„Ég var alltaf með smá minnimáttarkennd yfir því að vera ekki með háskólamenntun“

Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Erna Hrund Hermannsdóttir hóf MBAnám í Háskóla Íslands fyrir ári og segir það bestu ákvörðun sem hún hefur tekið. Nú er námið hálfnað og tækifæri hennar á vinnumarkaðinum strax orðin fleiri og sjálfstraustið hefur aukist til muna. Þetta er í fyrsta skiptið sem Erna er í háskólanámi.

„Ég er með stúdentspróf frá Verzlunarskólanum. Svo fór ég ekki í háskóla. Ég lærði förðunarfræði og byrjaði að vinna sem vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni með þá menntun. En síðustu ár hef ég verið að taka diplómur, til dæmis í vörumerkjastjórnun og stafrænni markaðssetningu. Svo ákvað ég að henda mér í MBA-nám og ég fékk undanþágu með að komast inn án grunngráðu frá háskóla út frá reynslu,“ segir Erna Hrund.

Af hverju varð þetta nám fyrir valinu?

„Þegar ég fór að horfa á hvað mig langaði að gera í framtíðinni með minn starfsferil ákvað ég að það væri tími til kominn að sækja mér meiri þekkingu. Svo ég fór og las mér til um alls konar nám og datt niður á MBA-námið í Háskóla Íslands. Ég valdi það því það er á íslensku og mig langaði að dýpka skilninginn á íslensku viðskiptalífi og efla tengsl á íslenska markaðnum. Ég náði að skjóta inn umsókn eftir að umsóknarfrestur var liðinn og þetta gerðist allt mjög hratt. Þetta var óvænt en svo var ég allt í einu komin inn í þetta nám en það var ein besta ákvörðun sem ég hef tekið að demba mér í þetta.“

Erna hefur starfað hjá Ölgerðinni og Danól, dótturfyrirtæki Ölgerðarinnar, síðustu fjórtán ár og segir vinnustaðinn hafa staðið þétt við bakið á henni. „Námið er sett upp þannig að þú átt að geta unnið 100% vinnu meðfram námi. Ég er það heppin að geta verið í þannig vinnu að ég get samtvinnað þetta. Þetta er auðvitað mikið viðskiptatengt og ég hef mikla reynslu í þeim áföngum sem ég hef verið í, mismikla auðvitað en í vinnunni hef ég fundið fyrir fullum stuðningi við mig í náminu. Ölgerðin hefur alltaf verið þannig fyrirtæki að þau vilja að starfsfólk sæki sér þekkingu og það er mikill stuðningur. En svo fær maður að gera raunverkefni tengt því sem ég er að gera í vinnunni og samtvinna það náminu. Svo hef ég fengið að spegla mig í öðrum stjórnendum innan fyrirtækisins, til dæmis þegar við vorum að læra um ársreikninga þá tók ég gott spjall við fjármálastjórann okkar og ég fékk þar svör við ýmsum spurningum,“ segir Erna.

Tvö erfið ár

Tímastjórnun og skipulag hefur verið helsta áskorun Ernu síðan námið hófst. „Við maðurinn minn tókum þá ákvörðun þegar ég fór í námið að þetta yrðu tvö erfið ár og það var mesta áskorunin, fjölskyldan og börnin mín. Ég á tvo stráka úr fyrri sambandi og er með þá viku og viku og það hitti alltaf þannig á að ég var í skólanum þegar þeir voru hjá okkur. Svo maður þurfti að skipuleggja það miklu betur, en við færðum aðeins til og bjuggum til meira svigrúm. Svo að fá pössun, maðurinn minn er pípari og það er mikið að gera hjá honum. En ég held að félagslífið hafi aðeins farið til hliðar, það að hitta vini og vinkonur og fara á æfingu. Ég man ekki hvenær ég fór síðast á æfingu en það fór til hliðar og það var áskorun. En svo einhvern veginn unnum við okkur í gegnum þetta og allt í einu er ég hálfnuð,“ segir Erna og hlær.

Hún segir námið hafa gefið sér miklu meira sjálfstraust. „Ég var alltaf með smá minnimáttarkennd yfir því að vera ekki með háskólamenntun í mínu starfi. Á einu tímabili var ég orðin eini vörumerkjastjórinn í mínu fyrirtæki sem var ekki með háskólagráðu og þessi minnimáttarkennd var alltaf smá prentuð inn í mig. Ég var alltaf með það í höfðinu að ég yrði að byrja á þessu og klára. En svo að ganga þarna inn og sjá hvað ég stend vel, ég vissi mikið um það sem var verið að kenna og hef rosalega mikla reynslu. Það gaf mér rosalega mikið, svona, þú kannt þetta alveg Erna.“

Námið hefur einnig veitt henni betri þekkingu og sjálfstraust til að takast á við erfiðar aðstæður.

„Maður er líka svo oft í eigin heimi í sínu starfi. En nú hef ég mun breiðari þekkingu á því hvað aðrir eru að gera í vinnunni. Ég vissi ekkert endilega hvað framkvæmdastjórinn var að takast á við frá degi til dags en ég skil það betur núna. Maður fær dýpri þekkingu og skilning á því hvernig fyrirtæki og störfin virka, þekkingu á mannauði og hvernig maður setur upp gildi og stefnur fyrirtækisins. Það er þetta sem skiptir miklu máli. Ég tala nú ekki um það að fá svo nýtt fyrirtæki í vinnunni og það kom svolítið í kjölfarið.“

Fékk nýtt starf á dögunum

Námið gaf henni sjálfstraust til að sækjast eftir meiru og eftir fjórtán ár sem vörumerkjastjóri hjá Danól urðu breytingar á. Fyrr í sumar tók hún við sem verkefnastjóri yfir útflutningi á virknidrykknum Collab og sölustjóri Collab á Norðurlöndunum. Hún er spennt fyrir komandi tímum og hefur meiri sjálfstraust í að takast á við þau krefjandi verkefni sem eru framundan.

„Það sem gerist líka þegar fólk fer í svona nám að allt í einu kynnist maður 27 nýjum einstaklingum. Maður á lítið sameiginlegt með þeim í upphafi en svo verða þetta bara bestu vinir þínir sem þú getur leitað til fyrir ráðgjöf. Við erum öll á sömu slóðum, við viljum ná lengra og hvetjum hvert annað áfram. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég upplifi í hóp að það er engin samkeppni. Allir eru með öllum í liði, við lyftum hvort öðru upp og styðjum í gegnum námið. Það er einn af stóru kostunum við námið,“ segir Erna.

„Þetta er ákveðin sjálfsskoðun. Við fáum til dæmis ráðgjöf frá markþjálfa og leiðtogaþjálfun og maður fer að hugsa um hvað manni langi til að gera. Langar mig að verða stjórnandi eða sérfræðingur? Það er hugsanaferlið sem maður fer meðal annars í gegnum. Svo hef ég fengið mikla hvatningu frá kennurum og starfsfólki og það er gaman að upplifa þennan meðbyr.“

Hefurðu kynnst nýjum hlutum um sjálfa þig?

„Já, klárlega. Helst þegar kemur að mannlegum samskiptum. Það er alltaf þessi áskorun, maður er orðinn ákveðið gamall og manni finnst maður ekkert endilega þurfa að kynnast fleirum. En þarna kynnist maður nýjum einstaklingum og fer að vinna með nýju fólki, nýjum týpum sem undir venjulegum kringumstæðum myndi maður ekkert kynnast. Þetta er fólk sem maður ætti enga samleið með þannig. En það hefur kennt mér ótrúlega mikið um hvernig ég geti tæklað erfiðar aðstæður, hverjir mínir helstu kostir eru. Það er svo hollt að gera það í smá vernduðu umhverfi, í skólastofunni. Það að takast á við fólk sem maður er ósammála á hreinskilinn hátt hefur kennt mér mikið. Ég hef lært hvernig ég get hvatt fólk áfram og hvar ég þarf að passa mig í samskiptum, það er mesti lærdómurinn. Að fá að hugsa, ég get þetta alveg, ég get alveg verið góð í mannlegum samskiptum og hef góða leiðtogahæfileika,“ segir Erna og hlær.

Fyrir hvern er námið í þínum augum?

„Fyrir þá sem vilja leiða teymi og leiða fyrirtæki í hvaða geira sem er. Auðvitað er námið voða viðskiptatengt og allt svoleiðis en ég held þú getir speglað þig inn í öll fyrirtæki því öll fyrirtæki eru í grunninn eins sett upp hvort sem það er í einkarekna geiranum eða hjá hinu opinbera. Maður er að læra hvernig maður setur upp kostnaðaráætlanir, markaðsherferðir og mannauðsstjórnun til dæmis, skoðar rannsóknir og getur átt gagnrýnar samræður við samstarfsfólk um niðurstöður kannana. Þetta er svo fjölbreytt. Með mér í hópi eru kennarar, hjúkrunarfræðingar og fólk sem starfar í sjávarútvegi, alls konar fólk. Svo ég held að allir geti speglað sig inn í allt saman. Ég held að flestir ættu að geta fengið eitthvað út úr þessu námi og ekki síst opnar þetta hugann fyrir fleiri tækifærum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál