Þegar árin færast yfir er mikilvægt að huga að andlegu og líkamlegu hliðinni. Hægt er að sameina þetta tvennt og yfirleitt þegar hreyfing er stunduð léttist lundin. Hins vegar liggur ekkert endilega í augum uppi hve mikið er í boði af alls konar afþreyingu og námskeiðum, en þegar betur er að gáð er ýmislegt hægt að finna. Líkamsræktarstöðvarnar eru alltaf vinsælar en það er um að gera að líta út fyrir boxið
Bridgesambandið
Innan sambandsins eru starfrækt ýmis félög fyrir bæði byrjendur og lengra komna. Miðvikudagsklúbburinn hittist á samnefndum kvöldum kl. 19:00. Klúbburinn leggur upp úr afslöppuðu og góðu andrúmslofti og tekur sérstaklega vel á móti nýliðum. Á heimasíðu sambandsins er að finna nánari upplýsingar um staðsetningu og starfandi félög.
Stefnumótaforrit Vantar þig félaga? Í dag fer ýmislegt fram í gegnum forrit, þ. á m. að finna sér vin eða vinkonu. Ýmsum stefnumótaforritum er einfaldlega hægt að hlaða niður í símann. Tinder er örugglega hvað þekktast þeirra. Á Tinder er hægt að skilgreina hvaða aldur viðkomandi vill sjá og forritið samstillir einstaklinga m.a. út frá áhugamálum.
Golf
Íþrótt sem sameinar hreyfingu, útiveru og góðan félagsskap. En það er vel hægt að fara einn síns liðs í golf. Sé það gert eru allar líkur á að lenda í holli með öðrum hópi eða einstaklingum. Golfarar eru alla jafna kurteisir og fágaðir og úti á golfvelli stefna allir að sama markmiði, þ.e. að bæta sig og hafa gaman. Þá skiptir getan engu máli vegna forgjafarinnar alræmdu.
Sundlaugarnar
Á vefsíðunni Syndaselur er hægt að kaupa sundnámskeið fyrir fullorðna. Námskeiðin eru ætluð þeim sem eru vatnshræddir eða ósyndir og hægt er að velja um t.d. námskeið þar sem farið er yfir grunnsundtökin eða skriðsundsnámskeið. Námskeiðin eru kennd í Sundhöll Reykjavíkur. Mörg íþróttafélögin starfrækja svokölluð garpasund i hverfislaugunum. Þau námskeið eru einnig ætluð fullorðnum, til að skerpa á sundtökunum og bæta tæknina. Geta skiptir engu máli. Hægt er að hafa samband við laugarnar til að fá upplýsingar um vatnsleikfimi og flot, en það síðarnefnda snýr að hópslökun í lauginni.
Hlaupahópar
Það er eflaust hægt að segja að hvert einasta íþróttafélag í öllum hverfum og bæjum starfræki hlaupahóp. Til að fara í hlaupahóp þarf ekki að vera góður hlaupari. Það má ganga. Það er örugglega alltaf einhver með svipaða getu sem hægt er að hlaupa eða ganga með. Þetta er góð þjálfun og tilvalin leið til hreyfingar og til að bæta úthaldið.
Gönguhópar Það er fátt betra en lífið á fjöllum. Félögin Útivist og Ferðafélag Íslands standa fyrir göngum á fjöll í hópi áhugasamra fjallagarpa, árið um kring. Á heimasíðum félaganna má finna hvaða göngur eru í boði og hvert erfiðleikastigið er. Þá er einnig hægt að skrá sig í gönguhópa með ákveðin þemu sem höfða til mismunandi þarfa og langana einstaklinga. Hjá Ferðafélaginu er t.d. hópur sem heitir Léttfeti sem fer á eitt fjall í mánuði. Skráningar eru hafnar fyrir göngur sem hefjast í janúar 2025. Það er alltaf skemmtilegt að kynnast fólki með svipuð áhugamál.
Matreiðslunámskeið Hvernig væri að læra að elda góðan og framandi mat? Á vef Salt eldhúss er að finna fjölbreytt námskeið um matargerð frá öllum heimshornum. Næstu námskeið eru t.a.m Smáréttir Mið-Austurlanda, Matarveisla frá Marokkó og Franskir bistro-eftirréttir. Hægt er að skrá sig á námskeiðin á heimasíðu Salt eldhúss.
Jóga Jafnvægis- og styrktaræfingar fyrirbyggja beinþynningu. Jóga er æfingar sem innihalda þetta tvennt og meira til. Jóga felur einnig í sér teygjur, slökun og andlega vellíðan. Allar æfingar sem gerðar eru hafa það að markmiði að ná sem mestri slökun í lokin. Jóga er ekki eitthvað eitt heldur er það mjög fjölbreytt þegar betur er að gáð. Á heimasíðu Jógasetursins blasir stundataflan við. Þar er að finna Kundalini-jóga, Jóga fyrir 60+, Yin-jóga og tónheilun, Karlajóga og Jógaflæði. Hjá Akureyri Yoga eru ýmis námskeið í boði og eru þau sem eru á döfinni Rólu-jóga, Slökun og vellíðan og Mjúkt jóganámskeið.
Bændaferðir Hjá Bændaferðum er fjöldinn allur af áhugaverðum ferðum í boði. Eins og segir á heimasíðunni er hægt að ferðast áhyggjulaust, kynnast ólíkri menningu og öðlast fræðslu með íslenskri fararstjórn. Hægt er að skoða og bóka ferðir á heimasíðu Bændaferða, einnig er hægt að hringja eða koma við á skrifstofunni í Síðumúla 2.
Endurmenntun Háskóla Íslands Einn megintilgangur lífsins er að læra. Alltaf er hægt að læra eitthvað nýtt og skiptir aldurinn þar engu máli. Ef telja ætti upp fjöldann allan af námskeiðum sem eru í boði í Endurmenntun þá væri sú upptalning tilefni í sér blað: Atómsprengjur, njósnarar og heimsvaldastríð, Verkfærakista jákvæðrar sálfræði, Gönguleiðir á Tenerife og Skot í bakið – hvað svo?, eru dæmi um námskeið sem eru á döfinni hjá Endurmenntun.
Gönguskíðanámskeið Talandi um alhliða líkamsrækt. Gönguskíði falla þar undir. Á vefsíðunni skidaganga.is er hægt að velja alls kyns gönguskíðanámskeið, bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Að fara á gönguskíði snýst vissulega mikið um tækni svo það er gott að læra hana með góðum kennara. Fyrir forfallna gönguskíðaáhugamenn eru námskeið eins og í hjarta Fljótanna, á Tröllaskaga, þrjá daga í senn. Hægt er að velja úr nokkrum dagsetningum á komandi ári og skrá sig á vefsíðunni Sóti summit. En líkt og segir á heimasíðu Sóti summit voru skíði ákjósanlegasti ferðamáti fyrir heimafólk í Fljótunum fyrir aðeins fáeinum áratugum. Þá er einnig hægt að skrá sig á námskeið á Ísafirði sem teygir sig yfir langa helgi og er að finna allar upplýsingar á isafjordurhotels.is.
Heimilisiðnaðarfélagið „Ein ég sit og sauma“ en það þarf ekkert endilega að sitja einn og sauma. Það er hægt að gera í hóp og skrá sig á námskeið hjá Heimilisiðnaðarfélaginu. Á heimasíðu félagsins er yfirlit yfir námskeiðin sem í boði eru. Hver myndi ekki vilja læra verkefni tengd þjóðbúningasaumi, gera litla freyju í faldbúning til að hengja á jólatré eða leðursaum og töskugerð?
Tölvunámskeið Fyrir þá sem ólust ekki upp við skjáinn getur lífið stundum orðið flóknara þar sem allt snýst um tölvur í dag. Á heimasíðu Promennt er að finna úrval hagnýtra tölvunámskeiða. Í þessari tækniveröld er alltaf hægt að læra eitthvað nýtt eða auka við þekkingu og hæfni bæði á tölvum og í forritum (öppum).
Dans Samkvæmisdans, salsa, sóló-salsa … Hvert er áhugasviðið? Dansskóli Sigurðar Hákonarsonar býður upp á fullorðinsnámskeið í samkvæmisdansi. Það gerir einnig Dansskóli Köru. Ef áhugi er fyrir einhverju suðrænna væri tilvalið að kíkja á Salsastöðina eða Salsa Iceland. Hjá Salsastöðinni er hægt að fara á námskeið sem kennd eru í pörum. En vissulega eru ekkert allir sem vilja dansa í pörum og þá er hægt að fara í sóló-salsa, hópatíma hjá Dansverkstæðinu, þar sem dansarar eru stakir og læra skemmtilegar salsa-dansrútínur.
Bókasöfnin Að vera innan um bækur í afslöppuðu andrúmslofti bókasafnanna er draumur lestrarhestsins. Ætli þar séu einungis einfarar sem ráfa um í leit að góðri bók? Nei, nefnilega ekki. Á bókasöfnunum er starfrækt heilmikið félagsstarf. Á vef Borgarbókasafnsins er að finna lista yfir lestrhringi og spjallhópa á bókasöfnum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið. Þar er tækifæri til að taka lesturinn enn lengra með því að spjalla um fléttu bókarinnar, sögupersónur og niðurlag, í hópi áhugasamra lesenda. Bókasöfnin standa einnig fyrir sýningum og viðburðum og upplýsingar um þá má finna á heimasíðu Borgarbókasafnsins.