Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem veltir fyrir sér hvort hún þurfi að borga tekjuskatt vegna netverslunar sinnar.
Góðan dag,
Ég er að vinna í að setja upp fyrirtæki/netverslun hér á Íslandi þar sem ég mun bæði selja vörur (aðallega fatnað og aukahluti) innanlands en einnig getur fólk erlendis frá keypt vörur frá mér.
Ég hef reynslu af því að vera með netverslun þar sem ég flyt inn vörur og sel einungis á Íslandi, en hef aldrei selt vörur til annarra landa. Ef ég ákveð að bera allan kostnað (DDP) á þeim vörum sem ég flyt út, hvernig virkar það varðandi virðisaukaskattinn?
Er ég að skila inn VSK á Íslandi miðað við 24% hlutfallið fyrir þær vörur sem viðskiptavinir erlendis frá kaupa, eða á ég að skila inn VSK í þeim löndum sem kaupendur versla frá?
Kveðja,
I
Sæll I
Þetta er tiltölulega einfalt. Velta þín er tvíþætt. Annarsvegar er það 24% virðisaukaskattur ofaná skattverð innlendrar sölu. Hinsvegar ber sala á vörum úr landi ekki virðisaukaskatt sbr. 1.tl 12.gr laga um virðisaukaskatt. Þér er s.s. heimilt að innskatta þin aðföng og á móti skilar þú útskatti af innlendri veltu en erlenda veltan, bæði kostnaður og vörur bera ekki virðisaukaskatt hér á landi. Erlendi aðilinn er síðan skuldfærður eftir atvikum í sínu heimalandi fyrir virðisaukaskatti og aðflutningsgjöldum.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.