„Þetta var tóm karlaveröld á áttunda áratugnum“

Guðný Halldórsdóttir, eða Duna, hlaut heiðursverðlaun Eddunnar árið 2018, fyrir …
Guðný Halldórsdóttir, eða Duna, hlaut heiðursverðlaun Eddunnar árið 2018, fyrir framlag sitt til íslenskrar kvikmyndagerðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kvikmyndaleikstjórinn Guðný Halldórsdóttir á heiðurinn af hinu svokallaða Stuðmannahoppi sem hljómsveitarmeðlimir Stuðmanna tóku svo eftirminnilega í kvikmyndinni Með allt á hreinu (1982). Nokkuð öruggt er að umrætt hopp krefst ákveðinnar tækni og hafi ósjaldan verið reynt í íslenskum partýjum. 

En hver er Guðný?

Guðný á að baki farsælan feril sem kvikmyndagerðarkona. Nýverið kom út bókin Duna - saga kvikmyndagerðarkonu, eftir þær Kristínu Svövu Tómasdóttur, sagnfræðing og rithöfund, og Guðrúnu Elsu Bragadóttur, lektor við kvikmyndalistadeild Listaháskóla Íslands.

Bókin byggir á viðtölum og frásögnum Guðnýjar sjálfrar, eða Dunu eins og hún er kölluð, og gefur góða mynd af ævi hennar og störfum sem kvikmyndagerðarkona og dóttur eins ástsælasta skálds þjóðarinnar, Halldórs Laxness. 

Halldór Kiljan Laxness, faðir Dunu, á blaðamannafundi með Ragnari í …
Halldór Kiljan Laxness, faðir Dunu, á blaðamannafundi með Ragnari í Smára, árið 1976/1977. Ljósmynd/Ólafur K. Magnússon

Ætlaði að verða fornleifafræðingur

Guðný sem árið 2018 hlaut heiðursverðlaun Eddunnar fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar hérlendis, leikstýrði sinni fyrstu kvikmynd, Kristnihaldi undir jökli, árið 1989. Kristnihald undir jökli var gerð eftir samnefndri skáldsögu föður hennar.  

Árin áður hafði hún komið að gerð ýmissa klassískra íslenskra kvikmynda eins og Stellu í orlofi. 

„Ég var í menntaskóla þegar ég fékk sumarvinnu í kvikmynd og þá varð ekki aftur snúið.“ Guðný ætlaði sér alltaf að verða fornleifafræðingur vegna forvitnilegra rústa í Mosfellsdal, þar sem hún er búsett. Hún segir rústirnar allar vera vallgrónar og hugsaði með sér að eitthvað spennandi hlyti að leynast þar undir.

„Systir mín sagði að það væru bara prinsar og prinsessur sem lærðu fornleifafræði, svo ég hætti snarlega við.“ Hún segist þó hafa komist yfir málmleitartæki sem hún taki upp á fögrum dögum og reikar um með tækið við hönd, helst á gömlum áningastöðum.

„Sjaldnast hef ég krafta í að grafa eftir gullinu en það er gott að vita af því í jörðu,“ segir hún kímin.

Duna tekur við heiðursverðlaunum Eddunnar frá Katrínu Jakobsdóttur, fyrrum forsætisráðherra.
Duna tekur við heiðursverðlaunum Eddunnar frá Katrínu Jakobsdóttur, fyrrum forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kvikmyndaáhuginn fæddist í Sviss

Guðný lærði kvikmyndagerð við London International Film Shcool þaðan sem hún útskrifaðist árið 1981.

„Ég bjó í Sviss með foreldrum mínum þegar ég var 17 og 18 ára og fór mikið í bíó. Svissararnir sýndu nær einungis evrópskar kvikmyndir sem kveiktu á kvikmyndaáhuga mínum.“ Eftir stúdentspróf segist Guðný hafa reynt við alls konar vinnur og nám og endaði sem skrifta í sjónvarpinu í nokkur ár. „Sem var góður skóli.“

Síðan fór hún að starfa við lausamennsku í ýmsum kvikmyndum og endaði í Kvikmyndaskólanum í London. Eftir að hún kom heim stofnaði hún Kvikmyndafélagið Umba ásamt nokkrum samstarfskonum.

„Þetta var tóm karlaveröld á áttunda áratugnum, en við létum það ekki á okkur fá og ruddumst áfram, samhentar og komplexalausar.“

Aðspurð segist Guðný ekki vera stoltari af einni mynd frekar en annarri, henni þyki jafn vænt um þær allar. 

Duna við tökur á Ungfrúnni góðu og Húsinu í Flatey.
Duna við tökur á Ungfrúnni góðu og Húsinu í Flatey. Ljósmynd/Aðsend
Brúðkaupsmynd þeirra Dóra og Dunu.
Brúðkaupsmynd þeirra Dóra og Dunu. Ljósmynd/Aðsend

Árin færast yfir

Með tímanum kom Halldór Þorgeirsson, eiginmaður Guðnýjar, inn í félagið sem annar eigandi og saman hafa þau framleitt myndir sem Halldór hefur verið að setja á stafrænt form undanfarin ár. Nýlega lauk hann við Skilaboð til Söndru, fyrstu mynd Umba. 

Síðustu árin hefur Guðný unnið við yfirlestur handrita fyrir Kvikmyndamiðstöð Íslands, en hefur nú hætt því. Hún segist þó taka að sér handritsyfirlestur annað slagið, sér til skemmtunar.

„Nú orðið fer ég heldur rólegar í hlutina en ég gerði. Ég varð sjötug fyrr á árinu og líður akkúrat eins og sjötugri konu. Ekki fimmtugri, ekki áttræðri heldur sjötugri. Ég syndi mikið, geng úti í náttúrunni á hverjum degi og fer í morgunleikfimi útvarpsins, eins og allar sjötugar konur eiga að gera.“

Duna með loðhúfu við tökuvél við tökur á Ungfrúnni góðu …
Duna með loðhúfu við tökuvél við tökur á Ungfrúnni góðu í Flatey. Ljósmynd/Aðsend

Hugmyndin að bókinni

Fyrir tveimur árum nálguðust Kristín Svava og Guðrún Elsa hana Guðnýju með þá hugmynd að skrifa um hana ævisögu.

„Ég er vinnusöm og á bágt með að setjast í helgan stein. Ég finn mér alltaf eitthvað, en leggst niður í hálftíma á dag og dorma eða hugsa. Það var nú ekki á dagskránni að skrifa ævisögu.“

„Ég hef þekkt Kristínu síðan hún var lítil sískrifandi telpa,“ og segist Guðný hafa bráðnað yfir hugmynd þeirra vinkvenna. „Sérstaklega þar sem ég þekki bækur Kristínar Svövu og innræti hennar líka. Það er sumt í þessari sögu minni sem ég hefði aldrei þorað að segja við stálpaðan velskrifandi karlmann.“

Í þessi tvö ár sem bókin var í vinnslu skemmtu þær sér konunglega. 

Við tökur kvikmyndarinnar Kristnihald undir jökli. Mynd af fyrsta skotinu. …
Við tökur kvikmyndarinnar Kristnihald undir jökli. Mynd af fyrsta skotinu. Duna snýr baki í myndavélina með hendur út í loftið. Ljósmynd/Aðsend

Barnabörnin halda uppi stuðinu

Guðný lýsir híbýlum sínum sem svokölluðu Húsasmiðjuhúsi og að margir jafnaldrar hennar, sem fengu spildu úr landi foreldra sinna, hafi byggt sér álíka hús. „Þessi hús hafa staðið sig mjög vel, eru hlý, úr timbri, á einni hæð og ekki myglugjörn.“ Lausnin hafi verið auðveld og ódýr og að þau hafi sjálf getað unnið við byggingu hússins. 

„Við búum hér tvö í heiðarsporðinum, ég og Halldór maðurinn minn til 40 ára, ásamt sprækum hundi.“

Sonur þeirra hjóna, Halldór Laxness Halldórsson eða Dóri DNA, flutti í bæinn fljótlega eftir að hann fór í menntaskóla. Guðný segir þó sveitina hafa togað meira í hann nú upp á síðkastið. En það er nokkuð ljóst að barnabörnin eiga hug hennar og hjarta. 

„Ég er amma þriggja barna og þau halda mestmegnis í mér stuðinu, gleðinni og lífinu.“

Duna á góðri stund með barnabörnunum og gimsteinum sínum að …
Duna á góðri stund með barnabörnunum og gimsteinum sínum að fá sér ís. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda