„Ég sit hér andvaka, eins og þú. Því að stundum þori ég ekki að sofna útaf martröðunum. Ekki nóg með það, ég fæ líka „flashbacks“ og kvíðaköst,“ segir Dýrfinna Benita Garðarsdóttir á bloggi sínu.
Dýrfinna er 23 ára gömul og stundar nú nám í Amsterdam. Í færslunni segir hún frá því hvernig fjórir karlmenn hafi misnotað hana og nauðgað henni.
„Fjórir karlmenn hafa misnotað mig, nauðgað mér en ég þagði og skammaðist mín. Nema eitt skipti sirka ári eftir að einn þeirra nauðgaði mér, hafði kona samband við mig og sagði að hún hafi frétt að ég „lenti“ í sama manni. Hún ætlaði sér að kæra hann og vildi að ég vissi af því. Hún veitti mér innblástur og styrk, ég ákvað að gera það sama.“
„Þú ert heppin að ég vilji vera með þér“
Sambýlismaður Dýrfinnu stóð ekki með henni í gegnum ferlið og kom gjarnan heim og hreytti í hana fúkyrðum eins og: „þú áttir þetta örugglega skilið, þetta er þér að kenna, þú ert skítug, þú ert heppin að ég vilji vera með þér.“
„Allar tilfinningarnar sem ég hafði grafið lengst niður í holu komu flæðandi upp, ég náði varla andanum. Ég var hrædd og mér leið eins og allir væru að dæma mig. Og það versta við allt var að það var verið að dæma mig og það var fyrrum sambýlismaður minn, sá sem ég elskaði. Í hvert skipti sem hann var í vondu skapi og í glasi (sem var stundum oft í viku), þá myndi hann láta mig heyra það og fleygja hluti í íbúðinni um öll gólf.“
Dýrfinna vill hvetja fólk til að sýna skilning og vera til staðar, sama hvað, fyrir vini og þeirra nánustu og ekki gera lítið úr þeim sem að leggja það á sig að rjúfa þögnina. „Þinn stuðningur gæti bjargað lífi þeirra.“
Var lögð inn á geðdeild
„Ég hafði enga stjórn á lífi mínu en brosti alltaf í kringum fólk og lét eins og ekkert væri að. Ég fyllti upp tímann minn með vinnu og „eksessívri“ líkamsrækt. Ég hataði sjálfa mig, mig langaði til þess að deyja. Ég byrjaði að endurtaka allt í hausnum á mér, þangað til að ég gat ekki andað og hætti að geta tjáð mig almennilega. Ég var lögð inn á geðdeild og gefin lyf til að halda kvíðanum, þunglyndinu og sjálfsvíghugsunum niðri.“
„Eftir að ég kom út, lagaðist ekki mikið. En ég náði einhvernvegin að þrauka og standa í fæturna þrátt fyrir allt. Svo kom sumarið 2014 og ég fékk bréf um að málið hafi verið fellt niður og á þeim tíma hafði ég frétt af þriðja og fjórða máli á hendur sama manni. Ég var eyðilögð að innan. Ég sagði þáverandi sambýlismanninum mínum frá því, skíthrædd um afleiðingarnar en hann sýndi því lítinn sem engan áhuga.“
Dýrfinna hugsar stundum enn til þess að kannski hefði verið betra að þaga því að þá hefði hún ekki þurft að fara í gegnum lögsókn bara til að fá svo allt aftur í andlitið. „Ég viðurkenni fúslega að enn þann dag í dag hugsa ég um það, því núna fæ ég enn verri „flassbökk“ og enn verri martraðir.“
Stöndum saman og rjúfum þögnina
Hún hefur nú ákveðið að leyfa ekki ofbeldismönnum sínum að vinna. „Ég ætla að segja mína sögu og ekki skammast mín fyrir hana því þetta kom fyrir mig og það var ekki mér að kenna! Stöndum saman, rjúfum fokking þögnina og já, ég er drusla.“
Druslugangan verður haldin í fimmta sinn þann 25. júlí næstkomandi klukkan 14:00. Gangan er orðin að föstum punkti í íslensku samfélagi þar sem að samfélagið rís upp gegn kynferðisofbeldi og stendur með þolendum gegn gerendum. Gangan verður farin frá Hallgrímskirkju klukkan 14:00, niður Skólavörðustíg, Bankastræti og mun enda á Austurvelli þar sem við taka fundarhöld og tónleikar.