Hátt í 200 umsóknir í Ungfrú ísland

Arna Ýr Jónsdóttir var valin ungfrú Ísland í fyrra.
Arna Ýr Jónsdóttir var valin ungfrú Ísland í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt verður hvaða stúlkur bítast um titilinn fegurðardrottning Íslands í byrjun júnímánaðar en hátt í 200 umsóknir bárust í Ungfrú Ísland-keppnina í ár. Keppnin verður haldin 27. ágúst nk. í Hörpu og segir Fanney Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri keppninnar og fyrrverandi fegurðardrottning, að hún verði með svipuðu sniði og í fyrra.

„Undirbúningurinn í ár verður með svipuðum hætti og í fyrra. Hann gekk mjög vel og stúlkurnar voru mjög ánægðar,“ segir Fanney en undirbúningurinn fólst m.a. í því að stúlkurnar fengu fyrirlestra um fjölmiðla, framkomu, s.s. Dale Carnegie, umhirðu og snyrtivörur auk þess sem þær sáu um góðgerðarstarf.

Ungfrú Ísland-„snappið“ á sínum stað

Snapchat-aðgangur keppninnar vakti vægast sagt mikla athygli í fyrra en þar var hægt að fylgjast með einstaka keppendum og undirbúningnum. Spurð hvort Ungfrú Ísland-snappið verði á sínum stað segir hún það öruggt mál. „Við ákváðum að prófa þetta í fyrra. Þetta vakti mikla athygli og var ótrúlega skemmtilegur partur af keppninni,“ segir Fanney.

Fyrsti hittingurinn hjá keppendunum verður í upphafi júnímánaðar. Verða keppendur um 24 talsins eins og í fyrra, en Fanney segir nákvæma tölu ekki liggja fyrir á þessari stundu.

Fanney Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri fegurðarsamkeppninnar Ungfrú Ísland.
Fanney Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri fegurðarsamkeppninnar Ungfrú Ísland. Ljósmynd/Fanney Ingvarsdóttir

„Snappið mun eflaust byrja sama dag og við hittumst fyrst. Við viljum leyfa fólki að fylgjast með eins og í fyrra en þá óx áhorfið jafnt og þétt eftir því sem leið á og því einhverjir sem misstu af því hvernig þetta byrjaði,“ segir Fanney.

Fanney tók við sem framkvæmdastjóri keppninnar í fyrra eftir að eigendaskipti urðu á keppninni og hélt þá sína fyrstu fegurðarsamkeppni eftir að hafa tekið sjálf þátt í slíkri keppni hér heima og erlendis. En er eitthvað sem hefði mátt fara betur í fyrra og þú vilt bæta í ár?

„Það er skrýtið að segja það en í raun ekki. Í fyrra vissi ég ekki út í hvað ég væri að fara en ég hafði ákveðnar hugmyndir eftir að hafa tekið þátt í þessum stóru keppnum erlendis,“ segir Fanney og vísar þar sérstaklega til undirbúningsins sem stúlkurnar fengu fyrir keppnina.

„Til þess settum við þessar áherslubreytingar inn og það tókst gríðarlega vel. Við Dísa [Hafdís Jónsdóttir í World Class] gerðum þetta í sameiningu og þetta tókst betur en ég hefði nokkurn tíma þorað að vona,“ segir Fanney en segir að gott megi vissulega alltaf bæta, sem sé markmiðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda