„Hef nokkuð alvarlegt blæti fyrir nytjamörkuðum“

Kristborg Bóel er flink í höndunum.
Kristborg Bóel er flink í höndunum. Ljósmynd/Aðsend

Kristborg Bóel Steindórsdóttir hefur komið víða við. Hún hefur starfað sem blaðamaður, ritstjóri, dagskrárgerðarmaður, handritshöfundur og verkefnastjóri svo fátt eitt sé nefnt. Kristborg Bóel er einnig afar skapandi listamaður og býr til skemmtilegar myndir, sem margir hverjar kitla hláturtaugarnar, enda finnur hún sniðugar leiðir til að skjóta á ýmis samfélagsleg málefni. 

Nýjasta verk Kristborgar Bóelar er sería af endurunnum kápumyndum úr „rauðu ástarsögunum“ sem voru mjög vinsælar hér á árum áður. Hún fann kassa af slíkum bókum er hún var að tæma heimili móður sinnar heitinnar fyrr á árinu og sér sköpunarvinnuna sem ákveðið afl til að byggja sig upp eftir erfiða tíma. 

„Ég á alltaf rosalega erfitt með að svara spurningunni hvað „ég er“. Langa svarið er að ég er menntaður grunnskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands og náms- og starfsráðgjafi frá Háskóla Íslands. Ég hef þó aldrei kennt í grunnskóla og átta mig ekki alveg á því hvað ég var að spá í varðandi þetta námsval. En, það hefur auðvitað nýst mér helling í lífinu og ég sé alls ekki eftir því að hafa klárað það og albesti bónusinn er að þar eignaðist ég eina af mínum albestu vinkonum. Ég hef lengst af unnið við ritstjórn og blaðamennsku og einnig nokkuð við dagskrárgerð í sjónvarpi. Ég var hluti af framleiðsluteymi True North og HBO við gerð þáttaraðarinnar True Detective, sem var algert ævintýri. Ég er á milli vita akkúrat núna og er bara að henda út netum hér og þar.“

Kristborg er fjögurra barna móðir.
Kristborg er fjögurra barna móðir. Ljósmynd/Aðsend

„Hef svo sem aldrei kallað mig listamann“

Kristborg Bóel hefur alla tíð haft næmt auga fyrir því fallega í umhverfi sínu og alltaf haft mikla þörf til að skapa. 

„Ég hef alltaf verið með frjóan huga en hef svo sem aldrei kallað mig listamann, ekki fyrr en ég þurfti að nefna Instagram-síðuna mína þar sem ég sett inn myndir af verkunum mínum. Mér datt ekkert betra í hug þann daginn en ListborgBóel, sem vissulega er bara nafnið mitt með smá tilvísunartvisti.“

Hefur þú alltaf verið listræn?

„Þegar ég hugsa um það þá hef ég, frá því að ég man eftir mér, haft mikinn áhuga á svokallaðri blandaðri tækni í listaverkum, þar sem notuð eru fleiri en ein tegund efniviðar til að skapa verk, líka kallað „collage“ á ensku. Dæmi um þetta eru verk þar sem kannski eru klipptar út myndir og texti úr tímaritum og raðað skemmtilega saman í einhverja heild. Þá getur málningin, textíl og öðrum efnivið verið bætt við myndina, þannig að listformið er alveg opið. 

Ég man að ég og vinkona mín tókum þetta lengra í æsku og gernýttum alla Freemans- og Case-vörulista sem komu inn um lúguna á heimilum okkar. Við klipptum út hvert einasta snitti og bjuggum til skrautlega karaktera sem við röðuðum saman, já og bara heila veröld fyrir hvern og einn. Við vorum ekkert að vinna með þessa sköpun á blaði, nei nei, gluðuðum þessu bara með kennaratyggjói eða límbandi beint á veggfóðrið, þar sem að lokum var ekki hægt að koma þumlungi fyrir í viðbót.“

Kristborg Bóel er ófeimin við að skjóta á ýmis samfélagsleg …
Kristborg Bóel er ófeimin við að skjóta á ýmis samfélagsleg málefni. Ljósmynd/Aðsend

Hvaðan færðu innblástur fyrir myndirnar þínar og hvað hrífur þig mest í listinni?

„Eftirminnilegasti innblásturinn minn eru bækurnar um Einar Áskel. Þessar miklu andstæður á hverri síðu heilluðu mig, þær samanstóðu af naívískum teikningum á móti ljósmyndum. Ég gat legið yfir þessu tímunum saman, þar sem barnslegu teikningarnar blönduðust mjög skýrum ljósmyndum af til dæmis vefnaði, þar sem hver einasti þráður sást. Ég hreinlega elskaði þessar bækur og geri enn. Síðan þá hef ég alltaf verið hrifin af blandaðri tækni en hef ekkert unnið við myndlist sjálf af einhverju viti. Það hefur þó lengi blundað í mér, en ér er enn að manna mig upp í að kaupa mér risastóran striga og bara láta hann hafa það óþvegið. Ég geri það á nýju ári, finn það bara í beinunum á mér.“

Hvernig byrjaði þetta?

„Upphafið af þessu endurvinnslumyndaævintýri er að ég hef nokkuð alvarlegt blæti fyrir nytjamörkuðum. Það var svo fyrir svona ári að ég stóð mig að því að sogast alltaf að gömlum innrömmuðum myndum af miðaldra konum, sem margar hverjar voru til á hverju heimili hér í denn. Ég tengdi bara svo sterkt við þessar konur sem lágu þarna þöglar og prúðar með einhvern armæðusvip á andlitinu. Ég fór að taka þær með mér heim, eina af annarri og ljá þeim rödd því mér fannt ég algerlega vita hvað þær vildu segja. Alveg óvart varð þetta neon-þema til, en ég bara fann ekkert betra til að mynda stafina. Mér fannst það svo bara passa frábærlega á móti myndunum, smá eins og hjá Einari Áskeli vini mínum, nema þarna voru klúðurslegu límstafirnir sem ég klippti út með eldhússkærunum minn naívismi. Ég skelli svo kögri alls staðar sem ég mögulega get, en ég er mikil köguráhugamanneskja og ef það eru einhver samtök köguáhugafólks hérlendis, þá vil ég endilega fá að ganga til liðs við þau strax.

Kristborg Bóel segir kögur gera allt fallegra.
Kristborg Bóel segir kögur gera allt fallegra. Ljósmynd/Aðsend

Ég hef að öllu leyti verið að vinna með konum í mínum verkum, fyrir utan að mjög svo óvæntur pólitískur andi sótti mig heim nú í aðdraganda kosninga. Hann nýtti ég til þess að gera upp bæði Klaustursmáli og Icehot1 í eitt skipti fyrir öll. En með því er líka minni pólitísku aðkomu lokið og þýðir ekkert að koma að máli við með nokkuð slíkt frekar.“

„Stalst til þess að lesa þessa froðu“

Eins og kom fram hér að ofan þá er Kristborg Bóel nösk að leita uppi gersemar á nytjamörkuðum og gefa gömlum hlutum nýtt hlutverk og líf. Gersemarnar leynast þó víða, en síðastliðið sumar rakst hún á mikinn fjársjóð á heimili móður sinnar.

„Það hefur verið smá áskorun að finna efnivið í myndirnar mínar þar sem framboðið fer bara eftir því hvað er til á nytjamörkuðum hverju sinni. Hver og ein kona er því einstök og hafa þær selst jafnóðum. Í sumar var ég svo að taka til í dótinu hennar mömmu austur á landi þegar ég rak augun í fullan kassa af „rauðu ástarsögunum“. Ekki litlu kiljunum, heldur þessum retró sem gefnar voru út í löngum bunum fyrir hver jól þegar ég var krakki, harðspjaldabækur með lausri kápu, gjarnan eftir Bodil Fossberg eða Barböru Cartland. Mamma mín og amma hámlásu þetta á sínum tíma og skiptust á bókum eftir jólin. Ég man að ég skoðaði kápurnar vel og stalst svo til þess að lesa þessa froðu löngu áður en ég hafði aldur til,“ segir Kristborg Bóel.

Kristborg Bóel hefur sett kápumyndir rauðu ástarsagnanna í nýjan búning.
Kristborg Bóel hefur sett kápumyndir rauðu ástarsagnanna í nýjan búning. Ljósmynd/Aðsend

„Ég sá strax í hendi mér að þarna væri kominn góður efniviður. Ég á erfitt með að lýsa því hvað gerist þegar ég fæ góða hugmynd, en þær koma bara eins og elding í hausinn á mér, smá eins og einhverju sé hvíslað að mér. Yfirleitt hlusta ég á slíkar hugmyndir og bregst við þeim með einhverjum hætti. Eins og með allar þrjár sjónvarpsseríurnar sem ég hef sent frá mér, ég fékk hugmynd, hringdi nokkur símtöl og áður en ég vissi af var ég farin að taka viðtöl og fljótlega eftir það horfði ég á afraksturinn í Sjónvarpi Símans. Ég hef nú oft sagt að mitt nokkuð nýgreinda ADHD sé bæði minn helsti kostur og galli. Ég veð úr einu í annað, en svo er þetta alger ofurkraftur þegar ég finn það sem mig langar til að framkvæma og trúi á.”

Vissirðu strax hvað þú vildir gera við kápumyndirnar?

„Já, ég vissi alveg hvernig mig langaði að vinna myndirnar. Ég pantaði mér pínulítinn prentara frá Amazon, akkúrat tilvalinn til þess að prenta út talblöðrur með vitleysunni sem rennur frá mér. Ég er búin að gera einhverjar tíu týpur og valdi nokkrar af þeim til þess að gera eftirprentanir af fyrir jólin. Þær eru tilvalin gjöf frá vinkonu til vinkonu.”

Ertu ekki að fara yfir strikið með þessu?

„Ég hef alveg fengið spurningar um hvort ég telji að ég sé ekki á gráu svæði með að kynna verkin sem mína list, þar sem þau eru í raun hönnuð af öðrum. Það má vel vera, en allt eru þetta gamlar myndir og bókakápur gefnar út af forlögum sem löngu hafa sungið sitt síðasta. Ég lít því bara frekar á það þannig að ég sé að skapa „græna list“ með því nýta efnivið sem annars hefði ekki öðlast nýtt líf. Eða hvað, kannski er ég bara alger lögbrjótur?”

Eitt af verkum Kristborgar Bóelar.
Eitt af verkum Kristborgar Bóelar. Ljósmynd/Aðsend

„Þó maður sé orðinn fullorðinn þá er mamma alltaf mamma”

Kristborg Bóel segir að árið sem er að líða hafi verið eitt það erfiðasta.

„Þó svo ég hafi nú oft hlaupið á móti vindi gegnum tíðina get ég fullyrt að líðandi ár sé, fyrir svo margra hluta sakir, það al-erfiðasta sem ég hef lifað. Það einhvern veginn röðuðust upp svo mörg þung og fyrirferðamikil atriði á sama tíma og eitt af því var að horfa upp á móður mína missa heilsuna og deyja svo frá okkur í vor. Þó maður sé orðinn fullorðinn þá er mamma alltaf mamma.

Ég sé það best þegar hún er farin hve mikill fasti hún var í lífi mínu og barnanna minna. Þó svo hún hafi búið í öðrum landshluta var hún alltaf bara símtal í burtu með öll góðu ráðin, skemmtilegu sögurnar og alla ástina. Ég stend mig ennþá að því að ætla að hringja í hana þegar vel eða illa gengur og læt það bara stundum eftir mér, þó ekki nema til þess að hlusta á manninn á hinum enda línunnar segja mér að það sé bara enginn einasti notandi með þetta símanúmer,” segir Kristborg Bóel.

Kristborg ásamt börnum sínum og móður.
Kristborg ásamt börnum sínum og móður. Ljósmynd/Aðsend

„Það er líka alveg magnað hvað það er mikið vesen að deyja, eða öllu heldur að vera nánasti aðstandandi þess sem fellur frá. Bara það, eftir að hafa verið með henni nótt og dag síðustu vikuna sem hún lifði og horfa svo á hana fjara út, þá verður maður að vera búinn að rigga upp jarðarför rúmri viku síðar. Það er rosalega bratt og í svo mörg horn að líta, en dagurinn hennar var með öllu frábær, bjartur og fagur eins og hún. Eftir jarðarför tók við endalaus pappírsvinna á pappírsvinnu ofan og sumarið fór svo allt í að ganga frá og tæma húsið þar sem fjölskylda mín hefur búið í rúm 100 ár. Þetta var rosalega erfitt ferli þar sem sorgin helltist yfir mig, en samt var allt svo ljúfsárt. Það er bæði mikill lærdómur og fegurð fólgin í þessum aðstæðum. Ég íhugaði í alvöru á tímabili að stofna útfararþjónustu, fannst ég orðin svo fróð í þessum geira.

Þá dýpkuðu tengsl innan fjölskyldunnar, ég hef til að mynda aldrei varið eins miklum tíma með bræðrum mínum, en þeir eru 11 og 13 árum eldri en ég og hafa alltaf verið samrýmdir, en um leið litið á mig sem litla skrípið í fjölskyldunni. Eftir að hafa farið í gegnum þetta ferðalag saman erum við nánari en nokkru sinni fyrr og fyrir það er ég einstaklega þakklát.”

Aðspurð að því hvort móðir hennar hafi verið mikill áhrifavaldur í sköpun Kristborgar Bóelar í gegnum tíðina segir hún; „Ég hef svo sem aldrei leitt hugann að því. En, ég hef alltaf skrifað mjög mikið og notað þá leið oft þegar mér líður illa. Mamma var skemmtilegasti penni sem ég þekki, orðheppin með eindæmum og mikil sagnaþula. Sjálf hef ég aldrei lært ritlist en hef alltaf haft þetta í mér. Ég á einnig auðvelt með að koma fyrir mig orði og ætli hún hafi ekki verið áhrifavaldur minn, bæði í ræðu og riti. Ég er alltaf með opið skjal í tölvunni minni sem ber bara vinnuheitið „uppistand“ þar sem ég safna sögum úr lífi mínu sem ég ætla einn daginn að fara með á svið, einfaldlega af því að líf miðaldra sjálfstæðra kvenna er einn risastór og fáránlegur farsi. Ætli ég muni ekki tileinka mömmu það, held það sé ekki spurning!”

„Ég veit að mömmusárið verður sérstaklega viðkvæmt”

Kristborg Bóel er mikið jólabarn og hlakkar mikið til að eyða jólahátíðinni í faðmi barnanna sinna. Hún á fjögur börn á aldursbilinu 10 til 28 og býr ásamt yngsta syni sínum í Hafnarfirði. Elstu börnin hennar tvö eru búsett á höfuðborgarsvæðinu og næstyngsti sonur hennar hóf í haust háskólanám á fótboltastyrk í Bandaríkjunum. Kristborg Bóel telur niður í dagana í hann komi heim í jólafrí.

„Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og vil byrja snemma að gera kósí og að sama skapi losa mig við allt draslið, nema ljósin, á milli jóla og nýárs. Það er bara þessi fallegi andi sem er svo sérstakur, þessi innri barnslegi kærleikur sem ég finn fyrir á þessum árstíma. Ég veit að mömmusárið verður sérstaklega viðkvæmt núna á aðventunni, en ég veit líka og finn að hún mamma er með okkur alla daga.

Eins og flestir fráskildir foreldrar er ég með börnin mín önnur hver jól, en sem áður sagði er liðið mitt að mestu orðið svo fullorðið að það ræður sér sjálft. En, ég er svo einstaklega heppin að við ætlum að vera öll saman heima hjá mér á aðfangadagskvöld í ár, ég, börnin mín fjögur, tvær tengdadætur og ég er viss um að mamma verður þar með okkur líka.“

Kristborg Bóel er mikil jólakona og hlakkar til að eyða …
Kristborg Bóel er mikil jólakona og hlakkar til að eyða jólunum með börnum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig eru jólin hjá þér?

„Ég er uppalin austur á landi og held í hefðina og elda rjúpur á aðfangadagskvöld, sem bræður mínir eru vonandi búnir að veiða fyrir mig. Það eru þó ekki allir innan hópsins fyrir villibráð og ég mun finna eitthvað extra fínt með. Það er ótrúlega hagkvæmt að eiga svona mörg og stór börn, en ég hef nú útvistað forrétti og eftirrétti til elstu barnanna, virkja svo týnda soninn frá Bandaríkjunum í aðalréttinn, læt yngsta barnið leggja á borð og geri sjálf ekki handtak. Mér finnst það allavega mjög gott plan.“

Ertu tilbúin að taka á móti nýju ári?

„Ég veit ekki enn hvar ég verð á gamlárskvöld, en alveg 100% einhvers staðar í faðmi barna minna eða vina. Það er bara eitt sem ég veit mun fagna sem aldrei fyrr þegar klukkan slær miðnætti og mun þá bjóða árinu 2024 að hoppa upp í rassgatið á sér og taka allt sitt vesen og öll sín leiðindi með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda