Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem veltir fyrir sér hvað þurfi að borga miklar fjármagnstekjur þegar annar aðilinn í öryrki.
Góðan daginn.
Það sem ég vil spyrja um er eftirfarandi og hvort þetta getur talist löglegt? Hjón hafa 200.000 krónur í fjármagnstekjur á ári. Annar aðilinn er á vinnumarkaði og greiðir 22% fjármagnstekjuskatt af helming upphæðarinnar en hinn aðilinn er öryrki en hann greiðir alls 45% skatt af sínum helming í formi skerðingar. Er ekki eitthvað bogið við þetta. Ég hef spurt marga innan kerfisins vegna þessa en engin vill svara fyrir þetta?
Kveðja,
K
Sæll K.
Nú átta ég mig ekki á því innan hvaða „kerfis“ þú er að leita svara við spurningu þinni þar sem þetta er í raun sáraeinfalt og lítið mál t.d. að leita sér upplýsinga hjá Skattinum.
Fjármagnstekjur hjóna eru skattalega sameiginlegar. Frítekjumark fjármagnstekjuskatts er kr. 300.000 á ári, þannig að það passar engan vegin að greiddur sé skattur af 200.000.- og reyndar er aftekinn fjármagnstekjuskattur af slíkri fjárhæð endurgreiddur. Að því sögðu er það einfaldlega staðreynd að hjón eru samsköttuð og því reiknast skerðingar á bætur frá Tryggingastofnun af sameiginlegum fjármagnstekjum.
Hvað varðar hina ágætu spurning hvort þetta sé löglegt þá bendi ég þér t.d. á lög um tekjuskatt nr. 90/2003 og lög um almannatryggingar nr. 100/2007 sem ég myndi telja að væri óyggjandi heimild um hvort þetta sé löglegt eða ekki. Reyndar virðist oft gleymast í umræðunni að greiðslur frá Tryggingastofnun er til þess að bæta aðilum upp tekjumissi t.d. vegna aldurs eða örorku, þetta eru m.ö.o. ekki „laun“. Mín persónulega skoðun er að það er engin sérstök ástæða fyrir skattgreiðendur að greiða fólki bætur sem þarf ekki á því að halda ef það hefur t.d. aðra tekjustofna eins og fjármagnstekjur..
Sú hugmynd hefur komið upp hjá fólki að hagstæðara væri að geyma lausafé „undir koddanum“ í stað þess að ávaxta það. Inn í þetta getur spilað einhverskonar réttlætiskennd að viðkomandi eigi rétt á ellilífeyri og þyki ranglátt að hann skerðist vegna fjármagnstekna. Þetta er því miður alröng fjárhagsleg ákvörðun fyrir utan áhættuna af því að geyma lausafé sem slíkt heima hjá sér. Þrátt fyrir að fjármagnstekjur skerði ellilífeyri er varla hægt að reikna sig þangað að það borgi sig að fá engar fjármagnstekjur en fá þess í stað óskertan ellilífeyri. Ellilífeyrir ber fullan tekjuskatt eða að lágmarki um 37%. Fjármagnstekjur bera hinsvegar 22% fjármagnstekjuskatt og þar eru skattfrelsismörk kr. 300.000. Þannig að þótt að ellilífeyrir gæti skerst vegna fjármagnstekna kemur það alltaf betur út fyrir lífeyrisþega að ávaxta fé sitt á sem eðlilegastan hátt þrátt fyrir að ellilífeyrir skerðist á móti.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.