„Við erum svolitlir naglar“

Gabríella Sif Beck, eða Mia Flawless eins og hún kallar …
Gabríella Sif Beck, eða Mia Flawless eins og hún kallar sig á vellinum. Ljósmyndari / Focale 2.8

„Roller Derby er hröð snertiíþrótt, sem spiluð er á hjólaskautum og fer fram á sporöskjulaga braut. Í hvoru liði eru fimm leikmenn, það eru fjórir varnarmenn eða blokkarar, og svo er einn hlaupari eða „jammer“. Markmið leiksins er að skora sem flest stig með því að hringa andstæðingana,“ segir Gabríella Sif Beck, eða Mia Flawless líkt og hún er kölluð inni á vellinum.

„Það er hlauparinn eða „jammerinn“ sem skorar stigin. Varnarmennirnir mynda vegg til þess að koma í veg fyrir að hlaupari andstæðinganna komist fram hjá þeim. Á sama tíma reyna þeir að hjálpa sínum hlaupara að komast í gegnum vegg andstæðinganna. Þannig að þeir eru í raun að spila vörn og sókn á sama tíma,“ bætir Gabríella Sif við, en hvað var það sem heillaði hana við íþróttina til að byrja með?

 „Þetta er eiginlega kvennaíþrótt og hún er rosalega „hardcore. Hún er öðruvísi heldur en aðrar íþróttir. Margir sem spila hana hafa ekki endilega verið í íþróttum áður, eða finnst þær ekki passa inn í aðrar íþróttir. Þetta er líka frábær félagsskapur og mikil útrás. Við erum svolitlir naglar,“ segir Gabríella og hlær.

Iðkendur íþróttarinnar setja sig í hlutverk og notast við gælunöfn inni á vellinum, eins og Runa Way, Sam Sational og Lexía de Trix.

„Þetta eru svolítið „alter ego“ nöfnin okkar. Þegar við komum á brautina erum við Grim Creeper, Mia Flawless og Ice Sickle, meðal annars, og erum harðar.“

Stelpurnar kepptu á Evrópumóti í Belgíu, hér má sjá landsliðið.
Stelpurnar kepptu á Evrópumóti í Belgíu, hér má sjá landsliðið. Ljósmyndari / Lucas Martinez

Gabríella segir að slys séu fremur fátíð, þrátt fyrir að keppendur séu grjótharðir,  enda þurfi liðsmenn að fara í gegnum hæfnispróf áður en þeim er hleypt út á völl.

„Til þess að mega spila íþróttina, og mega keppa alvöru leiki, þarftu að vera búinn að ná hæfnisprófi. Þannig að þú slasir hvorki þig, né aðra, kunnir að skauta og detta. Svo spilum við auðvitað með hlífar.“

Þeir sem hugsa sér gott til glóðarinnar og langar að prufa Roller Derby geta skráð sig á nýliðanámskeið, en næsta námskeið fer fram í janúar. Flestir iðkendur eru konur, en að sögn Gabríellu eru strákar að sjálfsögðu velkomnir.

 „Til að byrja með æfðum við í bílakjallara, en núna erum við að æfa í Kórnum í Kópavogi og erum að æfa tvisvar til þrisvar í viku. Stundum fáum við stóra salinn í Gróttu lánaðan, en við höldum til dæmis leikina okkar þar. Draumurinn er þó auðvitað að eignast eigið húsnæði einhvern tímann,“ segir Gabríella að lokum.

Ýmislegt er á döfinni hjá Ragnarökum, en liðið mun keppa við þýska liðið Maniac Monsters Mainz 26. nóvember næstkomandi. Frekari upplýsingar um leikinn má finna á Facebook. Hægt verður að nálgast miða í Kolaportinu um helgina, þar sem einnig verður seldur allskyns varningur til styrktar félaginu.

Hér má sjá Ragnarök etja kappi við Dirty River Roller …
Hér má sjá Ragnarök etja kappi við Dirty River Roller Grrrls. Ljósmyndari / Maksym Gryschenko
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda