„Allir ættu að vera með mikið egó og sjálfstraust“

Útvarpskonan Guðrún Svava Egilsdóttir vill að konur verði duglegri að …
Útvarpskonan Guðrún Svava Egilsdóttir vill að konur verði duglegri að hrósa öðrum konum. Ljósmynd/Aðsend

Útvarpskonan Guðrún Svava Egilsdóttir, betur þekkt sem Gugga í Gúmmíbát, byrjaði nýverið með Gugguhornið, sem er vikulegur liður í útvarpsþættinum Veislan á FM957. Þar tilkynnir hún meðal annars svokallaða „Guggu vikunnar“ og hrósar konum í samfélaginu sem skera sig úr og eru fyrirmyndir. 

Nafnið Gugga í Gúmmíbát byrjaði sem gælinafn í saklausu gríni á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, þar sem Guðrún leyfði húmornum að leika lausum hala. Síðar fór hún að skrifa undir sínu eign nafni sem endaði með stórum fylgjendahópi á samfélagsmiðlunum TikTok og Instagram. 

Guðrún segist aldrei hafa ætlað sér að koma undan huldunafninu Gugga í Gúmmíbát en atburðarrásin hafi komið henni skemmtilega á óvart. Hún skrifar ennþá annað slagið grín inn á X, en í dag deilir hún mestu efni á samfélagsmiðlunum TikTok og Instagram. 

„Ég valdi Gugga í Gúmmíbát út af næturvaktinni því þar segir Pétur Jóhann Sigfússon: „Gugga að smíða geimflaugar og gugga í gúmmíbát“ og vinur minn var alltaf að segja þetta við mig, þess vegna hef ég alltaf verið kölluð Gugga. Twitter var samt bara rugl og ekkert nema húmorinn minn. Þetta er þó að mörgu leyti ég sjálf nema ég ýki kannski suma takta aðeins upp en þetta er bara svo mikið minn persónuleiki,“ segir hún. 

Gugga Vikunnar

Fyrr á þessu ári hóf Guðrún störf í útvarpsþættinum Veislan sem útvarpsmaðurinn Ágúst Beinteinn Árnason, eða Gústi B, hefur haldið úti frá árinu 2022. Hann hefur fengið fólk úr ýmsum áttum með sér í þættina, en að undanförnu hafa tónlistamaðurinn Patrik Snær Atlason og fótboltamaðurinn Adam Pálsson verið í Veislunni. 

Í maí síðastliðnum bættist Guðrún við Veisluna með útvarpslið sinn Gugguhornið. „Við Adam voru kunningjar og hann spurði mig hvort ég væri til í þetta. Honum fannst ég fullkomin í þáttinn til að velja alltaf „Guggu vikunnar“ og ræða svona „guggumál“ eða „stelpumál“. Ég var bara mjög til í að vera með minn eigin lið,“ segir Guðrún. 

Guðrún segist hafa verið orðin þreytt á því að heyra konur rakka hvor aðra niður í samfélaginu. Hana langaði að gera heiminn örlítið betri með því að hrósa konum sem eru miklar fyrirmyndir eða veita konum stuðningi sem hún veit að hafa lent í erfiðum sambandsslitum.

„Ég er alveg að koma inn í mikla strákaorku og þetta getur verið svolítið stressandi umhverfi, en mér finnst það bara alls ekki. Það er alltaf gaman hjá okkur. Maður má ekki leyfa þeim að tala endalaust um okkur stelpur og konur án þess að fá neitt af þessum upplýsingum staðfestar. Þá kem ég og ég reyni að lækka smá í þeim og það er markmiðið mitt fyrir „Gugguhornið“,“ segir Guðrún. 

„Fyrir „Guggu vikunnar“ reyni ég svo að skoða hvað er í gangi. Halla Tómasdóttir var t.d. „Gugga vikunnar“ þegar hún var kjörin forseti Íslands, eitt skiptið valdi ég eina mömmu þegar það var mæðradagur og svo valdi ég eina af Íslandsmeisturum kvenna í körfubolta frá Keflavík. Ef það er ekkert mikið í gangi þá vel ég bara einhverja stelpu sem mér finnst flott og er að gera góða hluti. Stundum getur stelpa líka orðið fyrir valinu ef strákur hefur farið svolítið illa með hana og ég veit af því. Stundum er þetta stelpa sem er nýhætt með einhverjum „lúser“, þá vil ég gera hana að „Guggu vikunnar“. Kannski hélt hann framhjá henni og þá þarf að gefa henni smá hita. Ég hef alveg fengið brjálaða fyrrverandi kærasta í skilaboðin hjá mér og mér finnst það ótrúlega fyndið,“ segir Guðrún.

Nafnið Gugga í gúmmíbát byrjaði sem saklaust grín á samfélagsmiðlinum …
Nafnið Gugga í gúmmíbát byrjaði sem saklaust grín á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter. Ljósmynd/Aðsend

Óvænt samstarf með ClubDub

Frá því Guðrún byrjaði í Veislunni hefur hún einnig tekið þátt í öðrum verkefnum. Nýlega vann hún með tónlistarmönnunum Aroni Kristni Jóhannssyni og Brynjari Bjarkasyni í hljómsveitinni ClubDub. Þeir höfðu óvænt samband við hana og spurðu hvort hún væri til í að vera framan á nýjustu plötu þeirra, Risa tilkynning, sem kom út þann 8. maí síðastliðinn. 

„Aron hringdi í mig á Instagram en ég þekkti hann og Brynjar ekki neitt. Þeir spurðu mig bara hvort ég ætti ekki einhverjar djamm myndir sem mættu fara framan á nýju plötuna þeirra. Þetta er væntanlega geggjuð plata, þeir sendu mér tónlistina og ég var bara geðveikt til í þetta og fannst þetta mjög skemmtilegt,“ segir Guðrún. 

„Ég viðurkenni að ég var alveg í smá sjokki en ég vissi alveg að þetta yrði eiginlega af brjóstunum mínum og mér fannst það bara fyndið. Þau eru samt alvöru og ég fæ þetta frá ömmu minni. Stundum er mér illt í öxlunum en annars er ég bara frekar góð þar sem pabbi er kírópraktor. Mér fannst ekkert skrítið að þeir hafi valið þessa mynd, þetta er djamm mynd og þetta er djamm plata. Þetta eru bara einhverjar skemmtilega myndir sem við vinkonurnar tókum á einhverju „flippi“ í afmæli,“ bætir Guðrún við og hlær. 

Á djamm myndinni eru vinkonurnar Lana Björk Kristinsdóttir, Guðrún Svava …
Á djamm myndinni eru vinkonurnar Lana Björk Kristinsdóttir, Guðrún Svava Egilsdóttir og Ylfa Margrét Ólafsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hefur alltaf haft mikið sjálfstraust

Guðrún segir að hún hafi haft mikið egó og sjálfstraust frá því hún var mjög ung og segir að fólk með alvöru sjálfstraust ýti ekki öðrum niður til að hífa upp sjálft sig. 

„Ég var einu sinni kannski svolítið lítil í mér með þetta en núna er ég bara farin að „ebrace it.“ Ég hef samt alltaf verið með svolítið egó. Mér finnst að allir ættu að vera með egó og mikið sjálfstraust sama hvað. Þetta er bara mitt hugarfar. Maður sér það svo vel að ef stelpur eru að tala aðra niður þá eru þær óöruggar. Þess vegna elska ég liðinn minn þar sem ég fæ að „peppa“ aðrar stelpur. Ef þú ert með gott sjálfstraust þá getur þú hrósað öðrum stelpum án þess að vera bitur,“ segir Guðrún. 

Guðrún stefnir á háskólanám til að þróa sig áfram í …
Guðrún stefnir á háskólanám til að þróa sig áfram í viðskiptum á samfélagsmiðlum. Ljósmynd/Aðsend

Framtíðin á samfélagsmiðlum

Eftir mikinn rússíbana síðustu mánuði langar Guðrúnu að nýta tækifærin sem samfélagsmiðlar hafa gefið henni. Hún hefur nú skráð sig í nám í markaðssetningu á samfélagsmiðlum við Háskólann á Bifröst í haust. 

„Núna er ég einmitt bara að átta mig á því í hvaða átt ég ætla að fara í, hvort sem það verður hlaðvarp eða eitthvað annað. Mig langar bara að gera eitthvað sem ég á ein. Ekki með neinum og ekki hjá neinum öðrum, en ég er ekki alveg ennþá búin að ákveða hvað það mun vera,“ segir Guðrún. 

„Ég sótti um í háskólanum á Bifröst í samfélagsmiðla markaðssetningu í haust. Ég væri til í að vinna meira með samfélagsmiðla og það væri gaman að næla sér í eina gráðu og vinna kannski meira í viðskiptum á samfélagsmiðlum fyrir fyrirtæki. Mig langar bara að vera dugleg að þróa þetta áfram,“ bætir hún við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál