Allt um viðskiptaævintýri Harrys og Meghan

Harry og Meghan vekja alltaf mikla athygli hvert sem þau …
Harry og Meghan vekja alltaf mikla athygli hvert sem þau fara og hvað sem þau gera. AFP

Harry og Meghan hafa átt erfitt með að móta sér stefnu í lífinu eftir að þau sögðu sig frá konunglegum skyldum árið 2020 og fluttu til Bandaríkjanna. Þau hafa reynt fyrir sér á ýmsum sviðum með misjöfnum árangri.

Margir hafa tekið eftir því að þau virðast vera dugleg að tilkynna um verkefni en fylgja þeim svo ekki endilega eftir með mjög markvissum hætti. Ekki enn alla vega.

Hér má sjá yfirlit yfir þeirra helstu ævintýri síðustu missera sem tímaritið People tók saman á dögunum:

Archewell Foundation

Góðgerðasamtökin voru stofnuð í kjölfar þess að þau slitu sig frá konungsfjölskyldunni. Þau hafa náð að safna talsverðum fjármunum til styrktar ýmissa mála. Árið 2021 söfnuðu þau 13 milljónum dollara sem þau koma til með að úthluta jafnt og þétt á komandi árum. Þá söfnuðu þau styrkjum fyrir bólusetningar gegn kóvid og gáfu máltíðir.

Netflix samningurinn

Árið 2020 var tilkynnt um margra ára samning við Netflix. Tveimur árum síðar komu út heimildaþættirnir Harry&Meghan þar sem samband þeirra var í forgrunni. Síðan þá hafa þau gefið út þættina Live to Lead and Heart of Invictus sem náðu ekki sömu hæðum.

Í febrúar á þessu ári var tilkynnt um fleiri verkefni Harry og Meghan fyrir Netflix. „Kvikmynd er í bígerð, sjónvarpsþáttur og fleira,“ sagði Bela Bajaria hjá Netflix.

Framleiðslufyrirtæki Harry og Meghan, Archewell Productions, tilkynntu einnig um gerð tveggja sjónvarpsþátta. Annars vegar þætti um matargerð og garðyrkju sem Meghan mun framleiða og hins vegar þætti um póló íþróttina sem er hugarfóstur Harrys.

Spotify samningurinn

Tveimur mánuðum eftir að þau tilkynntu um Netflix samninginn þá tilkynntu þau um margra ára Spotify samning. Meghan setti á fót hlaðvarpsþátt sem hét Archetypes sem fór í loftið í ágúst 2022. Fyrsta þáttaröðin sló í gegn og komust þættirnir ofarlega á vinsældarlista. Meghan fékk til sín ýmsa fræga gesti

En þættirnir fengu sviplegan endi. Árið 2023 var tilkynnt um að samningnum hafi verið rift en að Meghan ætli að halda ótrauð áfram með þættina á öðrum vettvangi. Það hefur ekkert bólað á þeim áformum.

Clevr Bends

Meghan fjárfesti í fyrirtækinu Clevr Bends sem er lítið fyrirtæki í eigu kvenna sem selur kaffi. Stofnandi fyrirtækisins Hannah Mendoza segir að aðkoma Meghan hafi skipt sköpun fyrir fyrirtækið og það blómstrað.

Ethic samstarf

Ethic er fjármálafyrirtæki sem beinir sjónum sínum að fjárfestingum á sviði umhverfisverndar og félagslegra úrræða. 

Meghan hefur sagt í viðtali að hún hafi heillast af grunngildum fyrirtækisins. Þá hafi hún heillast af heimi fjárfestinga. 

„Fjárfestingar hafa alltaf virst mjög fjarlægur hlutur fyrir manneskju úr mínum heimi. Maður hefur ekki þann lúxus að geta fjárfest. Það hljómar svo fínt. Við Harry höfðum þráð að finna fyrirtæki sem var í samræmi við gildi okkar“.

Lemonada Media 

Eftir að Spotify samningurinn gekk ekki upp þá skrifaði Meghan undir samning við Lemonada Media um hlaðvarpsþætti. Það verður til dæmis hægt að hlusta þar á gömlu Archetypes þættina. Þá tilkynnti Meghan um að hún væri að vinna að nýjum þáttum sem eiga að vera mjög spennandi en meira hefur ekki spurst til þeirra.

American Riviera Orchard

Nýjasta útspil Meghans er American Riviera Orchard sem tilkynnt var um fyrr á árinu og markaði einnig endurkomu Meghan á samfélagsmiðla. Lögð verður áhersla á sölu ýmissa vara á borð við borðbúnað, sultur og matreiðslubækur. 

Í apríl var sagt að merkið færi á fullt með vorinu og ýmsir áhrifavaldar og stórstjörnur fengu sendar sultukrukkur til að vekja athygli á framtakinu en síðan hefur ekkert heyrst meir um ævintýrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda