„Á þessum páskum er friður mér efst í huga“

Elínborg Sturludóttir er prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík.
Elínborg Sturludóttir er prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elínborg Sturludóttir, prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík, segir páskana vera allra besta tíma ársins. Hún ætlar að kaupa uppáhaldssúkkulaði fyrir páskana en hún hefur neitað sér um súkkulaði og sælgæti síðan á öskudag.

Hvaða þýðingu hafa páskarnir fyrir þig?

„Páskarnir eru sigurhátíð. Ljósið sigrar myrkrið, vetur víkur fyrir vori og lífið sigrar dauðann. Allt þetta er tjáð í gleðidögum kirkjunnar sem hefjast á páskum. Persónulega finnst mér þetta besti tími ársins þegar við horfum fram til bjartra sumardaga og fyllumst orku og eftirvæntingu eftir því sem sumarið ber í skauti sér.“

Hvaða hluti páskanna er í mestu uppáhaldi hjá þér?

„Dramatíkin í atburðum kyrruviku og páska höfðar mjög sterkt til mín og það eru forréttindi að fá að lifa sig inn í þá í gegnum helgihaldið. Eftirvæntingin sem fólkið bar í brjósti þegar það fagnaði Jesú á pálmasunnudegi og hve fljótt veður geta skipast í lofti sem sýnir sig í svikunum á skírdagskvöld og múgæsingnum sem tók völdin á föstudaginn langa þegar hann þjáðist og dó. Vinir og vinkonur Jesú vissu ekki hverju þau áttu að trúa er þau fengu að upplifa undur lífsins þegar það sem þau vildu að væri en væntu ekki varð að raunveruleika og þau uppgötva það undur að lífið er sterkari en dauðinn.“

Er einhver boðskapur þér ofarlega í huga í ár?

„Á þessum páskum er friður mér efst í huga. Við viljum öll finna frið í hjarta og frið í nánum tengslum og öll biðjum við og vonum að friður með réttlæti geti orðið á átakasvæðum heimsins.“

Gerir vel við sig í mat og drykk

Nærðu að njóta páskanna með þínum nánustu í annríkinu?

„Ekki spurning og þetta er yndislegur tími. Við skreytum heimilið með heimamáluðum páskaeggjum, blómum og greinum. Eldum góðan mat, njótum útivistar og borðum eins mikið súkkulaði og við getum í okkur látið!“

Hvað finnst þér ómissandi að borða um páskana?

„Hin síðari ár skálum við í freyðivíni eftir helgihald dagsins í þann mund er við byrjum að undirbúa páskamáltíðina. Mér finnst ómissandi að elda lambalæri á páskadag og borða afganginn af veisluföngum morgunsins. Ég fæ ekki endilega stórt páskaegg, en alltaf að minnsta kosti eitt lítið af því að mig langar til að fá málsháttinn. Hins vegar kaupi ég uppáhaldssúkkulaðið mitt enda hef ég á páskadag fastað á súkkulaði og sælgæti frá því á öskudag svo gleðin er enn meiri. Ég er þakklát fyrir að geta tjáð gleði þessa dags með því að geta gert vel við okkur í mat og drykk og samveru.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda