Prentaði út umsóknina og sagði upp vinnunni

Sunna Halla Einarsdóttir er fjármálastjóri Taktikal og KLAK - Icelandic …
Sunna Halla Einarsdóttir er fjármálastjóri Taktikal og KLAK - Icelandic Startups. mbl.is/Árni Sæberg

Sunna Halla Einarsdóttir, fjármálastjóri Taktikal og fjármálastjóri KLAK - Icelandic Startups, á bæði fjölbreyttan starfs- og námsferil að baki sem nýtist henni í frumkvöðla- og nýsköpunargeiranum. 

Sunna Halla hóf störf fyrir um átta árum í frumkvöðla- og nýsköpunargeiranum og þá opnaðist alveg nýr og spennandi heimur fyrir henni. „Að mínu mati er þetta áhugaverðasta og skemmtilegasta vinnuumhverfið til að starfa í. Að fá að vera að vinna með og í kringum einstaklinga sem hafa brennandi áhuga á því að byggja upp eitthvað frá grunni – það er einhver sérstök orka sem leynist hér. Ég er það heppin að starfa sem fjármálastjóri hjá einmitt tveimur fyrirtækjum í nýsköpunarsenunni, annars vegar hjá tæknifyrirtækinu Taktikal sem sérhæfir sig í að umbreyta skjölum í sjálfvirka ferla sem lýkur með undirritun og hins vegar sem fjármálastjóri hjá KLAK - Icelandic Startups þar sem ég er komin hinu megin við borðið í stuðningsumhverfið þar sem við aðstoðum sprotafyrirtæki að hlaupa hraðar allt árið um kring,“ segir Sunna Halla um störfin sín tvö. 

„Á báðum þessum stöðum er ég með fjármálahattinn þar sem ég sé um allt fjármálatengt sem tengist rekstrinum en þegar að maður er í litlu teymi þá ber maður oft marga hatta og því eru bæði störfin mjög fjölbreytt - allt frá viðburðastjórnun, halda fyrirlestra, pósta efni á samfélagsmiðla og vökva blómin. Ég kynntist í raun Taktikal í gegnum þann stuðning sem við veitum hjá KLAK, en Taktikal tók þátt í frumkvöðlakeppninni Gullegginu á sínum tíma þegar það var að fara af stað að byggja upp fyrirtækið svo ég hef fylgst með þeim í nokkur ár og virkilega skemmtilegt að fá að vera hluti af því flotta teymi í dag ásamt því að vera hluti af uppbyggingu íslensks nýsköpunarfyrirtækis.“

Sunna Halla hélt fyrirlestur á vegum KLAK á Gullegginu fyrr …
Sunna Halla hélt fyrirlestur á vegum KLAK á Gullegginu fyrr á þessu ári. Ljósmynd/Eygló Gísladóttir

„Það hafa einnig gefist skemmtileg tækifæri út frá því að starfa í þessari senu en ég hef starfað náið með íslensku vísisjóðunum sem eru fjárfestingasjóðir sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum, en ég stýrði samtökunum Framvís sem eru samtök engla- og vísifjárfesta og síðastliðin 3 ár hef ég einnig verið að kenna í stærsta nýsköpunaráfanga landsins í Háskólanum í Reykjavík. Svo það eru fjölbreytt tækifærin sem liggja í senunni.“

Fór fyrst í hússtjórnarskóla

Sunna Halla útskrifaðist eftir Verzlunarskóla Íslands en í stað þess að fara beint í háskólanám ákvað hún að fara í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað. Þar varði hún einni önn á heimavist og lærði að elda og lærði hannyrðir. 

„Þar tókum við próf í að strauja og þvo ullarpeysur, sauma út, baka og elda og var þetta alveg yndislegur tími. Mamma talaði mikið um að hún hefði farið í slíkan skóla á Ísafirði og þar sem við deilum okkar hannyrðaráhugamáli þá blundaði það alltaf í mér að skella mér. Eftir Hallormsstað langaði mig að vinna aðeins áður en ég héldi áfram í námi og var komin með vinnu sem messi á sama frystitogara og kærastinn minn vann á. Kærastinn minn lenti þó í slysi úti á sjó rétt áður en ég hefði hafið störf þar, svo ég ákvað að fara ekki ein án hans og endaði á að fara að vinna í ferðamálageiranum,“ segir Sunna Halla sem starfaði á hóteli í tíu ár og var aðstoðarhótelstjóri undir það síðasta. Samhliða því starfi kláraði hún BS í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaranám í reikningsskilum og endurskoðun og fór í skiptinám í viðskiptaháskóla í Austurríki.

Um tíma blundaði einnig flugmannsdraumur í Sunnu Höllu. „Ég reyndi einnig aðeins við flugnám á þessu tímabili en fann fljótt að að það var ekki fyrir mig – bara tilhugsunin að vera ein í sólóflugi varð allt í einu hálf ógnvænleg eftir að hafa klárað bóklega hlutann í einkaflugnáminu.“

Sunna Halla er mikil hannyrðakona. Þessa peysu prjónaði hún í …
Sunna Halla er mikil hannyrðakona. Þessa peysu prjónaði hún í bílferðum um landið eitt sumarið. Ljósmynd/Aðsend

Tók áhættu og fékk starfið

Eftir tíu ár í ferðageiranum ákvað Sunna Halla að taka áhættu og taka þátt í Gullegginu, frumkvöðlakeppni KLAK, en þetta var áður en hún hún hóf störf þar. 

„Ég skráði mig í keppnina nokkrum mínútum áður en það átti að lokast fyrir skráningu þar sem systir mín var að ýta á mig og ég man að ég hugsaði að ég ætti svo sannarlega ekki heima þarna í þessum hóp en ákvað að stökkva á þetta samt sem áður og var þetta svo vel út fyrir þægindarammann minn á þessum tíma. Keppninni er stillt upp þannig að topp 10 nýsköpunarhugmyndirnar komast áfram af hópi umsækjenda og var það teymi sem ég var í eitt af þeim,“ segir Sunna Halla. 

„Til þess að gera langa sögu stutta þá sá ég fjármálastjórastöðu auglýsta hjá KLAK og aftur hugsaði að ég tikkaði alls ekki í öll boxin sem voru listuð upp í auglýsingunni en hafði svo mikinn áhuga á þessu umhverfi. Teymið sem vann þar var svo skemmtilegt og mig langaði svo mikið í þetta starf svo ég ákvað að sækja um. Ég man að ég prentaði meira að segja út umsóknina mína og fór með hana á skrifstofu KLAK ásamt kynningarbréfi, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég sagði svo upp vinnunni minni á hótelinu án þess að ég vissi fyrir víst hvort ég myndi verða ráðin til KLAK, hugsaði bara að ég myndi bara taka mér smá frí ef ég yrði ekki ráðin sem endaði sem betur fer í engu fríi heldur fór ég beint í djúpu laugina í skemmtilegasta starf sem ég hef nokkurn tímann verið í.“ 

Sunna Halla segir frumkvöðla- og nýsköpunargeirann einstaklega skemmtilegan.
Sunna Halla segir frumkvöðla- og nýsköpunargeirann einstaklega skemmtilegan. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað hefðir þú viljað vita þegar þú varst tvítug?

„Það að fólk er ekki að spá eins mikið í manni eins og maður heldur, og það var kannski ég sjálf sem var minn harðasti gagnrýnandi en hélt að aðrir væru það. Svo að maður á bara að gera það sem manni finnst skemmtilegt, vera maður sjálfur og vera óhrædd að ögra sjálfum sér með krefjandi verkefnum sem eru út fyrir þægindarammann.“

Nýtt forrit breytti öllu

Það skiptir Sunnu Höllu miklu máli að skipuleggja sig vel enda ólíkt mörgum öðrum er hún ekki bara í einni vinnu heldur tveimur. 

„Þar sem ég er í tveimur vinnum þá skiptir það mig miklu máli að vera með góða yfirsýn yfir þau verkefni sem ég þarf að sinna og gæti ég það ekki án verkefnastjórnartólsins sem ég nota fyrir allt sem ég geri á báðum stöðum og fyrir mín persónulegu verkefni. Ég byrjaði að nota forritið Todoist fyrir nokkrum mánuðum og það hefur breytt öllu fyrir mig. Þar sem ég skipti mér niður á daga hjá Taktikal og KLAK þá enda ég alla daga á að skipuleggja hvaða verkefni ég mun vinna næsta dag og þá þarf ég ekki að taka það með mér heim eftir vinnudaginn. Einu sinni í viku fer ég yfir næstu tvær til þrjár vikur í dagatalinu hjá mér og sé hvaða stóru verkefni ég þarf að klára og skipulegg hvenær ég mun vinna í þeim. Það að hafa náð utan um verkefnin mín svona hefur minnkað stress og sérstaklega það að ég sé ekki að taka allt með mér heim eftir vinnu sem ég var mjög gjörn á að gera. Ég set allt þarna inn í forritið og veit að það mun bíða mín þar fyrir næsta dag fyrir utan það hvað það er góð tilfinning að krossa hluti af listanum og yfirfara þau verkefni sem ég kláraði yfir daginn.“

Björt Baldvinsdóttir (t.v.), Sunna Halla í miðjunni og Tinna Hallbergsdótir …
Björt Baldvinsdóttir (t.v.), Sunna Halla í miðjunni og Tinna Hallbergsdótir (t.h.). Þær eru samstarfsfélagar hjá Taktikal. Myndin var tekin á viðburði Taktikal. Ljósmynd/Eygló Gísladóttir

Er vinnudagurinn átta tímar eða teygist hann fram á kvöld?

„Minn besti fókustími hefur yfirleitt verið seinnipartinn og á kvöldin en ég hef ítrekað í gegnum tíðina verið að vinna langt fram eftir á kvöldin því þá er meiri friður bæði í kringum mig og í hausnum og þar sem ég er oft í allskonar excel-æfingum þá hafa kvöldin oft verið nýtt í slíka vinnu. Ég hef þó markvisst verið að reyna að breyta þessu og hef ég fundið að með því að skipuleggja vikurnar svona fram í tímann þá hefur kvöld- og helgarvinnan minnkað til muna. Ég erfði svo þann eiginleika frá honum pabba sem lýsir sér þannig að ég á það til að vera stundum sein, og er oft og tíðum alltaf sein eitthvert, en hef þó alltaf unnið lengur í hinn endann á móti ef svo ber undir.“

Er alltaf að bæta sig

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég verð að viðurkenna að hún er mögulega ekki sú besta en maður er alltaf að reyna að bæta sig, er það ekki? Ég þarf helst að eiga góðan tíma heima áður en ég fer út annars verður allur dagurinn hálf beyglaður. Ætli ég byrji ekki á klassísku snúsi á morgnana í smá stund og opna svo símann og kíki á miðlana, emailin, verkefnalistann, dagatalið og vinnuskilaboðin á meðan ég er enn uppi í rúmi – ég er að reyna að hætta því en það gengur ekki alveg nægjanlega vel. Ég fer svo beint í sturtu, stórt vatnsglas og vítamín, græja mig fyrir daginn og bruna svo í vinnuna. Ég er ekki mikil morgunverðarkona og við eigum ekki kaffivél svo ég gríp mér bara yfirleitt eitthvað sem er við höndina heima, peru eða gulrót og narta í það fyrir hádegið. Það sem ég myndi vilja bæta við er smá hreyfing – ég hef tekið syrpur þar sem ég mæti í ræktina fyrir vinnu eða hef hjólað í vinnuna á rafmagnshjólinu og finn hvað það er gott fyrir mig. Ég stefni á að dusta rykið af hjólinu eftir veturinn og viðra það aðeins áður en þetta sumar okkar klárast.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já það var tímabil fyrir nokkrum árum þar sem ég var að taka að mér alltof mörg verkefni á sama tíma og var að gera einhver af þeim í fyrsta sinn sem var ákveðin brekka. Á þessu tímabili vann ég flest kvöld og mikið um helgar til að komast yfir þetta og fann að þetta var ekki að gera mér gott og hef markvisst síðan verið að skipuleggja mig þannig að þetta muni ekki gerast aftur, bæði með því að skipuleggja mig betur fram í tímann og byrja á þeim verkefnum sem eru mikilvægust á lista dagsins. “

Hvað gerir þú til þess að hlaða batteríin?

„Sef út, horfi á Netflix með kærastanum, hlusta mikið á hlaðvörp, er úti í náttúrunni, prjóna og allskonar handavinna sem er hálfgerð er hugleiðsla fyrir mér, plús blak að sjálfsögðu.“

Sunna Halla með erindi á sameiginlegum viðburði Taktikal og tveggja …
Sunna Halla með erindi á sameiginlegum viðburði Taktikal og tveggja annara sprotafyrirtækja, 50skills og Data Dwell, á Iceland Innovation Week í fyrra. Ljósmynd/Eygló Gísladóttir

Spilar blak 

Sunna Halla spilar blak af miklum krafti og nýtur hún að gera það þegar hún er ekki í vinnu.

„Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að stunda blak. Ég æfi blak hjá HK á veturna og eru þar æfingar þrisvar í viku, ásamt því að spila strandblak á sumrin. Þetta er sport sem ég elska að hafa fundið bæði vegna þess að félagsskapurinn er svo skemmtilegur, og þetta er hreyfing sem ég gæti eytt mörgum klukkustundum í. Yfirleitt þegar 1,5 tíma æfingar eru að klárast þá vill maður alltaf vera lengur svo ég tali nú ekki um ef það er sól og gott veður þegar maður er í sandinum. Það sem ég dýrka einnig við þetta er að maður hefur ekki svigrúm til að hugsa um neitt annað á meðan svo að maður er svo mikið að kúppla sig út úr öllu þegar maður er að æfa, spila eða keppa. Þetta sport leynir svo mikið á sér, það er svo stórt hér á landi og það eru svo margir flottir strandblaksvellir um allt land.“  

Sunna Halla fær mikið út úr því að æfa blak.
Sunna Halla fær mikið út úr því að æfa blak. Ljósmynd/Einar Sigurþórsson

Hvað er á döfinni?

„Núna er ég að fara að mæta aftur í vinnu eftir að hafa verið á góðu fríi bæði í Slóveníu, Ítalíu og Svíþjóð svo ég hafði hugsað mér að nýta rólegan júlí í að vinna öll þau verkefni á listanum sem hafa setið þar þangað til ég hef tíma, sem er núna. Ég og kærastinn ætlum að taka íbúðina aðeins í gegn á næstu vikum, nokkrar útilegur planaðar og svo er næsta ferðalag til Þýskalands í ágúst þar sem við erum að fara að hitta gamla vini frá skiptinámstímabilinu frá Austurríki. Svo er ég með eitt nýtt stórt og spennandi verkefni sem ég er að vinna í næstu mánuðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál