Nilli er ólæknandi „rómantíker“ eins og Napóleon

Napóleon lést aðeins fjórum árum áður en fyrsta myndin var …
Napóleon lést aðeins fjórum árum áður en fyrsta myndin var tekin svo ekki er til nein ljósmynd af kappanum, engu að síður fjöldinn allur af málverkum. Nilli er hér til vinstri og Napóleon til hægri, ekkert ósvipaðir en Napóleon virðist hafa verið ögn fíngerðari en Nilli. Samsett mynd/Gunnlöð Jóna/Joseph Chabord

Það liggur vel á Níels Thibaud Girerd þegar blaðamaður nær af honum tali. Níels, eða Nilli eins og hann er kallaður, er að útbúa sér pönnurétt með brauði, eggi og brokkolíi, jafnvel smá mjólkurdropa.

„Þetta er algjör gourmet réttur,“ segir Nilli. 

Nilli, sem útskrifaðist í leiklist frá Listaháskóla Íslands sumarið 2021, hefur haft mörg járn í eldinum. Nýjasta hlutverkið, fyrir utan föðurhlutverkið sem kom með nýfæddri dóttur hans, er að leika sjálfan Napóleon Bónaparte. 

Sýningin, sem er leiksýning og vínsmökkun, verður frumsýnd í lok janúar í Hannesarholti. Hugmyndina fékk leikarinn og leikstjórinn Gunnar Smári Jóhannesson, sem er einnig besti vinur Nilla.

Nilli segist vera undir áhrifum frá Napóleon og sé nú …
Nilli segist vera undir áhrifum frá Napóleon og sé nú byrjaður að skrifa ástarbréf í anda keisarans. Ljósmynd/Kári Sverris

„Þetta verður einleikur og fá gestir að sjá söguna í gegnum augu eins manns. Þetta var svo magnaður maður.“

Gunnar sá einhver líkindi með Nilla og Napóleon, enda Nilli hálfur Íslendingur og hálfur Frakki en Napóleon var fæddur á frönsku eyjunni Korsíku, sem á þeim tíma tilheyrði Ítalíu. 

„Það að vera gestur í eigin landi er hægt að segja að sé það sem sé líkt með okkur.“

Málverk af keisaranum eftir Paul Delaroche.
Málverk af keisaranum eftir Paul Delaroche. Skjáskot/Instagram

Vissu ekki í hvaða gryfju þeir voru að fara 

Þegar Nilli hóf að kynna sér persónuna Napóleon Bónaparte varð hann algjörlega dolfallinn yfir þessum fyrrum hershöfðingja og keisara Frakklands. Hann sá því ekki annan kost í stöðunni en að ferðast til Parísar til að rannsaka slóðir Napóleons.

„Hann bjó til París eins og hún er í dag og alla Evrópu. Það var Napóleon sem kom með húsnúmerakerfið, sléttar tölur og oddatölur. Hann fullkomnaði skólpkerfi borgarinnar. Allar þessar höfuðborgir, Berlín, Vínarborg og fleiri, eru undir áhrifum frá Napóleon. Þetta var ótrúlegur maður.“

Það fer ekki á milli mála að persónan hafi verið yfirgripsmikil og þess virði að rannsaka í þaula.

„Þegar við lögðum af stað í þetta verkefni vissum við ekki í hvaða gryfju við vorum að fara.“

Nilli segist þakklátur fyrir að finna ekki meiri tengingu við …
Nilli segist þakklátur fyrir að finna ekki meiri tengingu við Napóleon því maðurinn hafi verið yfirþyrmandi. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna

Ólæknandi „rómantíker“

Spurður hvort hann finni tengingu við Napóleon svarar Nilli að hann sé þakklátur fyrir að tengjast þessum manni ekki meira en hann geri.

„Hann var náttúrulega yfirþyrmandi maður. Það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar það hugsar um Napóleon er Frakkland,“ segir Nilli. 

„Hann bjó til leikhúsmenningu Frakka eins og við þekkjum hana. Hann fór eins oft og hann gat í leikhús og átti þar vini og elskhuga,“ en elskhugarnir voru á fleiri stöðum að sögn Nilla, eins og í Óperunni.

Þá rennur upp fyrir honum ein sterk tenging við keisarann. „Við erum reyndar báðir ólæknandi „rómantíkerar“. Ég elska „rómans“ og hann gerði það svo sannarlega líka.“

Móðir Napóleons, Letizia Bónaparte, en enginn löðrungur eins og hennar …
Móðir Napóleons, Letizia Bónaparte, en enginn löðrungur eins og hennar hefur framleitt jafn marga konunga í Evrópu. Skjáskot/Instagram

Nilli segir blaðamanni frá því að Napóleon hafi skrifað fjörutíu þúsund bréf á ævi sinni og að miklu leyti hafi þau verið ástarbréf. „Bréfin eru magnþrungin, hann ávarpaði til dæmis píku konunnar sinnar litla svarta skóginn í einu bréfanna,“ segir Nilli.

„Ef þú lest bréfin þá sérðu að þetta var sjarmamaður par exelence, sem naut lífsins, óhræddur en á sama tíma skelkaður.“

Af öllum konunum sem Napóleon var með segir Nilli hann alltaf hafa elskað Joséfine mest af öllum og að það hafi verið gagnkvæmt. Nafn hennar var síðasta orðið sem Napóleon sagði á þessari jörð.

Eftir að Nilli kynnti sér persónu keisarans segist hann sjálfur hafa byrjað að skrifa ástarbréf en fengust þó ekki svör við því hvort þau væru í sama dúr og bréf Napóleons.

„Aðal“ konan í lífi Napóleons, Joséphine de Beauharnais. Málverk eftir …
„Aðal“ konan í lífi Napóleons, Joséphine de Beauharnais. Málverk eftir Andrea Appiani. Skjáskot/Instagram

Stórar persónur sem erfitt er að túlka

Eins og fram hefur komið voru konurnar í lífi Napóleons ansi margar, en þær sem hann dýrkaði mest voru móðir hans, Letizia Bónaparte, og fyrri eiginkona hans, Joséphine de Beauharnais.

Napóleon sagði engan löðrung hafa framleitt jafn mikið af konungum í Evrópu eins og löðrungur móður hans.

Eftir að Joséfine og Napóleon skildu keypti hann handa henni paradísarheimtina Château de Malmaison þar sem hún bjó þar til hún lést. Joséfine elskaði rósir og ræktaði yfir tvö hundruð rósir í garðinum sínum. „Hún bjó til terósina, sem var hennar rós.“ 

Í garðinum myndaðist fallegt og tært samband á milli Joséfine og blómanna, að sögn Nilla.  „Kannski leiddist henni?“ hugleiðir hann upphátt.

Málverk af Joséphine eftir Firmin Massot. Nilli segist sjá ákveðna …
Málverk af Joséphine eftir Firmin Massot. Nilli segist sjá ákveðna líkingu með Joséphine og Díönu prinsessu. Skjáskot/Instagram

Nilla hefur fundist ákveðin líking milli Joséfine og Díönu prinsessu, eitthvað sem hann getur ekki útskýrt í þaula. „Það var einhver leiði í lífinu og sorg, að því leyti að vera ekki fullnægð í lífinu.“

Joséfine var fædd á eyjunni Martinique í Karíbahafi. Hún ólst upp á sykurakri og var með mikið skemmdar tennur á fullorðinsárum. „Þess vegna brosti hún einungis með vörunum.“ 

Nilli segir að þegar Napóleon sá Joséfine hafi hann litið augum berskjaldaða konu. Í mörgum af bréfum hans kom fram að hann elskaði mest konuna sem brosti aðeins með vörunum. 

„Og kannski var hún að fela eitthvað meira en skemmdar tennur,“ og segir Nilli þessa stóru konu í lífi Napóleons eflaust hafa hulið ýmislegt varðandi líf sitt. „Kannski eins og Díana?“

Eftir að hafa útskýrt fyrir blaðamanni vægi kvennanna í lífi Napóleons segir Nilli: „Það er ekki hægt að leika þær.“ Þess vegna hafi niðurlagið verið að túlka þær í gegnum vínflöskurnar. Áhorfendur fá að túlka persónurnar í gegnum keiminn á vínunum.

„Við veljum vínin út frá því bragði og þeirri lykt sem best lýsir karakter kvennanna.“

Nilli verður með útvarpsþættina Níels og Napóleon á Rás 1 …
Nilli verður með útvarpsþættina Níels og Napóleon á Rás 1 á milli jóla og nýárs og hann mun einnig leika Napóleon sjálfan í einleik sem frumsýndur verður í Hannesarholti í lok janúar. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda