Dansari sem sneri sér að myndlist

Jói Björgvins heldur sína fyrstu einkasýningu sem heitir
Jói Björgvins heldur sína fyrstu einkasýningu sem heitir "No Expectations". Ljósmynd/Aðsend

Jói Björgvins er listamaður sem á að baki óvenjulega sögu. Hann er í grunninn dansari en hann átti farsælan feril með Íslenska dansflokknum auk þess sem hann dansaði og samdi dansverk í Svíþjóð, Finnlandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Myndlistin hafði hins vegar alltaf blundað í honum og fyrir tíu árum ákvað hann að einbeita sér meira að henni. 

Þann 1. júní opnar Jói sína fyrstu einkasýningu í Port 9 sem ber titilinn „No Expectations“.

Sýndi dansverk víða um heim

„Ég hef í raun málað alla mína ævi í einhverri mynd. Það var svo fyrir tíu árum sem ég hellti mér meira út í það listform aftir áratuga feril sem dansari og danshöfundur. Það hefur alltaf blundað í mér að gefa mig allan myndlistinni, og þá sérstaklega eftir að ég hætti að dansa og semja dansverk,” segir Jói.

Athygli vekur að myndlistin var einnig alltaf áberandi í dansverkum Jóa en hann hefur samið yfir 30 verk sem hafa verið sýnd hérlendis en einnig í New York, London og víða á Norðurlöndunum.

„Myndlistin hefur verið áberandi hluti af dansverkunum mínum sem hafa innihaldið vökva, striga og endað í að skapa myndlistarform á sviðinu. Í London var mér boðið að vinna með einum fremsta listahópi þess tíma sem heitir SHUNT og var staðsettur í London Bridge. Þar setti ég upp ótal mörg verk milli 2006 - 2010 sem öll voru byggð á myndlistarforminu. Ég endaði svo danshöfundaferilinn minn í London á að setja upp opnunarverk fyrir nýtt rými sem Damien Hirst opnaði fyrir unga listamenn. Eftir það fór ég hins vegar alfarið að mála.“

Verk Jóa eru grípandi og tjáningarík.
Verk Jóa eru grípandi og tjáningarík. Ljósmynd/Aðsend

Lærði tæknina á Ítalíu

„Ég er að mestu sjálflærður myndlistarmaður, en fór í gegnum listnám í Stokkhólmi á unglingsaldri. Vorið 2022 sótti ég um Florence Academy of Arts og komst þar inn en þegar ég sá að mikið af náminu var listasaga og anatómía þá hugsaði ég með mér að tíma mínum væri betur varið að læra að olíumálun og teikningu. Ég fann þar meistara í olíumálningu, Apollon, í Flórens sem hafði kennt í öllum bestu skólunum þar en hann tekur að sér nemendur í einkakennslu og leiðbeinir beint á strigann. Ég lærði hjá honum haustið 2022 og málaði þá átta tíma á dag. Þar náði ég fullkomnum tökum á olíunni sem mig hafði alltaf dreymt um að tileinka mér. Þessi kennari kenndi mér svo mikið og breytti í rauninni alveg hvernig ég vinn og minni tækni. Í dag vinn ég bæði með akrýl og olíu.“

Var með of miklar væntingar

Jói segist hafa þurft að takast á við ákveðnar áskoranir eftir að hann ákvað að snúa sér að myndlistinni sem snerust að væntingastjórnun.

„Ég flutti til Spánar árið 2010 þegar ég hafði ákveðið að helga mig myndlistinni. Ég keypti mér striga og akrýl málningu og settist niður og hugsaði með mér að núna ætlaði ég að alltaf mála og búa til ótrúlega falleg málverk. Fljótlega fór mér einfaldlega að leiðast og sá að þetta var ekki að virka. Ég var með mikla pressu á mér og hafði miklar væntingar um að mála óaðfinnanlega fallegar myndir eins og meistararnir gera. Einn daginn tók ég hvíta málningu og málaði fyrir allar myndirnar og labbaði í burtu. En ég snéri mér við og horfði á hvítu strigana. Labbaði svo að þeim og fór að skafa af hvítu málninguna. Þá fór myndin þar undir að koma í ljós, en var svo miklu áhugaverðari. Á því augnabliki rann upp fyrir mér að ég var ekki að mála frá hjartanu, heldur að reyna að gera eitthvað sem allir voru að gera.

Þegar ég fór inn í flæðið, með engar væntingar um útkomuna, þá gerðist eitthvað og ég fór að mála frá einhverjum allt öðrum stað. Það var fyrst þá sem ég kom í gegn sem listamaður. Verkin mín á sýningunni urðu til í þessu flæði sem fylgir mér enn í dag og þaðan kemur nafnið á sýningunni „No Expectations“. Engar væntingar um útkomu heldur frjálst flæði. Sköpunin tekur yfir í sinni hreinustu mynd.“

Jói leitast við að fanga kjarna viðfangsefnisins. „Fólk, dýr og litir veita mér innblástur. Ég tek myndir, og tengi mig svo við viðfangsefnið án væntinga og gef flæðinu öll völd. Þá koma litirnir til mín og ég kafa undir yfirborðið og mála það sem birtist undir húðinni, fjöðrunum eða feldinum. Hið innra kemur í ljós, kannski kjarni viðfangsefnisins eða annað sem þarf að brjótast fram.”

Jói fann sig sem listamaður þegar hann sleppti tökum á …
Jói fann sig sem listamaður þegar hann sleppti tökum á öllum væntingum og gaf sig frelsinu á vald. Ljósmynd/Aðsend

Var kominn í algjöra núvitund

Núvitund er eitthvað sem er Jóa mjög hugleikið. „Þegar ég var í Flórens og málaði átta tíma á dag þá fattaði ég eftir nokkrar vikur að ég var kominn í algjöra núvitund. Ég bara var. Ekkert annað var til nema augnablikið. Það var ótúlega falleg tilfinning og nákvæmlega það sem ég hafði leitað að alla ævi. Í dag, þegar ég sest fyrir framan trönurnar og horfi á strigann þá hverfur allt. Pensillin tekur yfir, litirnir fljóta og tíminn hverfur. Ég finn að ég þarf að skapa á hverjum degi. Það gefur lífinu svo mikinn lit, hleður mig og setur mig í fallegt andlegt form. Streita og áhyggjur hverfa á augabragði.”

Góðir vinir gera kraftaverk

Jói hugar leggur áherslu á tengingu við náttúrna og góða heilsu en hann kennir pílates samhliða listinni. „Það heldur mér heilbrigðum bæði líkamlega og andlega. Ég elska að kenna þessa undursamlegu tækni og stunda pilates daglega. Þá er allt í jafnvægi. Pilates er líka frábært fyrir fyrir listmálara sem oft standa lengi eða sitja í föstum stellingum tímunum saman. Náttúran er minn uppáhaldsstaður og þar reyni ég að dvelja eins oft og ég get. Þaðan fæ ég minn innblástur, fylli á tankinn og elska þögnina. Heyra í fuglum, veðrum eða dvelja í logninu. Ég á hund sem dregur mig út mörgum sinnum á dag og göngutúrar eru allra meina bót. Góðar stundir með góðum vinum gera líka kraftaverk.”

Eitt verka Jóa Björgvins.
Eitt verka Jóa Björgvins. Ljósmynd/Aðsend

Að lifa lífi án væntinga

Aðspurður um það sem hann hefði viljað vita um tvítugt nefnir hann mikilvægi þess að staldra við.

„Að flýta mér hægar og njóta augnabliksins. Lifa lífinu án mikilla væntinga og staldra oftar við. Annars hefur líf mitt verið ansi skemmtilegt og fjölbreytt, ég hef búið mikið erlendis og flutt reglulega á milli staða. Þegar mér fer að leiðast þá bara pakka ég niður og flyt mig um set. Ég reyni að upplifa eins mikið og hægt er í þessu dásamlega lífi.”

Sýningin „No Expectations“ er í Port 9, Veghúsastíg 9 og stendur frá 1 - 23 júní. Hún verður opin þriðjudaga til sunnudaga frá kl 16 - 23.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda