Heimur Kamillu hrundi þegar litli bróðir hennar lést

Heimur Kamillu Tryggvadóttur hrundi þegar litli bróðir hennar, Daníel Tryggvason, …
Heimur Kamillu Tryggvadóttur hrundi þegar litli bróðir hennar, Daníel Tryggvason, lést. Samsett mynd

Kamilla Tryggvadóttir er 25 ára eiginkona, tveggja barna móðir, ráðstefnustjóri og ung athafnakona í sorgarferli, en þann 22. apríl 2023 umturnaðist líf Kamillu þegar hún fékk símtal um að litli bróðir hennar, Daníel Tryggvason, væri látinn. Hún segir áfallið hafa markað mikil kaflaskipti í lífi sínu sem hafi snúið öllu á hvolf, en í þeirri óbærilegu sorg sem fylgdi missinum kynntist Kamilla nýrri hlið á sjálfri sér.

Kamilla er gift æskuástinni, Nökkva Harðarsyni, en þau kynntust fyrir sjö árum síðan og eiga saman tvær dætur, þær Rökkvu Rut og Margréti Maríu. 

Kamilla og Nökkvi ásamt dætrum sínum tveimur.
Kamilla og Nökkvi ásamt dætrum sínum tveimur.

Ung móðir á krossgötum í lífinu

Að sögn Kamillu hefur hún verið á faraldsfæti frá því hún man eftir sér og alltaf átt auðvelt með að breyta um umhverfi og aðlagast nýjum aðstæðum. 

„Ég á það til að vera hvatvís og hafði til að mynda verið í sambandi með Nökkva í tæpa þrjá mánuði þegar ég ákvað að flytja með honum tímabundið til Ísafjarðar – „nota bene“ þá er ég algjört borgarbarn og hafði varla stigið fæti út fyrir höfuðborgarsvæðið á þessum tíma,“ segir Kamilla.

„Þarna var ég nýorðin 18 ára og byrjuð að búa, rúmum 450 kílómetrum frá fjölskyldu minni og vinum, þetta var því mjög djúp laug en mikið þroskastökk og frábær reynsla. Ég var í fullu námi við Menntaskólann á Ísafirði og vann fullt starf á leikskóla samhliða því. Þar kynntist ég Hjallastefnunni og því frábæra starfi sem er unnið við að styrkja og efla eiginleika hvers einstaklings fyrir sig með jafnrétti fyrir stafni,“ bætir Kamilla við, en hún fer í dag með umsjón með daglegu starfi í frísund við Barnaskólann í Hafnarfirði sem fylgir Hjallastefnunni.

Kamilla tók stórt stökk þegar hún flutti til Ísafjarðar með …
Kamilla tók stórt stökk þegar hún flutti til Ísafjarðar með Nökkva.

Eftir menntaskóla lá leið Kamillu aftur til Reykjavíkur þar sem hún fann fyrir mikilli þörf að uppfylla langþráðan draum sinn um að verða móðir. Þegar Kamilla var 19 ára gömul kom eldri dóttir hennar, Rökkva, í heiminn. 

„Þegar Rökkva fæddist fannst mér ég hafa uppfyllt mínar óskir og væntingar í lífinu. Sléttum 16 mánuðum síðar fæðist yngri dóttir mín, Margrét. Þarna var ég ung móðir samkvæmt samfélagi okkar í dag, átti eftir að ljúka háskólanámi og stóð algjörlega á krossgötum.

Ég fann neista kvikna þegar ég sá nám í miðlun og almannatengslum auglýst þegar ég var heima í fæðingarorlofi með yngri dóttur mína og þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um. Ég dreif mig í að senda inn umsókn og sé ekki eftir því. Þarna kynntist ég ótrúlega fjölbreyttum og hæfileikaríkum hópi, bæði samnemendum og kennurum sem búa yfir mikilli reynslu og eru áberandi í samfélaginu í dag,“ útskýrir Kamilla, en hún útskrifaðist í febrúar með BA-gráðu í miðlun og almannatengslum frá Háskólanum á Bifröst.

Það hafði verið langþráður draumur Kamillu að verða móðir.
Það hafði verið langþráður draumur Kamillu að verða móðir.

Með blæðandi sár á hjartanu og sálinni sem aldrei grær

„Síðan urðu stór kaflaskil í mínu lífi sem snéru öllu á hvolf og heimurinn hrundi. Ég var stödd á ráðstefnu UAK í Hörpu þann 22. apríl 2023 þegar ég fékk símtal í kaffihlénu um að litli bróðir minn, Daníel, væri látinn. Ég hreinlega trúði þessu ekki alveg strax og var í dágóða stund að reyna tala mig til í höfðinu um að þetta væri bara martröð og allt yrði gott á ný. Í augnablikinu gleymdi ég því hvernig átti að opna hurðarhún, sá bara allt í móðu og man í sjálfu sér ekki mikið eftir neinu öðru en að löppunum hafi verið kippt allhressilega undan mér á þessari stundu,“ segir Kamilla.

„Þetta er og verður alltaf stærsti vendipunkturinn í mínu lífi, allt umturnast og þú þarft að ná þér upp og læra að ganga aftur allt upp á nýtt, með blæðandi sár á hjartanu og sálinni sem aldrei grær. Það er í alvörunni engin lygi eða klisja að þú gjörbreytist sem manneskja og tileinkar þér ný gildi og viðhorf eftir að lenda í slíku áfalli. Á þessum tímapunkti var ég stödd á versta stað í lífi mínu og vissi ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga,“ bætir hún við. 

Heimur Kamillu hrundi þegar hún fékk símtal um að litli …
Heimur Kamillu hrundi þegar hún fékk símtal um að litli bróðir hennar, Daníel, væri látinn.

Á þessum tímapunkti var Kamilla með marga bolta á lofti og segist hafa kynnst algjörlega nýrri hlið á sjálfri sér. „Framundan voru misserisvarnir í skólanum sem er stærsti árlegi viðburður skólans og virkilega krefjandi. Ég hafði unnið hörðum höndum fram að þessu í verkefninu og ákvað því að mæta og verja verkefnið þrátt fyrir hrikalega erfiðar aðstæður sem ég var að ganga í gegnum heima.

Þarna kynntist ég alveg nýrri hlið á sjálfri mér, ég var óhrædd við að setja mín mörk, láta vaða og þora að dreyma stórt. Ég sótti um í stjórn UAK, kvöldið fyrir misserisvarnirnar, þar sem ég var þá stödd í undirbúningi með hópnum mínum frábæra upp á Bifröst,“ segir Kamilla. 

Í kjölfar áfallsins kynntist Kamilla nýrri hlið á sjálfri sér.
Í kjölfar áfallsins kynntist Kamilla nýrri hlið á sjálfri sér.

„Hann var minn helsti stuðningsmaður í lífinu“

Kamilla hafði sjálf verið félagsskona í UAK í rúm tvö ár áður en langþráður draumur hennar um að sitja í stjórn rættist. 

„Þetta gerði ég allt fyrir Daníel en hann var minn helsti stuðningsmaður í lífinu og hafði óbilandi trú á mér. Ég kaus að ganga lengra og sjá það sem hann sá. Til að gera langa sögu stutta þá náði ég kjöri og gegndi þar hlutverki ráðstefnustjóra, umkringd einstökum hópi kraftmikilla kvenskörunga sem brenna fyrir jafnrétti og því að valdefla, hvetja og styrkja konur í öruggu umhverfi og skapa tengsl þvert á atvinnugreinar. Stelpurnar sem sitja með mér í stjórn eru magnaðar, ég er með stjörnur í augunum yfir þeim og er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að skipuleggja stjórnarárið og halda viðburði með þeim. Við erum ótrúlega sterkur hópur og góðar í mismunandi hlutum, sem myndar eina sterka heild. Við eigum allar okkar pláss og fáum að skína á því sviði sem við erum góðar í og lyftum hvor annarri upp,“ segir Kamilla.

Daníel ásamt dætrum Kamillu.
Daníel ásamt dætrum Kamillu.

„Ég er sátt við þau verkefni sem mér hafa verið falin, reynsluna sem hefur fylgt því að takast á við þau og fyrir fólkið mitt. Fjölskyldan mín, maðurinn minn og dætur mínar hafa staðið þétt við bakið á mér í gegnum þetta allt saman og eru mínar klappstýrur í lífinu. Án þeirra væri ég ekki á þeim stað sem ég er í dag.

Það hefur sannað sig að lífið er ekki alltaf dans á rósum, en þó alltaf mikilvægt að finna taktinn aftur og halda áfram að dansa þegar á bjátar. Þá skiptir öllu að dansa út frá eigin takti og tónum, finna gott jafnvægi og fylgja eigin hreyfingum – á sínum hraða,“ bætir hún við. 

Kamilla er þakklát fyrir fjölskylduna sína sem hefur staðið þétt …
Kamilla er þakklát fyrir fjölskylduna sína sem hefur staðið þétt við bakið á henni.

Hvað skiptir máli að hafa í huga að þínu mati ef fólk ætlar að ná langt á vinnumarkaði?

„Að vera dugleg, trúa, treysta og fylgja hjartanu öllum stundum. Leyfa hjartanu að ráða en ekki höfðinu – og hvað þá heldur blekkingarheilkenninu (e. imposter syndrome) sem fær okkur til að efast um eigin getu og ágæti og dregur að lokum úr okkur.

Einnig er mikilvægt að fylla ávallt á viskubrunninn og kynna okkur þá hluti sem við ef til vill þekkjum ekki nægilega vel. Við getum alltaf á okkur visku bætt. Það er þroskandi, opnar nýjar dyr og víkkar sjóndeildarhringinn. Við verðum líka að sýna okkur mildi og sætta okkur við að kunna ekki og vita ekki allt. Þá er tækifæri til staðar fyrir að kynna okkur nýja hluti.“

Nýkjörin stjórn UAK.
Nýkjörin stjórn UAK.

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig? Ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já, en ég lærði helling af því. Þarna spilar líklega hugmyndin um „ofurkonuna“ stóran þátt, en ég féll í þá gryfju á tímabili að taka að mér allt of marga bolta í einu í stað þess að velja þá mikilvægustu og halda þeim þá vel á lofti. Sem sagt, að leggja áherslu á gæði umfram magn. Ég braut mig niður fyrir að uppfylla ekki þær ósanngjörnu og óraunhæfu kröfur sem ég bar til mín.

Eftir áfallið mikla, að missa Daníel, þá hefur mér tekist að snúa við blaðinu og hægja talsvert á mér, taka bara eitt skref í einu og hlusta á það sem ég finn innra með mér. Ég er alveg í takt við mig sjálfa í dag og veit hvenær ég þarf að taka mér smá pásu frá öllu og gleyma mér yfir góðri tónlist, lesa góða bók eða prjóna. Það er mín núvitund.

Suma daga er ég full af orku en aðra alls ekki. Og það er bara í fínasta lagi. Þarna er gott jafnvægi og virðing gagnvart mér sjálfri lykillinn. Það er svo mikill hraði í einu og öllu allt um kring, því finnst mér nærandi að leggja símann frá mér, stilla á hljóðstillingu og eiga góðar stundir með fólkinu mínu án alls áreitis. Ég mætti samt kannski vera duglegri að muna eftir að taka símann af hljóðstillingu síðar meir svo hægt sé að ná í mig á einhverjum tímapunkti, en það er svo sem önnur saga.“

Eftir áfallið hefur Kamillu tekist að snúa við blaðinu og …
Eftir áfallið hefur Kamillu tekist að snúa við blaðinu og hægja töluvert á sér.

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Allar þær hugrökku konur sem barist hafa fyrir hönd okkar í gegnum tíðina um allan heim. Við stæðum enn í stað án þeirra. Ég er svo heppin að hafa fullt af framúrskarandi og flottum konum í mínum innsta hring sem ég lít upp til á hverjum degi. Þær hafa allar einhvern eiginleika sem ég tileinka mér og fylgi. Ég hef alltaf verið mjög gömul sál og var mikið með ömmum mínum, Margréti og Birgit Maríu, þegar ég var yngri og vorum við allar miklar vinkonur. Ég gekk til að mynda upp á Hrafnistu úr Laugarnesskóla alla daga með prjónadót og/eða góða bók með mér að heimsækja langömmu Birgit, hlustaði á Villa Vill og átti meira að segja sérmerkt sæti við matarborðið með fólkinu á deildinni, þá um 8 eða 9 ára gömul. Þarna sat sitthvor kynslóðin við sama borðið. Það er dýrmætt að fá svona sterkar fyrirmyndir inn í lífið sem þú lærir af og kemur þeirra gildum og reynslu áfram til næstu kynslóðar. Við amma Margrét töluðum um lífið og veginn tímunum saman og sitja þær stundir fast eftir í minningunni.“

Kamilla ásamt Margréti ömmu sinni.
Kamilla ásamt Margréti ömmu sinni.

„Ömmur mínar eiga alltaf sérstakan stað í hjartanu mínu en við áttum mjög fallegt og náið samband. Þær komu alltaf vel fyrir, voru einlægar og sýndu mér og náunganum alltaf mikla hlýju, sama hvað. Þessi gildi hef ég alltaf reynt að tileinka mér, því uppskeran er mikil. Maður veit aldrei hvað fólk er er að ganga í gegnum eða hvernig því líður, þó svo við þykjumst oft gera það en því er mikilvægt að passa að sýna fólki virðingu, áhuga, hlusta á það og vera til staðar. Átta okkur líka á því að þó okkur langi til að skilja suma hluti, er það oft ekki hægt. Sum fótspor er ekki hægt að stíga í nema hafa gengið í þeim sjálf/ur.“

Kamilla ásamt Birgit Maríu langömmu sinni.
Kamilla ásamt Birgit Maríu langömmu sinni.

Fimm hlutir sem þú hefðir viljað vita um tvítugt?

  1. Frami er ekki bara starfstengdur.
  2. Ferlið er aldrei bara línulaga, það koma sveiflur og þú þarft að læra að bregðast við í allskyns aðstæðum.
  3. Þú ert sterkari en þú heldur.
  4. Þér eru allir vegir færir.
  5. Samanburðargildran hún liggur víða – þú mátt taka þitt pláss rétt eins og allir aðrir. Við eigum öll að fá okkar pláss á því sviði sem okkur dreymir um. Ef þú uppfyllir ekki þær kröfur sem til þarf, þá bætiru við þig þekkingu og reynir aftur.
Þetta eru fimm hlutir sem Kamilla hefði viljað vita um …
Þetta eru fimm hlutir sem Kamilla hefði viljað vita um tvítugt.

Hvernig leggst sumarið í þig?

„Ég er mjög spennt fyrir komandi sumri og hlakka til að eiga góðar stundir með öllu frábæra fólkinu mínu. Það er eitthvað við hækkandi sól og hita, það lifnar yfir öllu einhvern veginn. Mér finnst veturinn samt alltaf næs og get ekki sagt að ég sé að koma beint úr einhverjum vetrardvala – ég er bara þakklát fyrir að fá að upplifa öll þessi tímabil. „Það rignir- það hvessir, en það styttir alltaf upp og lygnir“.“

Kamilla er spennt fyrir sumrinu framundan.
Kamilla er spennt fyrir sumrinu framundan.

Hvað ætlar þú að gera til þess að sumarið verði sem best?

„Lifa á hverjum degi í algjörri núvitund og ró. Það er fullt af spennandi hlutum framundan hjá mér í haust, bæði í leik og starfi, ég ætla því að nota sumarið fyrst og fremst í að njóta og skapa minningar. Ég ætla að ganga inn í sumarið með opinn hug og halda áfram að vera fullkomlega ófullkomin og sjá hvað bíður mín út frá því. Ég geng full tilhlökkunar inn í komandi tíma.“

Kamilla ætlar að nýta sumarið í að skapa góðar minningar …
Kamilla ætlar að nýta sumarið í að skapa góðar minningar með fólkinu sínu.

Það hefur verið nóg um að vera hjá Kamillu, en þann 11. maí síðastliðinn var viðburðurinn UAK í 10 ár - drifkraftur breytinga haldinn þar sem litið var yfir farinn veg síðustu tíu ár og stefnan sett fyrir næstu tíu ár. 

„Afmælisráðstefnan er áfangi sem vert er að fagna með stolti og þakklæti. Við höfum orðið vitni að ótal konum sem hafa tekið sín fyrstu skref í viðskiptalífinu, náð árangri og orðið fyrirmyndir fyrir aðrar konur. Þeirra reynslusögur skipta gríðarlegu máli. Við höfum byggt upp sterkt tengslanet, staðið saman í gegnum áskoranir og tekið þátt í verkefnum sem hafa haft jákvæð áhrif á samfélagið.

En 10 ára afmælið snýst ekki aðeins um að horfa til baka – okkur gefst einnig tækifæri til að horfa til framtíðar og hugsa um hvernig við getum haldið áfram að vaxa sem einstaklingar og samheldinn hópur, þróast og gert enn meira fyrir ungar konur í atvinnulífinu. Við höfum sannað að þegar við stöndum saman, þá er ekkert sem getur hindrað okkur í að ná markmiðum okkar. Saman erum við drifkraftur breytinga,“ segir hún. 

Kamilla stýrði ráðstefnunni UAK í 10 ár - drifkraftur breytinga …
Kamilla stýrði ráðstefnunni UAK í 10 ár - drifkraftur breytinga í Hörpu þan 11. maí síðastliðinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda