Úr skurðstofufötum í slaufublússu

Alma Möller kunni ekki við annað en að taka fram …
Alma Möller kunni ekki við annað en að taka fram eina slaufublússu í tilefni dagsins. Hún uppgötvaði þessar blússur þegar hún var 28 ára og hefur fílað þær síðan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alma Möller landlæknir tekur á móti blaðamanni á miðvikudagsmorgni á slaginu átta í vínrauðri dragt og slaufublússu. Hún er árrisul og skipulögð dama á sjötugsaldri sem berst fyrir heilsu þjóðarinnar. Hún segir að fólk ætti að gera það sem það getur til að viðhalda og bæta eigin heilsu með því að sofa betur, næra sig betur, hreyfa sig í minnst 150 mínútur á viku, drekka minna áfengi og vera í betri félagslegum samskiptum og vísar í rannsóknir því til stuðnings.

„Ég kunni nú ekki við annað en að klæðast slaufublússu fyrst þú varst að koma,“ segir Alma og hlær og fer samtalið um víðan völl tískunnar áður en hið formlega viðtal hefst. Við tölum um Burberry-kápur, gengi á bandaríkjadollara árið 2006 og sameiginlega hrifningu okkar á sænsku dragtarmerki. Landsmenn áttuðu sig á því þegar Alma birtist á skjánum á upplýsingafundum vegna kórónuveirunnar, með Víði Reynissyni og Þórólfi Árnasyni, að þarna væri á ferð klár manneskja með góðan fatasmekk. Alma tekur ekki í mál að tala bara um föt, snið og efni. Heilsan er henni ofarlega í huga.

„Út frá minni menntun og starfi þá veit ég hvað skiptir máli fyrir heilsuna. Lifnaðarhættir okkar, sem við sjálf ráðum yfir, skipta mjög miklu,“ segir Alma.

„Það er best að líta í eigin barm og hugsa um hvað maður geti sjálfur gert. Svefn, hreyfing, næring, geðrækt og að mynda tengsl skiptir máli og einnig að halda sér frá áfengi og tóbaki,“ segir hún.

Hér er Alma í bleikri dragt.
Hér er Alma í bleikri dragt. mbl.is/Karítas

25% landsmanna stunda áhættudrykkju

Erum við sem þjóð farin að drekka of mikið?

„Já, mælingar segja það og þær tölur sem ég hef sýna að við höfum aukið neyslu frá árinu 2010 á meðan mjög mörg lönd í Evrópu eru að fara í hina áttina. Við sjáum í svokölluðum lýðheilsuvísum að 25% landsmanna eru með það sem heitir áhættudrykkja sem þýðir að fólk drekkur of oft eða of mikið í einu. Þetta eru auðvitað sláandi tölur. Svo vitum við að 7% fullorðinna Íslendinga hafa farið í meðferð á Vogi. Áfengi hefur mjög víðtæk áhrif á heilsu. Það er tengt 200 sjúkdómsgreiningum og svo hefur það áhrif á félagslega þætti og samfélagið allt,“ segir Alma.

Ég játa að þegar ég drekk vín þá sef ég illa, vakna klukkan fjögur á nóttunni og get ekki sofnað aftur.

Upplifir þú svona vanlíðan ef þú drekkur?

„Já,“ segir hún og bætir við:

„Ég tala nú ekki um þegar maður kemur ofar í aldri. Þá verður þetta meira áberandi. Það er sérstaklega rauðvínið sem truflar minn svefn. Ég drekk því minna og minna. Það er vitað að áfengi truflar djúpa svefninn,“ segir hún.

Er langt síðan þú uppgötvaðir þetta?

„Já, það eru tíu til fimmtán ár.“

Við hvaða tilefni drekkur þú?

„Mér finnst gaman að fá glas af góðu kampavíni en ekkert endilega alltaf þegar það er í boði.“

Alma segir að það séu bein tengsl á milli áfengisdrykkju og krabbameins.

„Það er alltaf að koma betur í ljós hvað áfengi er mikilvægur áhættuþáttur fyrir krabbameinum. Það er líka búið að sýna fram á að það eru engin örugg mörk þegar kemur að krabbameinum. Það er til mikils að vinna að umgangast áfengi með varúð,“ segir hún.

Slaufublússur Ölmu Möller fengu sitt pláss í fjölmiðlum á meðan …
Slaufublússur Ölmu Möller fengu sitt pláss í fjölmiðlum á meðan kórónuveiran geisaði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lengri svefn skiptir máli

Fyrir nokkrum árum las Alma bókina Hvers vegna sofum við eftir Matthew Walker og segir að það hafi opnað augu sín fyrir því að hún yrði að lengja svefntíma sinn.

„Ég hafði alltaf sofið vel og unnið vaktavinnu sem svæfinga- og gjörgæslulæknir. Ég var kannski að sofa í sex og hálfan tíma en ákvað að lengja svefninn og fann mun á líðan. Það sem skiptir máli varðandi svefn er regla; fara að sofa á sama tíma og vakna á sama tíma, líka um helgar.“

Ertu komin upp í rúm klukkan níu á kvöldin?

„Nei, ég er komin í háttinn um hálfellefu og ég forðast koffín eftir klukkan tvö á daginn. Sumir segja að skjátími trufli svefninn en fólk er auðvitað misviðkvæmt fyrir því. Ég kíki alveg á iPadinn á kvöldin,“ segir Alma og bætir því við að hreyfing sé nauðsynleg fyrir fólk sem vill sofa betur en það megi þó alls ekki hreyfa sig mikið rétt fyrir svefninn.

Alma klæddist vínrauðri dragt þennan miðvikudagsmorgun.
Alma klæddist vínrauðri dragt þennan miðvikudagsmorgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að lyfta lóðum

Alma segir að það sé mælt með því að fullorðnir hreyfi sig í að minnsta kosti 150 mínútur á viku eða í hálftíma á dag.

„Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað vöðvastyrktaræfingar eru mikilvægar, sérstaklega fyrir okkur sem erum komin á efri ár. Ég reyni að lyfta lóðum og tel mig vera að undirbúa efri árin. Ég hef verið reglulega hjá einkaþjálfara til að brjóta æfingarnar upp. Vöðvastyrktaræfingar eldra fólks bæta bæði andlega og líkamlega heilsu og auka vöðvastyrk og jafnvægi. Eldra fólk getur hugsanlega verið lengur í sjálfstæðri búsetu ef það er duglegt að hreyfa sig,“ segir Alma sem hefur gengið mikið í gegnum tíðina.

„Ég hef þurft að breyta um kúrs þar eftir liðskiptaaðgerðir. Ég hef gengið víða, bæði hérlendis og erlendis, og svo á ég tvo hunda. Það er hægt að ganga með þá,“ segir hún og hlær og í ljós kemur að hún hefur í raun gaman af flestri hreyfingu hvort sem það eru hjólreiðar á rafmagnshjóli, sundferðir eða hot yoga-iðkun.

Alma Möller er hér á fundi í ágúst 2021.
Alma Möller er hér á fundi í ágúst 2021. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hefðu þurft að hreyfa sig meira í faraldrinum

Þú ert í streitumiklu starfi. Ertu farin að hreyfa þig meira til að minnka streituna?

„Nei ég get ekki sagt það. Ég er frekar þolin gagnvart streitu. En í covid þegar það voru langir vinnudagar þá gerði ég þau mistök að hreyfa mig minna. Ég setti svefninn í forgang en hreyfði mig ekki nóg. Ég fann hvað það tók langan tíma að komast á rétt skrið aftur. Ég myndi alveg vilja hreyfa mig meira, en ég hef bara í svo mörg horn að líta en það er svo sem ekki afsökun. Maður hefur alltaf tíma fyrir það sem maður setur í forgang.“

Fór á hormóna þegar breytingaskeiðið bankaði upp á

Fyrst við erum farnar að tala um liðskipti í hnjám þá er við hæfi að tala aðeins um breytingaskeiðið. Alma segist ekki vera sérfræðingur í því þótt það hafi ekki farið fram hjá henni þegar það bankaði upp á í hennar lífi.

Fannst þú fyrir djúpum einkennum?

„Já, já, ég gerði það. Það var mest svefnleysi sem ég fann fyrir. Ég þrjóskaðist við í þrjú ár en þá fór ég á hormónameðferð og fann mikinn mun. Ég hef heyrt að margar konur upplifi mikil einkenni og það er margt hægt að gera. Svo þarf maður líka bara að ganga í gegnum þetta að einhverju leyti,“ segir hún.

Blaðamannafundur vegna afléttinga. Alma Möller og Víðir Reynisson.
Blaðamannafundur vegna afléttinga. Alma Möller og Víðir Reynisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsfræg á einni nóttu

Hvað um frægðina? Þegar kórónuveiran skall á má segja að þú hafir orðið landsþekkt á einum degi. Hvernig upplifun var það?

„Ég gerði mér nú ekki grein fyrir því. Við vorum bara í vinnunni alla daga og allt snerist um að afla sér þekkingar og reyna að vera alltaf skrefi á undan. Ég fór lítið út. Svo þegar okkur var sleppt út þarna í maí þá áttaði ég mig á því þegar ókunnugt fólk fór að koma til mín og tala við mig. Það hefur bara verið skemmtilegt og ekkert óþægilegt í kringum það. Ég var ekkert að hugsa um þetta meðan á þessu stóð. Sérstaklega þegar fyrsta bylgjan skall á sem reyndi mest á. Það var skondið að upplifa það,“ segir hún.

Fólk sem hefur áhuga á klæðaburði var spennt fyrir því í hverju Alma Möller yrði þann og þann daginn. Áttaðir þú þig á því að fatastíll þinn hefði áhrif á fólkið í landinu?

„Ekki strax. Ekki fyrr en einhver fór að skrifa um það. Ætli það hafi ekki verið þú,“ segir Alma og bendir á blaðamann og hlær.

„Ég var alveg gáttuð fyrst og skildi ekkert í því að fólk hefði áhuga á þessu. En hvað um það. Ég sagði við manninn minn í gríni: „Loksins kom það sér vel að eiga mikið af fötum.“ Maður var ekki alltaf að þvo,“ segir Alma og hlær og heldur áfram:

„Sumir urðu frekar foj, eins og kvenkyns kollegar mínir í læknastétt, að við værum í þessari miklu vinnu og það væri verið að pæla í því í hvernig fötum maður væri.“

Skiptir það ekki máli? Má ekki tala um það?

„Jú jú, og mörg höfum við áhuga á því. Mér finnst skipta mestu máli að vera í þægilegum fötum úr góðum efnum Ég er í þannig starfi, ég hitti marga og fer víða, að mér finnst skipta máli að vera snyrtileg og hæfilega klædd,“ segir Alma sem upplifði nýja hlið á vinnunni þegar hún varð landlæknir 2018.

„Ég hef verið svæfinga- og gjörgæslulæknir allan minn feril og þá er maður í grænum og hvítum pokafötum. Það er því gaman að geta klætt sig upp á í venjuleg föt í vinnunni,“ segir hún.

Alma Möller.
Alma Möller. Ljósmynd/Almannavarnir

Fann sinn stíl 28 ára

Alma hefur haft svipaðan fatastíl frá því hún var 28 ára.

„Það er til mynd af mér í læknatalinu, þá er ég 28 ára, í slaufublússu og í gulum jakka sem ég á reyndar enn,“ segir hún og sýnir mér jakkann sem hangir á skrifstofunni því hann er ennþá í notkun.

Hvað er það við slaufublússur sem er svona heillandi?

„Það er nú það. Ég er í slaufublússu núna. Mér hefði fundist það svik við þig að vera það ekki,“ segir hún og hlær og reynir að telja blaðamanni trú um að hún eigi fullt af öðrum fötum – ekki bara slaufublússur.

„Mér finnst þetta snyrtilegt innan undir jakka. Mér finnst mjög gott að vera í jakka og þá fer þetta vel innan undir,“ segir hún.

Ef fatastíllinn hefur verið svipaður síðan þú varst 28 ára þá langar mig að vita hvort einhver hafi haft áhrif á fatastílinn þinn í þá daga. Áttirðu einhverjar tískufyrirmyndir?

„Ekki svo ég muni. Það voru kannski einhverjir ungir læknar, aðeins eldri, sem mér fannst vera klæddar við hæfi fyrir vinnuna. Þá var maður í eigin fötum í vinnunni og svo í slopp yfir. Þannig að jú jú, mér dettur alveg í hug fólk þar en ég er nú ekki mjög áhrifagjörn,“ segir hún.

Þú ert í sænskum fötum núna, ekki satt?

„Já, þú hefur spottað það,“ segir hún og glottir út í annað.

Hefur þú tekið ástfóstri við ákveðin fatamerki?

„Góð efni og góð snið verða mikilvægari eftir því sem maður eldist. Þá finnur maður merki sem passar manni. Ég hef engan tíma til að leita mikið að nýjum fatnaði. Ég vil ganga að hlutunum vísum. Ég á alveg merki, til dæmis í buxnadrögtum, sem mér finnst góð og fer til aftur og aftur. Eitt merki sem er búið að vera til lengi. Ég á kannski dragt, slít buxunum og þá kaupi ég nýjar, svo fer jakkinn og þá endurnýja ég hann,“ segir hún og ég tengi enda á sama sænska dragtarhringnum – eða hvað þetta kallast.

Pantar þú föt á netinu?

„Ég á náttúrlega uppáhaldsbúðir sem ég fer í ef mig vantar eitthvað sem þó er nú sjaldnast. Mér finnst flugvellir góðir, til dæmis Kastrup. En ef ég sé eitthvað sem ég þekki þá er hægt að panta það á netinu. Ég er svolítið að því.“

Hvað gerir það fyrir þig að klæða þig fallega?

„Mér finnst það virðing fyrst og fremst við aðra að vera vel til fara. Og svo er ég að sýna sjálfri mér virðingu. Það er nú kannski ekki mikið umfram það. Aðalatriðið finnst mér að föt séu þægileg.“

Mæðgurnar Helena Sigtryggsdóttir og Alma Möller. Hér eru þær eins …
Mæðgurnar Helena Sigtryggsdóttir og Alma Möller. Hér eru þær eins klæddar en þær höfðu ekki samráð um í hverju þær ætluðu að klæðast við þetta tilefni. Ljósmynd/Aðsend

Nauðsynlegt að ræða dauðann

Alma segir að félagsleg tengsl fólk skipti máli fyrir heilsu og að vera í góðum samskiptum við sjálfan sig og aðra.

„Þessi félagslegu tengsl eru svo mikilvæg. Landlæknir Bandaríkjanna hefur bent á, sem er byggt á rannsóknum, að það að vera einangraður, vera einmana og skorta félagsleg tengsl sé jafnslæmt fyrir heilsuna og að reykja 15 sígarettur á dag. Við hjá embættinu höfum verið að tala um fimm leiðir að vellíðan en þær eru einmitt tengsl, virkni og hreyfing, að taka eftir og halda í forvitnina, að halda áfram að læra og prófa eitthvað nýtt og svo að gefa af okkur segir Alma sem segist hafa lært margt af móður sinni heitinni, Helenu Sigtryggsdóttur, sem lést tæplega 101 árs í ágúst.

„Mamma mín var alltaf til í allt, hvort sem það var að fara á tónleika, út að borða eða slíkt. Hún var alltaf jákvæð. Það er mikilvægt að muna að jákvæðni er val. Hún hugsaði vel um sig og lifði þessum heilbrigða lífsstíl, borðaði ekki unninn mat heldur venjulegan heimilismat, svaf vel og hreyfði sig í daglega lífinu. Hún var mjög góð í samskiptum, gríðarlega virk og forvitin um lífið og hún var heima allt til enda,“ segir hún.

Rædduð þið yfirvofandi dauða móður þinnar?

„Já, mamma var búin að gera það í 20 ár,“ segir Alma og bætir því við að móðir hennar hafi haft gaman af því að klæða sig fallega.

„Ef mamma fékk nýja flík þá sagði hún: „Mér endist nú ekki ævin til að slíta þessu.“ Þá sögðum við systur: „Þá erfum við þetta bara!“ Hún fékk krabbamein og það var búið að vera ljóst í nokkra mánuði að þetta væri að verða búið. Hún ræddi það við okkur opinskátt. Þetta liggur fyrir okkur öllum og ég mæli með því að fólk tali opinskátt um dauðann. Við þurfum að vera miklu duglegri að ræða þetta. Mamma óttaðist ekki dauðann og var frekar spennt að fá að vita hvað tæki við,“ segir hún.

Hefur þú fundið fyrir henni eftir að þú kvaddir?

„Nei, ég get nú ekki sagt það. Ekki í nærveru. En ég er oft að fara að beygja til hennar í heimsókn eða hringja í hana.“

Handavinna besta núvitundin

Alma fékk það í vöggugjöf frá móður sinni að hafa áhuga á lífinu. Hún ferðast mikið og hlustar mikið á klassíska tónlist, óperur og allt þar á milli. Svo hefur hún einlægan handavinnuáhuga.

„Handavinna er mín núvitund. Sérstaklega að bródera.“

Hvað ertu að bródera?

„Ég bródera harðangur í milliverk. Ég lærði það í skóla. Það var svo mikil handavinnukennsla á Siglufirði. Ég er með það á listanum og gera stóran dúk í dauða tímanum,“ segir Alma sem saumar líka út í krosssaum milli þess sem hún prjónar af miklum móð. Aðallega þó á tvíburabarnabörn sín. Þá prjónar hún tvennt af öllu.

„Mér finnst gott að prjóna í flugvélum. Barnabörnin mín búa í Danmörku þannig að ég fer svolítið margar helgarferðir þangað,“ segir hún.

Myndi þjóðinni líða betur ef hún sinnti handavinnu í stað þess að læka myndir af öðru fólki á Instagram?

„Ég er nokkuð viss um það. Við eigum að hægja á okkur. Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur orðaði þetta svo vel: „Gerðu færra, gerðu eitt í einu, gerðu það hægar og hafðu lengra bil á milli gjörða.“ Mér finnst líka frábært að gera ekki neitt.“

Hvenær finnst þér best að slæpast?

„Um helgar eða eftir vinnu. Að koma heim og slæpast er mjög gott. Það sem kemur mér á óvart er hvað er hægt að láta tímann líða yfir litlu,“ segir hún og hlær og bætir við:

„Þannig að ég kann það alveg líka.“

Í hvernig fötum ertu þegar þú ert heima að hangsa?

„Ég er bara í einhverju þægilegu. Jogginggöllum og í kjólgopa, Hagkaupsslopp,“ segir hún og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda