Eymundir Sveinn Einarsson, endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf, svarar spurningum lesenda Smartlands.
Sæll Eymundur.
Ég geri út lítinn bát til strandveiða á sumrin og hef ekkert verið að borga mér út laun en farið í utanlandsferðir á vegum útgerðarinnar í staðinn. En nú langar mig að láta útgerðina kaupa hjólhýsi fyrir næsta sumar en er eitthvað að velta því fyrir mér hvort að það sé eitthvað á gráu svæði að nota hjólhýsið fyrir fjölskylduna?
Kveðja,
J
Sælir.
Algerlega einstök skattaleg uppsetning er á þessum bissniss, hljómar samt eins og strandveiðin eigi sér stað á Tortola en ekki á Íslandi. Það er eiginlega skemmst frá því að segja að ekkert í ofangreindri spurningu hljómar skynsamlega eða er í samræmi við íslenskan skattveruleika.
Tekjur af atvinnurekstri eru skattskyldar en frá þeim má draga kostnað þeim tengdum sbr. lög og reglugerðir um tekjuskatt. Ég get ekki með nokkru móti séð að utanlandsferðir falli þar undir. Á sama hátt ber þér að reikna þér endurgjald eins og um vinnu þriðja aðila sé að ræða. Hvað varðar hjólhýsið góða á það sama við. Enginn sjáanlegur rekstrarlegur tilgangur en hjólhýsið mætti sjálfsagt vera í eigu útgerðarinnar að því gefnu að full og ótakmörkuð hlunnindi séu reiknuð af því í þágu eigandans og skatti skilað af þeim til samræmis.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.