Tinna Aðalbjörnsdóttir, annar eigenda módelskrifstofunnar Ey Agency, ætlar ásamt góðu fólki að halda sjálfstyrkingarnámskeið fyrir ungar stúlkur með það að markmiði að þátttakendur, stúlkur á aldursbilinu 12 til 15 ára, læri að kunna að meta sjálfa sig á réttan hátt.
Aðspurð segir hún óraunhæfa fegurðarstaðla hafa ýtt undir neikvætt viðhorf ungmenna til líkama og útlits og vill hún því ólm leggja sitt af mörkum til þess að hjálpa táningsstúlkum að þekkja eigið virði og sýna þeim að sjálfstraust sé hin rétta uppspretta fegurðar.
Hvernig kviknaði hugmyndin að þessu verkefni?
„Við vorum með þessi námskeið í mörg ár, mjög vinsæl, en nú verður það með aðeins breyttu sniði. Ég er búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í mörg ár. Mikilvægi sjálfstrausts og heilbrigðrar mótunar sjálfsmyndar var kveikjan að þessu námskeiði.
Ég man mjög vel hvernig mér leið á þessum árum, þessum mikilvægu mótunarárum, og mér leið oft ekki vel. Á uppvaxtarárum mínum voru engir samfélagsmiðlar, „filterar“, flóknar húðrútínur eða „like“-hnappar en þrátt fyrir það átti ég erfitt uppdráttar, ég var oft kvíðin, gekk með veggjum og gagnrýndi sjálfa mig.
Ég get vart ímyndað mér hvernig mér hefði liðið sem ungri stúlku í umhverfi dagsins í dag. Þessi þróun hræðir mig. Það tók mig mörg ár að sjá eigið virði, en ég er viss um að ef ég hefði haft aðgang að þessum tækjum og tólum sem við ætlum að kenna á námskeiðinu hefði ég hugsað jákvæðar til sjálfrar mín og gert raunhæfari kröfur.“
Hvað verður kennt á námskeiðinu?
„Á námskeiðinu verður lögð áhersla á samskipti, tjáningu, heilbrigði, líðan, sjálfseflingu og fleira skemmtilegt. Ungmenni eru mötuð af mjög óheilbrigðu umhverfi allan daginn og við viljum bara hjálpa þessum stúlkum að sjá sig í réttu ljósi og leyfa þeim að upplifa styrkinn sem felst í því að lifa í sínum líkama í frelsi.“
Tinna er búin að kalla saman hóp góðra kvenna sem allar eiga það sameiginlegt að búa yfir ástríðu fyrir því að aðstoða fólk við að efla sjálfstraust sitt og auka sjálfsást.
„Við erum með mjög gott teymi. Sara Snædís, heilsuþjálfari og stofnandi Withsara, ætlar að fjalla um heilbrigði í allra sinni mynd og mikilvægi þess að hugsa vel um sig og sýna sjálfri sér mildi og ást. Sif Bachman sálfræðingur mun fara yfir grundvallaratriði hugrænnar atferlismeðferðar og útskýra hvernig breyttur hugsunarháttur og hegðun getur haft jákvæð áhrif á tilfinningar og aukið sjálfstraust.
Elísa Viðarsdóttir, matvæla- og næringarfræðingur og afrekskona í knattspyrnu, ætlar meðal annars að útskýra hvernig næring getur stuðlað að jákvæðu hugarfari og Ebba Katrín Finnsdóttir leikkona ætlar að kanna samspil líkamstjáningar, hugsana og hegðunar og kenna stúlkunum æfingar til að verða öruggari í framkomu og eigin skinni.
Hamingjan verður að koma innan frá og það er það sem við ætlum að leggja áherslu á að kenna stúlkunum.“