Brynja Bragadóttir doktor í vinnusálfræði er látin. Brynja varð bráðkvödd á heimili sínu í Fossvogi aðfaranótt 25. júlí. Brynja fæddist í Reykjavík 20. mars 1972 og ólst upp í Fossvoginum.
Foreldrar hennar voru Inga Björk Sveinsdóttir kennari og Bragi Sigurþórsson byggingarverkfræðingur. Hún var í Fossvogsskóla og Réttarholtsskóla, stundaði nám við Menntaskólann við Sund og lauk þaðan stúdentsprófi sem dúx 1992. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem Brynja stundaði nám í sálfræði. Hún útskrifaðist með BA-próf í sálfræði 1997.
Hún lauk síðan MA-prófi í heilsusálfræði við Kent-háskóla í Englandi árið 2000. Lokaverkefni hennar fjallaði um vinnustreitu. Í framhaldi stundaði hún rannsóknarnám í vinnu- og heilsusálfræði og lauk doktorsprófi frá sama skóla árið 2004. Doktorsritgerð hennar fjallaði um einelti á vinnustað og áhrif eineltis á líðan þolenda.
Brynja rak ráðgjafarfyrirtækið Officium ásamt Hildi Jakobínu Gísladóttur. Brynja var einnig með alþjóðlega gráðu í markþjálfun (NLP coaching), var meðlimur í markþjálfafélagi Íslands og breska sálfræðingafélaginu (BPS). Síðustu 11 árin starfaði Brynja á Íslandi bæði við rannsóknir, fræðslu og ráðgjöf.
Lesendur mbl.is þekkja Brynju vel en hún skrifaði fjölmarga pistla inn á Smartland Mörtu Maríu þar sem vinnusálfræði var í forgrunni. Brynja var gift Ragnari Kristinssyni og lætur hún eftir sig tvær dætur.