Ritstjórn Nýs Lífs hefur valið Anítu Margréti Aradóttur konu ársins 2014. Aníta vakti mikla athygli í sumar þegar hún tók þátt í 1.000 kílómetra kappreið á villtum hesti í Mongólíu, en kappreiðin er talin sú hættulegasta í heimi.
Nýtt Líf kemur út í dag og er þar ítarlegt viðtal við Anítu Margréti þar sem hún segir það mikla viðurkenningu fyrir hestaíþróttina að kona ársins samkvæmt Nýju Lífi sé hestakona.
Þá segir hún Mongol Derby vera það hræðilegasta sem hún hefur á ævinni gert en á sama tíma það besta. „Það sem ég kveið mest fyrir var að valda fólki vonbrigðum og klára ekki keppnina. Ég vissi að margir voru að fylgjast með mér. Ég ætlaði að pína mig áfram sama hvað gerðist. Það er slatti af fólki búið að klára þetta með brotin bein og ég ætlaði að gera það líka,“ segir hún í viðtalinu.
Tímaritið Nýtt Líf hefur útnefnt konu ársins frá árinu 1980 og mynda þær, sem hafa hlotið titilinn, fjölbreyttan hóp. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að hafa skarað fram úr hver á sínu sviði.