kíkja á bak við og sjá hvað öll veröldin er mikill tilbúningur. Það heillar mig og drífur mig áfram.“

„Hvernig stendur á því að við séum manneskjur í þessum heimi? Ég elska þetta form; myndlistina og hún hentar mér fullkomlega til koma frá mér hugmyndum mínum,“ segir Hildigunnur.

Hugmyndir koma úr ýmsum áttum.
Hugmyndir koma úr ýmsum áttum. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda