„Ég ætla að verða meira Beyoncé“

Tónlistarmaðurinn Beyoncé og Valgeir Magnússon viðskipta-og hagfræðingur.
Tónlistarmaðurinn Beyoncé og Valgeir Magnússon viðskipta-og hagfræðingur. Samsett mynd

Valgeir Magnússon viðskipta-og hagfræðingur skrifar um Beyoncé og hvernig hún tók málin í sínar hendur til að breyta heiminum í nýjasta pistli sínum á Smartlandi. 

Ég var að hlusta á nýjustu plötu Beyoncé, Cowboy Carter. Platan er frábær en hún er líka mikil ádeila á kántrítónlist og hvernig slík tónlist hefur í gegnum tíðina jaðarsett svartar konur sérstaklega. Beyoncé er frá Texas og ólst upp við þessa jaðarsetningu frá tónlistarsenunni. En hvað gerði hún? Hún bjó til geggjaða kántríplötu og er að breyta heiminum og breyta sögunni. Hún tekur samtalið á leikvelli þeirra sem þurfa að heyra skilaboðin.

Beyoncé gaf nýlega út plötuna Cowboy Carter.
Beyoncé gaf nýlega út plötuna Cowboy Carter. Amy Sussman/AFP

Ég fór þá að velta fyrir mér hvað hefur virkað og hvað ekki þegar við viljum breyta heiminum. Ein flottasta breyting sem hefur orðið á stöðu jaðarsetts hóps varð fyrir tilstuðlan gleðigöngunnar. Samkynhneigðir um allan heim komu út, gengu saman og gerðu það í gleði og fengu fólk með sér. Stóðu saman í gleðinni og nú hefur dæmið snúist við víðast hvar.

Konur höfðu á undan gert svipaða hluti með göngum, samstöðu og rauðum sokkum. Tónlistarsköpun og umræðu. Þetta náði í gegn og heimurinn breyttist. Flestir áttuðu sig. Sumstaðar hratt og sumstaðar hægt. Sumstaðar snérust kúgandi karlar til varna til að halda konum niðri en á flestum stöðum breyttust hlutirnir. Fyrir ungt fólk í dag er óhugsandi að hugsa sér hvernig hlutirnir voru fyrir aðeins 50 árum síðan þegar þessi bylting hófst. Ég man enn hvað mörgum þótti það ómögulegt að einstæð móðir yrði forseti á Íslandi árið 1980.

Svo höfum við ótal dæmi um það þegar við reynum að þvinga fólk til að skipta um skoðun með sniðgöngu eða ofbeldi. Það virðist sjaldan virka vel eða allavega hægar og verr. Nýlenduveldin reyndu það um allan heim í nokkur hundruð ár. Það hefur skilið eftir sig djúp sár. Flest vandamál heimsins í dag hvað varðar Mið-Austurlönd má rekja til þess tíma þegar Evrópa og Bandaríkin skiptu á milli sín gæðum þess heimshluta og þjöppuðu saman um leið íbúum þar til að líta á Vesturveldin sem kúgara.

Sniðganga hefur verið nokkuð notuð sem vopn, með viðskiptabönnum, útilokun frá íþróttakeppnum og fleiru. Rússar hafa verið í banni núna í nokkur ár. Það er skiljanlegt að við í Evrópu viljum ekki vinna með þjóð sem hagar sér eins og Rússar. En er það þjóðin sem hagar sér með þessum hætti eða eru það stjórnvöld? Erum við að grafa undan stjórnvöldum landsins með því að neita að eiga samskipti við Rússland? Eða erum við að þjappa Rússum saman? Erum við að hjálpa stjórnvöldum að sýna fram á að hinn vestræni heimur sé á móti Rússum?

Ég held að allir sem þekki mig viti hvar ég stend varðandi innrás Rússa í Úkraínu og þau verk sem undirstrika það.

Það sama á við um Ísrael. Ef við lokum á samtalið. Þá gerist bara eitt. Samtal helst áfram án okkar og án þess að rödd okkar heyrist og þá er einni röddinni færra sem talar fyrir mannúð. Einni rödd færra sem vill gera heiminn betri.

Þannig virkum við sem manneskjur. Ef við upplifum að það sé ráðist á okkur þá hugsum við ekki um það hvernig við getum orðið eins og sá sem ræðst á okkur vill að við verðum. Nei, við þjöppum okkur saman og hötum í sameiningu. Það er einmitt límið sem við færum stjórnvöldum í löndum sem beitt eru sniðgöngu. Þar þjappast allir saman gegn umheiminum og við lengjum í kúguninni.

Ég skil reiðina gagnvart þeim sem beita ofbeldi. En við þurfum að muna það að þegar t.d. stjórnvöld beita ofbeldi þá eru ekki endilega allir íbúar þess lands sammála því. En ef við sniðgöngum heila þjóð í stað þess að eiga samtal við þau þá sameinum við þau öll og það gæti tekið langan tíma að ná saman aftur.

Það hefði verið auðvelt fyrir Beyoncé að hata kántrí og neita að koma fram þar sem kántrílistamenn koma fram. En hún ákvað að gera akkúrat öfugt og breyta kántrí til framtíðar.

Ef við verðum öll aðeins meira Beyoncé þá verður heimurinn betri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda