Launin ýttu Kötlu út á aðra braut

Katla starfar hjá Smyril Line Cargo.
Katla starfar hjá Smyril Line Cargo. Ljósmynd/Aðsend

„Ég vissi ekkert hvað ég vildi verða,“ segir Katla Snorradóttir, tiltölulega nýútskrifaður sjávarútvegsfræðingur. Hún settist aftur á skólabekk fyrir nokkrum árum og lagði stund á nám í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri eftir að hafa menntað sig sem sjúkraliða og starfað sem slíkur í dágóðan tíma.

Fékk bara nóg

Katla, sem er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, starfaði á sínum yngri árum hjá Vinnslustöðinni þar í bæ. Svo tók annað við.

Hvert lá leið þín eftir þetta?

„Ég fór að vinna á elliheimilum og það leiddi til þess að ég ákvað að sækja mér sjúkraliðamenntun í þeirri von um að geta sinnt eldri borgurunum betur og hækkað aðeins í launum. Ég flutti norður á Akureyri og útskrifaðist sem sjúkraliði og lauk einnig stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum þar árið 2018, þá 29 ára gömul. Þetta var samt skrykkjótt vegferð hjá mér, ég stoppaði stundum upp í þessu námi, skellti mér í annað, lærði til dæmis snyrtifræði hjá Snyrtiakademíunni og ætlaði svo á einum tímapunkti að skrá mig í fatahönnun, án þess að hafa nokkurt vit á tísku. Á þessu má sjá að hugur minn var talsvert á reiki og ég átti eftir að taka eina krappa beygju nokkrum árum síðar.“

Katla skráði sig í bakvarðasveitina og starfaði á Landspítalanum á …
Katla skráði sig í bakvarðasveitina og starfaði á Landspítalanum á hápunkti kórónuveirufaraldursins. Ljósmynd/Aðsend

Nú starfaðir þú sem sjúkraliði, fyrst eftir nám, en þó ekki lengi, hvað varð til þess að þú breyttir um stefnu?

„Það var erfið ákvörðun að hætta í þessu, mér fannst ég vera að gera eitthvert gagn, en eina nóttina í miðju kórónuveirufárinu fékk ég nóg. Ég hafði verið á flakki um heiminn þegar faraldurinn skall á og var hálfpartinn skikkuð heim og vildi leggja mitt af mörkum í þágu þeirra sem veiktust.

Ég skráði mig í bakvarðasveitina, flutti til Reykjavíkur og starfaði á Landspítalanum næsta eina og hálfa árið. Þetta voru krefjandi tímar, álagið var mikið, ég vann dag og nótt og gaf allt sem ég gat í starfið. Svo gerðist það eina nóttina, þegar ég var á vakt og það í fullum herklæðum, að ég tók upp launaseðilinn og þá féllust mér eiginlega hendur. Launin fyrir allt stritið voru langt frá því að vera ásættanleg og ég sá að ég gæti ekki látið bjóða mér svona lagað lengur.

Útborgunin var í engu samræmi við það starf sem ég og aðrir í sömu stöðu þurftum að sinna, ég hafði hreinlega ekki áttað mig á því að kjörin væru svona slök, ég hafði látið þetta yfir mig ganga og reynt að gera mitt besta í þennan tíma, mestmegnis út af því að mér þótti vænt um starfið, samstarfsfólkið og sjúklingana. Þarna, þessa nótt, var eins og ég áttaði mig loksins á því að þetta gæti ekki gengið svona til lengdar og settist því niður við tölvuna og skráði mig aftur í nám og það víðsfjarri heilbrigðismálum.“

Leitaði í ræturnar

Hvert skyldi hugur Vestmannaeyingsins hafa leitað næst?

Sjávarútvegurinn stóð henni að sjálfsögðu nærri, komandi frá stærstu verstöð á landinu, og nú innritaði hún sig í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri.

„Ég vissi í langan tíma ekki hvað ég vildi verða og hafði prófað ýmislegt. Nú ákvað ég að leita aftur í ræturnar, taka aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið í fiskinum, ef svo má að orði komast, og 32 ára gömul settist ég aftur á skólabekk.

Katla er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum.
Katla er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var að fara aftur í nám?

„Ég var óörugg í byrjun, hugsaði með mér: „Ég á ekki eftir að falla inn í hópinn, samnemendur mínir væru líklega allir mun yngri en ég. Auk þess drekk ég ekki áfengi en vissi fyrir fram að djamm og svokallaðar vísindaferðir væru hluti af nútímaháskólanámi. Ég óttaðist því að verða dálítið afskipt en annað kom á daginn. Ég var alls ekki elst og það var alveg hægt að taka þátt í öllu félagslífi og ferðalögum án þess að vera undir áhrifum áfengis.“

Hvað var mest krefjandi í náminu?

„Ég er alla jafna mjög sterk í námi, góð á bókina og fljót að læra, en þegar ég fór í stærðfræði, sem er stór hluti af raunvísindanámi, þá fann ég að ég þurfti að leggja aukalega á mig til að rifja upp grunninn, þann sem var lagður á framhaldsskólaárunum. Í rauninni þurfti ég að læra að læra upp á nýtt. Það var heilmikil áskorun, en ég myndi ekki hika við að endurtaka leikinn.“

Katla útskrifaðist sem sjávarútvegsfræðingur í júní á þessu ári eftir þriggja ára nám. Hún hóf í framhaldi störf hjá Smyril Line Cargo, sem sér meðal annars um útflutning á sjávarafurðum, og er eftir mikla leit sennilega búin að finna sína réttu hillu.

„Þetta brölt mitt hefur sýnt mér að maður er aldrei of gamall til að fara í nám og breyta um kúrs í lífinu.“

Katla ásamt samnemendum sínum á útskriftardaginn.
Katla ásamt samnemendum sínum á útskriftardaginn. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda