Met Gala-hátíðin fór fram á Metropolitan safninu í New York í Bandaríkjunum í gærkvöldi þar sem stærstu stjörnur heims komu saman. Þemað í ár var bandarísk tíska frá árunum 1870-1890.
Leikarahjónin Blake Lively og Ryan Reynolds stálu senunni þegar þau mættu á rauða dregilinn en þau voru á meðal gestgjafa í ár. Kjóllinn sem Lively klæddist tók breytingum þegar hún stóð á hinum frægu Met tröppum. Kjóll er frá Versace og var hún með uppháa hanska og kórónu frá Lorraine Schwarts. Reynolds klæddist jakkafötum frá Ralph Lauren.
Þetta var í fyrsta skipti sem öllum Kardashian/Jenner systrunum var boðið og mættu þær ásamt móður sinni og umboðsmanni Kris Jenner. Kim Kardashian mætti með kærasta sínum, grínistanum Pete Davidson.
Hún klæddist gömlum kjól sem var í eigu leikkonunnar Marilyn Monroe á sínum tíma. Monroe klæddist kjólnum þegar hún söng afmælissönginn fyrir þáverandi forseta Bandaríkjanna John F. Kennedy árið 1962. Kardashian aflitaði hár sitt fyrir viðburðinn í anda Monroe en kjóllinn var hannaður af Bob Mackie.