Heimir Hannesson blaðamaður segir mikla Þórðargleði ríkja á Íslandi. Heimir, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar, segir áberandi að góður skandall sé almennt það sem fólk lesi mest í fjölmiðlum. Hann vill meina að bæði fjölmiðlar og stjórnmál hér á landi séu komin úr takti við veruleika venjulegs fólks:
„Þeir sem eru góðir netblaðamenn eru með auga fyrir því hvernig þú fóðrar þörf hjá almenningi. Að láta almenning fá að vita það sem hann telur sig þurfa að vita. Jafnvel þó að það sé ekki endilega það sem er mikilvægt. Stundum eru meira að segja alvöru fréttir settar þannig upp að það er verið að setja hunang á meðalið til þess að koma því niður í krakkann. Það er í raun á ákveðinn hátt verið að veiða fólk til þess að lesa fréttir. Fyrirsögnin skiptir máli, það getur komið fyrir að góð frétt fari ekki víða af því að fyrirsögnin er léleg, en á endanum er það innihald fréttarinnar sem skiptir mestu máli.
Það sem virðist selja mest er góður skandall, eins og þú þekkir sjálfur. Það er auðvitað leiðinlegt að Þórðargleðin sé svona rík í okkur. En það er bara staðreynd að lestur er eiginlega aldrei jafnmikill og þegar einhver skítur upp á bak. Við virðumst seint verða södd á óförum annarra einhverra hluta vegna,“ segir Heimir.
„Það er náttúrulega klassískt í kommentakerfunum þegar fólk skrifar: „Er þetta frétt?“ en það eru oftar en ekki fréttirnar sem eru mest lesnar. Og þó að auðvitað skrifi fjölmiðlar ekki hvað sem er, þá munu fjölmiðlar halda áfram að skrifa fréttir sem fólk les. En stóra spurningin hjá blaðamönnum alla daga er einmitt hvort eitthvað sé frétt eða ekki.
En ég er annars á því að fjölmiðlafólk sé sjálfhverfasta stétt landsins. Ekki endilega af því að blaðamenn séu sjálfhverfari einstaklingar en aðrir, heldur meira af því að þeir eru oft úr takti við það hvað venjulegu fólki er drullusama um hver skrifaði hvaða frétt og hver var fyrstur að segja frá einhverju. Hverjum er ekki drullusama hver greindi fyrstur frá einhverju? Venjulegt fólk er að pæla í öðrum hlutum og bæði stjórnmál og fjölmiðlar eru á ákveðinn hátt kominn dáldið úr tengingu við venjulegt fólk og hvað það er að hugsa.“
Í þættinum ræða Sölvi og Heimir um stöðu fjölmiðla á Íslandi, þar sem taprekstur og ríkisstyrkir virðist vera normið:
„Þetta ríkisstyrkta fjölmiðladæmi er gjörsamlega galið og ég gæti rætt lengi um það. En það sem er eiginlega enn galnara er að það sé einhver einn lítill héraðsmiðill sem er sá eini sem stendur undir sér fjárhagslega. Ef þú strokar ríkisstyrkina út eru allir fjölmiðlar á Íslandi í taprekstri. Þetta eru mikið til orðnar litlar ritstjórnir og meira að segja hjá stóru fjölmiðlunum eru oft mjög fáir á vakt.
Staðan á fjölmiðlum á Íslandi núna er ekki það sem fólk sér í bíómyndum. Þetta eru ekki fjölmennir fréttafundir þar sem fólk er að takast á og þar fram eftir götunum. Enda er það líklega ekki tilviljun að þegar þú skoðar lista yfir fólk sem sækir um störf upplýsingafulltrúa hér og þar, þá eru þetta allt fjölmiðlamenn. Það er ekkert voðalega traustvekjandi að fólkið sem segir þér fréttirnar sé stanslaust að sækja um vinnu hjá stofnunum og fyrirtækjum sem það er að segja fréttir af.“
Heimir skrifaði pistla þegar kórónuveirufaraldurinn var í gangi sem fóru misvel í fólk. Þar gagnrýndi hann margt í aðgerðum yfirvalda þegar lítil stemmning var fyrir öðru en einni ríkjandi skoðun:
„Ég skrifaði um þetta á sínum tíma og fékk miklar skammir fyrir. Ég var algjörlega einn í því að skrifa eitthvað á skjön við hina ríkjandi skoðun. Enda varð það úr að þríeykið svaraði öllum blaðamönnum nema mér. Ég benti á að samfélag sem fórni lífum, líkamlegri og andlegri heilsu ungmenna fyrir hagsmuni mjög fullorðins fólks sé á ákveðinn hátt sjúkt. Og að aftur og aftur væri verið að traðka á rétti barna til þess að stunda nám, til þess að margbólusettir kennarar myndu ekki smitast af einhverju sem einfaldlega væri ekki hættulegt að fá.
Ég bólusetti mig sjálfur, en ég neita bara að taka þátt í einhverju „költi“. Það er hlutverk fjölmiðla að viðra ólíkar skoðanir og hleypa fólki að sem hefur eitthvað að segja. Það var ekki þannig í Covid. Ástandið var orðið mjög furðulegt og fólk virtist kaupa hvað sem er án þess að hleypa gagnrýnni hugsun að.“
Hægt er að hlusta á brot úr þáttum Sölva á hlaðvarpsvef mbl.is.