Íslandsvinurinn tónlistarmaðurinn Ed Sheeran sagði í viðtali á dögunum að enginn hefði verið viðstaddur né vitað af brúðkaupi hans og eiginkonu hans, Cherry Seaborn, sem voru gefin saman árið 2019. Sama ár hélt hann stærstu tónleika Íslandssögunnar á þjóðarleikvangi Íslendinga, Laugardalsvellinum. Auðæfi Sheerans eru metin á 258 milljarða króna.
Það fréttist hins vegar fljótt að þau hefðu gift sig en Sheeran og Seaborn hafa aldrei tjáð sig opinberlega um athöfnina fyrr en nú.
Sheeran saði að þau hefðu viljað hafa athöfnina eins litla og mögulegt var. Í viðtalinu kemur fram að þau hafi verið hvatvís og tekið þessa ákvörðun með litlum fyrirvara. „Brúðkaupið okkar var smátt í sniðum þar sem var nánast ekki hræðu að sjá. Við giftum okkur að kvöldi til á handahófskenndum degi í miðjum janúar á afskekktum stað,“ sagði Sheeran í hlaðvarpsþættinum Table Manners á dögunum.
Eftir giftinguna fóru þau beint heim og fengu sér indverskan mat. Sheeran segir að engin hafi vitað af þessu og enginn hafi verið viðstaddur athöfnina. Þau kveiktu á nokkrum kertum, giftu sig og fóru aftur heim og snæddu indverskan karrírétt.