„Ég er að reyna að læra að hafa ekki of miklar áhyggjur“

Þorgerður Ólafsdóttir myndlistarmaður.
Þorgerður Ólafsdóttir myndlistarmaður. Ljósmynd/Sigga Ella

Þorgerður Ólafsdóttir er listakona sem vakið hefur athygli fyrir athyglisverða nálgun í listinni þar sem samspil hugmynda og efnis eru áberandi. Hún hefur orðið fyrir miklum áhrifum á ferðalögum t.d. til Surtseyjar og fann sig einnig knúna til þess að breyta um takt og gerast landvörður uppi á hálendi.

Á sýningu hennar í Bogasal Þjóðminjasafnsins má til að mynda sjá gólfteppi ofið úr endurnýttu næloni og sýnir jarðfundna plastgripi í vörslu safnsins. Þá má þar einnig sjá smásjármynd af skautuðum ískjarna úr Grímsvötnum. 

Þorgerður lærði myndlist í Glasgow og hefur meðal annars starfað sem formaður Nýlistasafnsins á árunum 2014-2018 og hefur sýnt verk sín víðsvegar á landinu sem og erlendis. 

Lendum í ævintýrum ef við fylgjum innsæinu

Þorgerður nefnir tvær ferðir sem hafa mótað hana sem listamann.

„Ég held að einskær forvitni og áhugi á hlutum sem vekja upp undrun hafi leitt mig áfram. Þegar við ákveðum að hlusta og fylgja innsæinu er hægt að lenda í allskonar ævintýrum og rugli.

Mikilvægustu skrefin í minni vinnu komu til vegna tveggja vettvangsferða og ferðalaga sem í kjölfarið breyttu miklu í minni nálgun og hugsun í myndlistinni. Fyrsta ferðin af þessum toga var fyrir 10 árum, þegar ég fór norður í Mývatnssveit að aðstoða Fornleifastofnun við skráningu jarðfundinna muna. Þar fékk ég í hendurnar lítinn rauðan plastbút sem varð mikill örlagavaldur í minni myndlist og titill sýningarinnar Brot úr framtíð vísar einmitt í þennan fund.“

Dvöl í Surtsey ógleymanleg

„Hitt ferðalagið hafði einnig mikil áhrif á mig og ég er í raun enn að vinna úr því en það var þriggja daga dvöl í Surtsey. Það hafði verið draumur frá því ég var barn að komast þangað og þessi dvöl á eyjunni var ótrúleg.

Ég fór með hópi jarðvísindamanna og gekk um alla eyjuna í einskonar leiðslu, fram á steingerð fótspor í móberginu, tíndi upp allskonar rusl í fjörunni og gekk út endilangann tangann á eyjunni sem er smám saman að hverfa.

Allt sem ég taldi mig vita um tíma og skala snérist við og þessi ferð heldur áfram að vera mikill innblástur. Ég gerði atlögu að því að ná utan um þessa ferð og verkin sem urðu til í bókinni Esseyja/Island Fiction, sem kom út í nóvember í fyrra, á 60 ára gosafmæli Surtseyjar.“

Þorgerður á sýningu sinni í Bogasal Þjóðmynjasafnsins, Brot úr framtíð.
Þorgerður á sýningu sinni í Bogasal Þjóðmynjasafnsins, Brot úr framtíð. Ljósmynd/Sigga Ella

Sjálfsefinn getur verið hamlandi

Þorgerður segir það dýrmætt að fara eigin leiðir og mikilvægt að láta ekki sjálfsefann aftra sér í starfi.

„Ég er mjög heppin og veit að það er dýrmætt að geta farið sínar eigin leiðir og unnið að því sem að þú brennur fyrir. En það felur líka í sér margt annað sem þú þarft að vera tilbúin að takast á við.“

Aðspurð um áskoranir nefnir Þorgerður einna helst sjálfsefann.

„Ætli það sé ekki sjálfsefinn þegar hann dúkkar upp, oftast á lokametrunum með eitthvað verkefni. Ég hef talað um þetta sérstaklega við vini mína í myndlistinni, hvað þetta svikaheilkenni (imposter syndrome) getur verið hamlandi, að þú eigir ekki erindi eða ættir ekki að taka pláss. Svo ranka ég við mér og tek bara ákvörðun um að halda áfram.“

„Við erum öll tengslaverur og listin getur búið yfir þeim eiginleika að virkja tengiþræðina innra með okkur svo við verðum fyrir einhverri upplifun, hálfgerðum töfrum. Þegar best lætur getum við jafnvel öðlast dýpri skilning á okkur sjálfum og veröldinni, sjáum hlutina í nýju ljósi eða verðum bara uppnumin, af fegurð eða einhverju sem erfitt er að koma í orð. Þetta er það sem að myndlistin hefur gefið mér í gegnum tíðina og hún felur ávallt í sér einhverja von. Hvort mér sjálfri takist þetta í mínum verkum er erfitt að segja, en það er gott að eiga sér langtímamarkmið.“

Mikilvægt að ná góðri kvöldstund

Innt eftir því hvernig hún skipuleggji dagana sína segir hún það fara eftir því hvað sé í gangi hverju sinni.

„Ef það eru umsóknarfrestir framundan gengur best að skrifa á morgnana, þegar það birtir til í hausnum við fyrsta kaffibollann. Svo er það vanalega Gríma, hundurinn okkar, sem minnir mig á að það er tímabært að fara út og viðra mig. Þá förum við yfir á vinnustofuna og ég sný mér að efnislegri verkum. Ef að ég er að fara að opna sýningu þá hrekk ég í annan gír og sveimhuginn víkur fyrir ráðskonunni sem skipuleggur alla vikuna frá A-Ö. En seinni hluti dagsins er tileinkaður fjölskyldunni og okkur finnst mikilvægt að ná góðri stund saman yfir kvöldmatnum. Það kemur alveg fyrir að ég þarf að vinna á kvöldin en flestir foreldrar kannast við það.“

„Þegar ég er ekki að störfum þá nýt ég þess að brasa og ferðast með fjölskyldunni minni eða njóta lífsins í sveitinni hjá tengdaforeldrum mínum. Mér og manninum mínum finnst líka gaman að elda saman og reynum að vera dugleg að bjóða í mat, þó að það sé bara í steiktan fisk á mánudegi. Ég reyni oft að lauma inn heimsóknum á söfn eða sýningar um helgar og þá er eitthvað fyrir valinu sem að krakkarnir okkar tengja við og ýtir við ímyndunaraflinu.“

Gerðist landvörður á hálendinu

Þorgerður hefur lært að viðhalda jafnvægi þegar kemur að vinnunni og skipti einu sinni alveg um gír þegar hún gerðist landvörður á hálendinu.

„Ég hef oft leyft verkefnum og vinnu að taka alveg yfir og ýtt öllu öðru til hliðar. En eftir að börnin mín komu til sögunnar hef ég reynt að viðhalda jafnvægi milli vinnu og tíma með fjölskyldunni. Þegar ég ákvað að nú væri tíma mínum lokið hjá Nýlistasafninu, fannst mér frábær hugmynd að láta gamlan draum rætast og gerast landvörður á hálendinu. Þá var nauðsynlegt fyrir mig að skipta aðeins um umhverfi. Ég man eftir einu andartaki í byrjun september þegar ég var á síðustu vaktinni inni í Laka og var að elda kvöldmat, og fattaði að það var engin manneskja í 30km2 radíus við mig. Næsti bær var handan Skaftár og allt var dimmt og kyrrt nema einstaka rop í rjúpu. Ég sæki enn í svona djúpa kyrrð og algjört sambandsleysi en langar vertíðir á fjöllum bíða þar til krakkarnir verða eldri.“

Ekki ósvipað og að hægelda kássu

„Verkin mín eiga sér oft upphaf sem ljósmynd eða einhvers konar skrásetning og fela í sér spurningar eða vangaveltur í bland við smá húmor. Undanfarin ár hef ég leyft mér að dvelja lengur í vinnuferlinu og byggja upp ákveðinn heim þar sem hugmyndirnar geta haldið áfram að þróast og virkjað hver aðra og búið til spennandi samhengi sín á milli. Það tekur oft smá tíma að finna rétta efnið eða þróa framsetningu á einhverri hugmynd þannig að hún fái vængi og geti breitt úr sér. Þetta er ekkert ósvipað því að hægelda kássu (slow cooking). Við Anna Hrund Másdóttir vinkona mín og myndlistakona reynum einmitt að leggja þessa áherslu þegar við höfum kennt saman, svona slow-art stefnu. Gott að leyfa hlutunum að malla aðeins saman.“

Frá sýningu Þorgerðar, Brot úr framtíð sem stendur til 10. …
Frá sýningu Þorgerðar, Brot úr framtíð sem stendur til 10. nóvember 2024. Ljósmynd/Ívar Brynjólfsson

Margt framundan

„Ég og Gunndís Ýr Finnbogadóttir erum að fara að opna sýningu í Gerðarsafni í lok október. Þar sýnum við nýtt myndbandsverk sem byggir á viðtölum við einstaklinga sem hafa ferðast til Surtseyjar í ólíkum erindagjörðum og hvernig upplifun þeirra af eyjunni var.“

„Svo erum við Þóra Pétursdóttir í óða önn að skipuleggja mjög spennandi málþing sem haldið verður dagana 8. – 9. nóvember í Þjóðminjasafninu og markar jafnframt lokapunktinn á Brot úr framtíð. Málþingið ber yfirskriftina Languages of Climate Crisis og það verða 12 þátttakendur sem munu segja frá verkefnum sínum og rannsóknum þessu tengdu. Svo er Hugarflug, árleg rannsóknar ráðstefna Listaháskóla Íslands, að fara af stað um miðjan september og það er alltaf gaman og gefandi að fá innsýn í þau verkefni og listrannsóknir sem eru í gangi hérna heima,“ segir Þorgerður að lokum en sýning hennar í Þjóðminjasafninu stendur til 10. nóvember.

Það sem Þorgerður hefði viljað vita um tvítugt?

  • Ég er að reyna að læra að hafa ekki of miklar áhyggjur eða ofhugsa hlutina eins og ég alltaf gert.
  • Það er mikilvægt að staldra við fallegu andartökin í lífinu, það er svo auðvelt að hlaupa framhjá þeim í amstri dagsins.
  • Ég hef líka komist að því að góðar hugmyndir eru vandfundnar og það þarf ekki að framkvæma allt strax. Ég myndi leggja áherslu á að hlúa að þeim og leyfa þeim að þróast og stækka með þér.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál