Hefur fengið að upplifa helstu drauma sína

Eina Lövdahl.
Eina Lövdahl. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Einar Lövdahl rithöfundur sendi frá sér skáldsöguna Gegnumtrekk á dögunum. „Þessa dagana er ég á þeytingi að segja fólki frá bókinni minni. Annars er ég heima með 19 mánaða dóttur minni sem er ekki komin með leikskólapláss – og sinni skrifum, lagasmíðum og öðrum textaverkefnum þegar pössun býðst,“ segir Einar.

Um hvað er bókin?

„Bókin er um Ask, nýfullorðinn mann sem er hálfhræddur við lífið og ákveður að stinga af út á land þegar hann er kominn með nóg af öllu, ekki síst óþægilegum samskiptum. Þetta sama kvöld á hann að vera að sækja mömmu sína út á flugvöll, sem hann hefur verið í reglulegu sambandi við en þó ekki hitt augliti til auglitis síðan hann var unglingur.“

Er Askur hefðbundinn ungur karlmaður?

„Hann er það að ýmsu leyti – hann vill ná árangri og vera álitinn flottur, telur hlutverk sitt í ástarsambandi vera að vernda kærustuna, hefur alist upp í boltaíþrótt og á erfitt með að tjá sig um eigin líðan. En aftur á móti er hann viðkvæmari en margir strákar, held ég, og sér heiminn stundum svolítið á ská. Þótt sagan sé skáldskapur frá byrjun til enda er líklega margt líkt með okkur. Ég er bara heppnari en hann með rætur.“

Gegnumtrekkur eftir Einar Lövdahl.
Gegnumtrekkur eftir Einar Lövdahl.

Ertu búinn að upplifa drauminn eða halda draumarnir og markmiðin áfram að stækka?

„Ég er lánsamur og hef fengið að upplifa ýmsa af mínum helstu draumum, hvort sem þeir snúa að vinnu eða persónulegri hliðum lífsins. En í mér býr líka draumóra- og keppnismaður sem finnur sér stöðugt ný markmið. Til dæmis ætla ég mér að gefa meira út af skáldskap og tónlist.“

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Ég borða nú yfirleitt bara heiðarlega seríósskál, einstaka sinnum hafragraut eða flatköku með smjöri og bananasneiðum. Um helgar er það heilög stund – ristað brauð með marmelaði.“

Skál af Cherrios verður oft fyrir valinu.
Skál af Cherrios verður oft fyrir valinu.

Áttu uppáhaldsflík?

„Ég fékk gullfallega peysu frá konunni og dætrum okkar tveimur í afmælisgjöf á dögunum sem ég held strax upp á. Svo keypti ég mér ofurmjúka – og mjög ameríska – peysu í fjölskyldufríi Bandaríkjunum í fyrrasumar. Þær eru báðar grænar, túlkist að vild.“

Hvaða óþarfa keyptir þú þér síðast?

„Ég er óspennandi týpa í þessari deild, kaupi mér sjaldan föt eða einhverja vitleysu á netinu. En um tvítugt keypti ég mér svakaleg „arkitektagleraugu“ án sjónstyrks fyrir talsverðan pening sem ég þorði síðan aldrei að nota nema í gríni.“

Hvaða hlutur í lífi þínu er ómissandi?

„Heiðarlega svarið er síminn, jafnvel þótt oft vildi ég helst kasta honum út í hafsauga. Þar að auki kemur ekkert í staðinn fyrir fyrsta kaffibolla dagsins.“

Ertu skipulagður?

„Þegar ég hef brennandi áhuga á einhverju, til dæmis bók í smíðum, þá fæ ég það þannig á heilann að planið mótar sig eiginlega sjálft í kollinum. Sem dæmi um markvisst skipulag, þá er ég vanur að móta beinagrind að bókarkafla áður en ég sest niður og skrifa hann. En ég er ekki nógu sleipur í að sinna mörgum hlutum samtímis sem bitnar oft á mér í hversdagsamstrinu.“

Hvaða bók er á náttborðinu?

Salka Valka eftir Halldór Laxness, af því að ég var svo heppinn að komast í frábæran leshóp með eintómum drottningum, og líka bókin TheCreativeAct eftir Rick Rubin.“

Einar er að lesa Sölku Völku.
Einar er að lesa Sölku Völku.
The Creative Act eftir Rick Rubin.
The Creative Act eftir Rick Rubin.

Hvaða sjónvarpsþátt ertu að horfa á?

„Þessa dagana erum við konan mín að horfa á OneDay sem heyrir til tíðinda því annars erum við þekkt í vinahópnum mínum fyrir að horfa bara á norrænar dramaseríur.“

Netflix-þættirnir One Day hafa verið á skjánum heima hjá Einari …
Netflix-þættirnir One Day hafa verið á skjánum heima hjá Einari að undanförnu.

Hver er uppáhaldsborgin þín og af hverju?

„Stokkhólmur, hún er falleg og stendur undir því að vera stórborg án þess að vera yfirþyrmandi að stærð. En annars blundar í mér undarleg nostalgía gagnvart amerískum borgum almennt, enda bjó ég í Pittsburgh sem barn.“

Einar bjó með fjölskyldu sinni í Svíþjóð og kann vel …
Einar bjó með fjölskyldu sinni í Svíþjóð og kann vel við sig í höfuðborginni Stokkhólmi. Ljósmynd/Unsplash/Adam Gavlák

Ef þú gætir farið hvert sem er í ferðalag, hvert væri ferðinni heitið?

„Ég á alltaf Ísafjörð inni.“

Einar langar á Ísafjörð.
Einar langar á Ísafjörð. mbl.is/Sigurður Bogi

Hvað gerir þú til þess að slaka á?

„Ég hef aldrei verið mikill sundkall en þegar við fjölskyldan fluttum aftur heim í haust, eftir þrjú ár í Svíþjóð, meðtók ég loksins töframátt gufubaðsins almennilega. Annars næ ég bestu núvitundinni í körfubolta eða þegar ég er einn að skrifa eða semja.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda